Jákvæður makríll

Í dag er alþjóðlegi hamingjudagurinn og ég á afmæli. Þetta fer ágætlega saman því ég er frekar hamingjusöm manneskja, satt að segja. Þótt það komi af og til fyrir að ég sé í vondu skapi eða eitthvað niðurdregin, þá endist það nú yfirleitt ekki lengi. Það er helst þegar ég er nývöknuð sem ég er ekkert rosalega hamingjusöm en það er nú bara af því að rúmið mitt er svo þægilegt og sængin mín svo hlý og náttfötin mín svo þægileg að mig langar ekkert á fætur. En þetta hefur lagast alveg helling síðan ég ákvað fyrir mörgum árum að reyna að hafa fyrstu hugsunina á hverjum morgni: Þetta verður góður dagur. Það virkar. Fyrir mig. Stundum.

Er ég farin að hljóma eins og amerísk sjálfshjálparbók?

Nú, en partur af því að vera jákvæð manneskja er að reyna alltaf að sjá tækifæri í hlutunum. Við erum ekki endilega að tala um jákvæðar hliðar, ekki nefna Pollýönnu, ég þoooli hana ekki. Og það rifjaðist upp fyrir mér í dag að  í mótmælum á Austurvelli á dögunum, daginn eftir makrílsamningana blessaða, var eitthvað verið að ræða þá og nefnt að nú yrði veitt allt of mikið og það yrði offramboð á makríl og verðfall og svona. Og því var stungið að mér að þarna væri viðskiptatækifæri, nú ætti ég að gefa út makrílmatreiðslubók því við gætum ekki selt hann og mundum neyðast til að éta allan þennan makríl sjálf.

Ég gaf nú lítið út á það þótt makríll sé fínasti matur ef rétt er með hann farið. En í dag, þegar ég skrapp heim til að ljúka við brauðtertu sem ég fór með í vinnuna og gæddi vinnufélögunum á, mundi ég að ég átti reyktan hornfirskan makríl í ísskápnum og fannst alveg upplagt að gera eitthvað úr honum. Og ég setti einhverntíma saman alveg ágæta uppskrift sem birtist í bókinni Jólamatur Nönnu og ákvað að gera hana, með smábreytingum þó – aðallega að þar notaði ég mascarpone-ost og kældi þetta vel svo það var meira eins og paté. Þetta hér getur maður kallað hvort heldur sem er, paté eða salat. Það er allavega gott, finnst mér.

Svo að ef allt fer nú á versta veg og maður þarf að hakka í sig makríl daginn út og inn til að halda þjóðarbúinu á floti er þetta ágæt byrjun.

Uppskriftin er mjög einföld og það tekur innan við fimm mínútur að gera þetta. Makríllinn sem ég átti var heitreyktur handfæraveiddur makríll frá Hornafirði, tvö lítil flök – vigtaði þau reyndar ekki en það er heldur ekki svo nauið. Einhversstaðar á bilinu 100-150 g, kannski.

_MG_2197

Ég byrjaði á því að plokka roðið af makrílnum og setja hann í matvinnsluvél ásamt svona 150 g af rjómaosti og þremur vorlaukum, söxuðum. Lét vélina ganga þar til allt var maukað vel saman.

_MG_2202

Svo kreisti ég safa úr hálfri sítrónu út í. Eða ég reyndar kreisti ekki allan safann úr helmingnum strax, bara hluta og smakkaði mig svo áfram. En ég held að ég hafi endað með að notað næstum allan safann.

_MG_2205

Svo bragðbætti ég með pipar, salti og svolitlu chilidufti. Ekki chilipipar, hann var í uppskriftinni sem er í Jólamatur Nönnu og það var fínt líka (bara ekki nota mikið, maður á rétt að finna að hann sé þarna en ekki meira) en núna fann ég ekki chilipiparinn og notaði svolítið chiliduft (chili powder) í staðinn. Kannski svona rétt rúmlega hnífsodd. Það var ekki síðra. Hrærði þessu saman við og smakkaði mig áfram.

_MG_2208

Og þá er þetta nú bara komið. Ég setti maukið í skál, plokkaði nokkrar flögur af makríl sem höfðu orðið eftir á roðinu af og setti þær ofan á til skrauts og svo átti ég smávegis steinselju. En hvorttveggja er bara skraut og engin þörf á því.

_MG_2221

Og svo bara gott brauð með. Nú, eða kex, en mér finnst brauðið betra.

_MG_2226

Þetta var sko ekkert slæmt. Ekki að mig langi neitt voðalega að borða eintóman makríl næstu árin samt. En svona við og við …

Reykt makrílpaté

reyktur makríll (segjum 150 g)

150 g rjómaostur eða mascarponeostur

3-4 vorlaukar

safi úr 1/2 sítrónu

smávegis chiliduft eða enn minni chilipipar

pipar

salt

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s