Sykur- og hveitilaus en samt alveg ágæt …

Ég notaði möndlur út á pasta- og kjúklingagratínið sem ég eldaði í gær og þá rann einmitt upp fyrir mér að ég átti slatta af möndlum sem þyrfti að koma í lóg – eða reyndar bráðlá nú ekkert á því, möndlur geymast ágætlega í ísskáp og ég geymi allar möndlur og hnetur í ísskáp – en ég ákvað nú samt að gera eitthvað úr þeim í dag. Og svo varð úr að ég bakaði súkkulaðiköku.

Hún var reyndar hveitilaus, glútenlaus, sykurlaus, hefði getað verið mjólkurvörulaus líka ef ég hefði notað olíu í staðinn fyrir smjör og sennilega eggjalaus ef ég hefði notað epla- eða bananamauk í staðinn – en ég gerði það ekki. Ég kann reyndar betur við kökur sem eru með einhverju en kökur sem eru -lausar. Og það var meira og minna tilviljun að kakan var laus við eitt og annað. En hún var sykurlaus viljandi. Og eins og oft hefur komið fram, þegar ég segi sykurlaus meina ég með engum viðbættum sykri í neinu formi: ekki sykri, púðursykri, hrásykri, hunangi, agavesírópi, súkríni, Walden Farms-sírópi (djöfuls ógeð), stevíu eða neinu slíku. Bara ávöxtum (og já, ég veit að þeir eru sætir).

Þannig að nei, þetta er ekki kolvetnalaus kaka. Það eru döðlur í henni og það er alveg góður slatti af kolvetnum í döðlum. Sorrí. Kakan er samt ekki sæt. En mér finnst hún nokkuð góð, sérstaklega með rjóma og berjum.

_MG_1573

Ég byrjaði á að hita ofninn í 170°C og smyrja lausbotna form – ekki mjög stórt og klippa út kringlótta bökunarpappírsörk og setja á botninn á því. Svo vigtaði ég 150 g af heilum, afhýddum möndlum (þær mættu reyndar alveg vera með hýði) og malaði þær fínt.

_MG_1576

Svo steinhreinsaði ég 200 g af mjúkum döðlum  (alltsvo ég vigtaði þær eftir að ég hafði fjarlægt steinana) og maukaði þær með 50 g af linu smjöri (mætti líka nota 3 msk af bragðmildri olíu).

_MG_1580

Svo reif ég börkinn af einni mandarínu út í og kreisti svo safann úr henni (það mætti líka nota hálfa appelsínu eða svo). Hrærði berki og safa saman við döðlumaukið, setti það svo í hrærivélarskálina og hrærði þremur eggjum saman við.

_MG_1592

Svo setti ég möluðu möndlurnar út í, ásamt 40 g af kakódufti, 1 tsk af lyftidufti og 1/4 tsk af salti, og hrærði þessu saman við döðlurnar og eggin.

_MG_1608

Svo hellti ég deiginu í formið, jafnaði yfirborðið og bakaði kökuna á neðstu rim í um 20 mínútur. Ef hún virkar enn hrá í miðjunni má baka hana aðeins lengur en 20 mínútur dugðu vel fyrir þessa. Ég lét hana kólna í 10-15 mínútur í forminu en losaði hana svo úr og setti á fat.

_MG_1612

Ég átti rifsber og skreytti kökuna með þeim. En það má alveg eins nota jarðarber, eða sósu – sæta eða ósæta eftir óskum – úr frosnum berjum.

_MG_1647

Og svo þarf auðvitað að vera þeyttur rjómi. Eða það er allavega gott að hafa hann með.

_MG_1666

Þetta var nú bara alveg ágætis kaka, þrátt fyrir sykur- og hveitileysi.

Súkkulaði-möndlukaka (sykurlaus)

150 g heilar möndlur

200 g döðlur, steinlausar

50 g lint smjör

safi og börkur af 1 mandarínu (eða 1/2 appelsínu)

3 egg

40 g kakóduft

1 tsk lyftiduft

¼ tsk salt

Bökuð við 170°C í um 20 mínútur

One comment

  1. Ferlega fín kaka, mjög góð með rjóma 🙂 Ég setti svolítið hveiti og kókos á móti möndlunum og notaði limebörk og vanillu sem bragðefni. Svo fengu nokkrar apríkósur að fljóta með döðlunum. Börnin voru sátt með þessa súkkulaðiköku, fannst hún engu síðri en hinar sætu sætu.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s