Fiskur er góður. Punktur.

Ég skil ekki fólk sem finnst fiskur ekki góður. Og nú ætla ég að taka fram að þegar ég var yngri var ég ekki sérlega mikið fyrir fisk. En ég hef heldur aldrei botnað í sjálfri mér þegar ég var yngri, hvorki þá né nú. Ég reyndar kunni framan af ekki að elda fisk, fremur en Íslendingar upp til hópa. En það hefur nú breyst.

Sumum finnst líka fiskur allt of dýr. En vitiði, ég er bara ekki sammála. Nema að því leyti að matur er yfir höfuð of dýr hérlendis en það er önnur saga. Og hér áður fyrr var fiskur hlutfallslega ódýrari. En við hvað er verið að miða? Við erum að tala um ferskt, bragðgott, hollt, vistvænt, óunnið, án aukaefna, og auðeldað hráefni með 100% nýtingu (þ.e. ef fiskurinn er roð- og beinlaus, eins og oftast er). Hvað er eiginlega sambærilegt?

Ég keypti mér bita af blálöngu, sem er einn af mínum uppáhaldsfiskum. 1799 krónur kílóið og bitinn sem ég keypti handa mér var rúm 250 grömm, sem gerði 478 krónur. Fyrir mig eina en þá er líka afgangs smábiti til að taka með í nestið á morgun. Mér finnst það nú ekki dýrt, satt að segja. Svipað og lítill pylsupakki, er það ekki? (eða hvað veit ég, það er dálítið langt síðan ég keypti pylsur síðast). En ef pylsurnar eru ódýrari, þá er það allavega það eina sem þær hafa fram yfir fiskinn.

Svo þið sjáið að ég er eindregin stuðningsmaður fiskáts og þar með fiskveiða og útgerðar, þótt ég sé á því að það gæti verið góð hugmynd að ganga í Evrópusambandið og vilji ekki sjá gengisfellingu. Það er allt annað mál.

En það var blálangan.

_MG_2088

 

Þarna er semsagt þessi löngubiti, 250 g rétt rúmlega. Ein dós af smjörbaunum (þessum stóru, hvítu), fjórar beikonsneiðar, einn hvítlauksgeiri, ein rósmaríngrein, ein sítróna (ég notaði reyndar bara börk af hálfri sítrónu í þetta), þrjár matskeiðar af ólífuolíu, ein matskeið af smjöri (já, OK, þetta er HF-parturinn af LCHF-mataræði), pipar og salt. (Ég notaði líka skvettu af mjólk, sem ekki er á myndinni.)

Úr þessu getur ekki orðið annað en eitthvað gott, hugsaði ég þegar ég horfði á hráefnið.

_MG_2091

 

Ég byrjaði á að setja 2 1/2 msk af ólífuolíu í lítinn pott. Setti svo rósmarínið út í og skar hvítlaukinn í þunnar flögur og setti út í og hitaði rólega þar til þetta var farið að krauma.

_MG_2092

Svo reif ég börkinn af helmingnum af sítrónunni fínt út í  og lét krauma við meðalhita þar til hvítlaukurinn var farinn að taka lit – en ekki brenna – og rósmarínið var stökkt. Þá veiddi ég rósmaríngreinina upp úr og setti á eldhúspappír (ekki henda henni). Það má sía olíuna ef maður vill losna við hvítlaukinn en ég vildi hafa hana með. Og það gerir ekkert til þótt einhverjar nálar af rósmaríninu séu eftir í pottinum.

_MG_2100

 

Svo hellti ég leginum af baununum, hellti þeim út í pottinn og lét þær krauma í olíunni við vægan hita í nokkrar mínútur, eða þar til þær voru heitar í gegn.

_MG_2103

Á meðan hitaði ég smjörið og hálfu matskeiðina af ólífuolíu, sem eftir var, á pönnu, kryddaði fiskinn með pipar og salti, setti hann á pönnuna ásamt beikoninu og steikti – fiskinn í svona 2 1/2 mínútu á hvorri hlið, beikonið þar til það var stökkt.

_MG_2108

 

Svo tók ég kartöflustapparann og stappaði baunirnar saman við olíuna og hvítlaukinn. Það má líka setja þetta í matvinnsluvél en ég vildi hafa stöppuna svolítið grófa. Ég þynnti hana ögn með mjólk og kryddaði með pipar og salti.

_MG_2126

 

Ég lét renna af beikoninu á eldhúspappír. Setti fiskinn á disk, ásamt baunastöppu og salatblöðum, og setti beikonið ofan á.

_MG_2120

 

Ég setti stökksteikt rósmarínið ofan á baunastöppuna, bæði til skrauts og svo gefur það líka aukið bragð.

Eins og ég hélt: þetta gat ekki orðið annað en gott.

 

Blálanga með hvítlauks-smjörbaunastöppu

Fyrir 1

3 msk ólífuolía

1 rósmarígrein

1 hvítlauksgeiri

rifinn börkur af 1/2 sítrónu

1 dós smjörbaunir

200-300 g blálönguflak

4 beikonsneiðar

pipar

salt

svolítil mjólk

 

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s