En nú er salatveður …

Ég hefði líklega átt að setja salatið inn hér í gær eins og ég var að hugsa um því núna er sko alveg salatveður hér á Grettisgötunni að minnsta kosti. Ekki alveg sól og sumar en sól allavega.

Og þess vegna kemur hér uppskriftin sem ég var að hugsa um í gær. Tilbrigði við klassík; semsagt nokkurn veginn klassískt Nicoise-salat en bara með reyktum laxi í staðinn fyrir túnfisk. Það er ágætt líka. En til að hafa vaðið fyrir neðan mig er ég líka að mynda vetrarlegan pottrétt sem ég er að elda. Uppskriftin kemur kannski seinna, þegar viðrar til þess.

Salade Nicoise (borið fram nisúas eða eitthvað ámóta upp á frönsku, ég varð mér einu sinni stórlega til skammar í virðulegum félagsskap útlendra matargúrúa með því að bera það kolvitlaust fram) er frægt salat frá Provencehéraði í Frakklandi, kennt við borgina Nice, sem flestir kannast líklega við (salatið alltsvo, og auðvitað borgina líka). En reyndar er ekki víst að allir þekki sömu útgáfuna af þessu salati því það hefur tekið á sig ótal myndir og mikið hefur verið rifist um hvaða útgáfa sé upprunalegust.

Í salatinu eru alltaf tómatar, harðsoðin egg, svartar ólífur og ólífuolía og annaðhvort túnfiskur, yfirleitt úr dós, eða ansjósur (eða hvorttveggja) en um flest annað er deilt. Algengt er að soðnar, litlar kartöflur séu í salatinu, svo og strengjabaunir, en margir Nice-búar segja að það eigi alls ekki að vera neitt eldað grænmeti  í salatinu og séu notaðar baunir eigi það að vera ósoðnar, ungar fava-baunir. Sumir setja papriku, ætiþistlahjörtu, skalottlauk og fleira og fleira.

Í þessari uppskrift er farið tiltölulega nærri uppskrift Jacques Medecin í bók hans Cuisine Nicoise – en með einni stórri undantekningu: Ég notaði sem sagt reyktan lax í staðinn fyrir túnfisk og ansjósur. Það kemur býsna vel út.  Og svo svindlaði ég og notaði frosnar strengjabaunir í staðinn fyrir fava-baunir.

IMG_9752

Það sem ég notaði í þetta næstumklassíska salat var sem sagt: 150 g biti af reyktum laxi (eða silungi, það væri nú ekki verra, en ég átti bara lax), 2-3 vel þroskaðir plómutómatar (mega vera aðrir tómatar en þurfa að vera hárauðir og vel þroskaðir, ekkert ljósrautt eða alltaðþví grænt óæti hér sko), 1/2 lítil gúrka, 100 g strengjabaunir (frosnar), 2 egg, 1 lítill rauðlaukur, 1 hvítlauksgeiri, 50 g svartar ólífur, 50 g klettasalat eða önnur salatblöð, salt og pipar, 4 msk af ólífuolíu og dálítið af fjallasteinselju ef til er.

IMG_9760

Í svona salati vill maður hafa sem minnst af safa í tómötunum svo að ég skar þá  í tvennt, skafðu úr þeim innmatinn (fræin og safann) með teskeið, stráði dálitlu salti inn í þá og lét þá liggja á hvolfi í sigti (eða á eldhúspappír) nokkra stund til að draga úr þeim safa. Skar þá svo í bita.

IMG_9758

 

Íslenskar gúrkur eru þannig að yfirleitt finnst mér óþarfi að skafa fræin úr þeim en þarna þótti mér það betra – ég skar gúrkuhelminginn í tvennt eftir endilöngu, skóf fræin úr með teskeið, flysjaði gúrkuna svo með flysjunarjárni og skar hana í sneiðar.

Svo hitaði ég vatn í potti, setti eggin út í þegar það fór að sjóða og lét þau malla rólega í 7 mínútur. Þegar 2 mínútur voru eftir setti ég strengjabaunirnar út í, lét suðuna koma upp aftur og sauð í 2 mínútur í viðbót. Lét svo kalt vatn renna á eggin og baunirnar til að stöðva suðuna og kæla þetta.

IMG_9762

Ef þetta á að vera alvöru tekur maður salatskál eða disk úr tré, sker hvítlauksgeirann í tvennt og nuddar ílátið með skurðflötunum á hvítlauknum. Þetta er til að fá bara örlítinn hvítlaukskeim og -lykt en ekki of mikið. En það má svosem alveg pressa svolítið af hvítlauknum út í olíuna sem fer á salatið ef maður er frekar þannig stemmdur. Eða á ekki tréílát.

IMG_9765

Næst skar ég rauðlaukinn í tvennt og hvorn helming í þunnar sneiðar. Skar svo reykta laxinn í þunnar, litlar sneiðar á ská. Setti klettasalat, tómata, gúrku, rauðlauk, ólífur, strengjabaunir og lax á fatið sem ég notaði (þetta hvítlauksborna), kryddaði með pipar og salti, hellti 3 msk af olíunni jafnt yfir og blandaði vel.

IMG_9777

Ég skar svo eggin í báta og dreifðu þeim yfir salatið. Dreypti afganginum af olíunni yfir eggin og skreytti með steinselju.

IMG_9801

 

Svo er þetta bara borið fram með góðu brauði. Ætti að duga sem máltíð fyrir tvo, smáréttur fyrir fjóra.

 

Nicoise-salat með reyktum laxi

2-3 plómutómatar eða aðrir vel þroskaðir tómatar

salt

½ lítil gúrka

2 egg

100 g frosnar strengjabaunir

1 lítill rauðlaukur

150 g reyktur lax

1 hvítlauksgeiri

50 g svartar ólífur, steinlausar

50 g klettasalat (eða önnur salatblöð)

pipar

salt

4 msk ólífuolía

dálítið af flatblaða steinselju

 

 

 

 

 

 

 

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s