Þetta veður kallar ekki beint á salat

Ég ætlaði eiginlega að setja hér inn aðra uppskrift sem ég átti til – reyndar uppskrift að salati – en þegar ég skoðaði myndirnar hugsaði ég ,,nei, þetta gengur sko ekki í dag, allt of sumarlegt“ því þótt hér á Grettisgötunni sé vissulega hvorki snjókoma né ófærð er ótvírætt vetur hér. Svo ég ákvað að finna eitthvað annað. En gekk illa að finna eitthvað í safninu af óbirtum uppskriftum sem mér fannst í stíl við veðurfarið og vetrarfílinginn og endaði satt að segja í jólauppskriftum. Ekki að það sé nú beint jólalegt úti heldur …

Allavega, hér kemur uppskrift sem ég birti í jólablaði MAN. Þetta er grænmetisréttur, frekar sparilegur kannski en alls ekki mjög dýr, og heldur ekki sérlega fyrirhafnarsamur, svo að hann getur átt við sem helgarmatur hvenær sem er. Eða til dæmis um páskana (þótt ég voni að það verði ekki alveg jafnvetrarlegt úti þá). Kannski helst að blaðdeigið (fillódeigið) sé pínulítið fyrirhafnarsamt en ef það fæst ekki eða fólk vill ekki nota það hugsa ég að það megi alveg eins nota smjördeig (og þá frekar rúllu af kældu smjördeigi en frosið smjördeig í plötum). Það er líka hægt að setja fyllinguna bara í form og setja svo smjördeigslok yfir og baka.

En þetta er semsagt vefja úr blaðdeigi og ég kalla hana strudel; heitið strudel er einmitt haft í Austurríki og víðar um þunnt deig í mörgum lögum sem vafið er um fyllingu, oftast reyndar sæta, og bakað.

Ef blaðdeig er notað – það ætti að fást frosið í stórmörkuðum en maður getur þurft að leita að því; pakkann sem er á myndinni fann ég til dæmis í frystiskáp í Nóatúni í felum á bak við frosið smjördeig – þá er best að taka það úr frysti daginn áður en á að nota það og láta þiðna í umbúðum í ísskáp. Það þiðnar alveg við stofuhita á 20-30 mínútum eða svo en þá er hættara við að það klessist saman og/eða rifni í meðförum.

IMG_6531

En allavega, ég tíndi til það sem ég ætlaði að nota. Fyrir utan blaðdeigspakkann notaði ég 500 g af sveppum, rótargrænmeti, um 250 g (ég átti afgang af bökuðum gulrótum, butternutkúrbít og sætum kartöflum en ef maður á ekki eldað grænmeti þarf að byrja á að baka eða sjóða það þar til það er meyrt). Einn lítinn blaðlauk (eða hálfan stóran eða nokkra vorlauka). Þrjá hvítlauksgeira, nokkrar  timjangreinar eða ½ tsk þurrkað timjan, 1 rauða papriku, 100 g af valhnetum (en það má sleppa þeim ef maður hefur ógeð á hnetusteik, ég mundi samt halda þeim), 50 g af fræblöndu (salatblöndu, þ.e. graskersfræ, sólblómafræ og furuhnetur), 125 g af smjöri, 2 tsk af paprikudufti, ögn af chiliflögum eða cayennepipar, pipar, salt og lófafylli af basilíku, ef til er. Já og 200 ml af vatni.

IMG_6534

Ég skar sveppina í helminga eða fjórðunga eftir stærð, saxaði blaðlaukinn fremur smátt og hvítlaukinn smátt og strauk laufin af timjangreinunum.Bræddi 25 g af smjörinu á pönnu og lét sveppi, blaðlauk, hvítlauk og timjan krauma í nokkrar mínútur, ásamt pipar og salti.

IMG_6542

Svo fræhreinsaði ég paprikuna og skar hana smátt, setti á pönnuna og lét krauma í fáeinar mínútur.

IMG_6544

Á meðan skar ég rótargrænmetið í bita og grófmuldi hneturnar. Setti þetta svo á pönnuna ásamt fræblöndunni, chilipiparnum og vatninu og lét malla fáeinar mínútur.

IMG_6548

Þá tók ég pönnuna af hitanum, hrærði basilíkunni saman við og lét kólna dálítið (má líka geyma í nokkra klukkutíma).

IMG_6567

Á meðan hitaði ég ofninn í 180°C og bræddi afganginn af smjörinu. Síðan opnaði ég blaðdeigspakkann og fletti blaðdeiginu í sundur. Lagði tvö blaðdeigsblöð á vinnuborð og lét þau skarast dálítið (langhliðarnar).  Penslaði þau vel með bráðnu smjöri, lagði önnur tvö blöð ofan á og penslaði þau og setti svo þriðja lagið.

IMG_6570

Síðan dreifði ég fyllingunni á helminginn af blaðdeiginu, ekki út á brúnir, og rúllaði því upp í vöndul.

IMG_6572

Ég braut upp á endana til að loka fyllinguna inni og setti rúlluna á pappírsklædda bökunarplötu. Penslaðu deigið svo  vel með bræddu smjöri (bræða bara meira smjör ef 100 grömmin duga ekki til) og bakaðu hana í 20−25 mínútur, eða þar til deigið var fallega gullið og stökkt.

IMG_6652

Svo tók ég rúlluna út og færði hana gætilega yfir á fat (einfaldast að renna henni bara). Það má pensla hana með svolítið meira smjöri ef maður vill hafa hana gljáandi. Af því að þetta var hugsað sem jólamatur dreifði ég skærgrænni fjallasteinselju og knallrauðum litlum tómötum í kring en það má auðvitað vera eitthvað allt annað.

IMG_6691

Með þessu þarf ekkert nema grænt salat og þá er þetta fullkominn sparimatur þegar maður vill sleppa kjötinu. En það má reyndar alveg hafa vefjuna sem meðlæti með steik …

Grænmetis-strudel

Fyrir 4

1 pakki blaðdeig (fillódeig)

um 250 g rótargrænmeti, t.d. gulrætur, butternutkúrbítur, sætar kartöflur

500 g sveppir

1 lítill blaðlaukur eða nokkrir vorlaukar

3 hvítlauksgeirar

nokkrar timjangreinar eða ½ tsk þurrkað timjan

125 g smjör

pipar

salt

1 rauð paprika

100 g valhnetur (má sleppa)

50 g fræblanda (salatblanda)

2 tsk paprikuduft

ögn af chiliflögum eða cayennepipar

lófafylli af basilíku

200 ml vatn

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s