Ég gaf yfirlýsingu fyrr í vikunni um að á næstunni yrði ekkert í matinn hér á Grettisgötunni nema Käsknöpfle, þjóðarréttur Liechtensteinbúa, svona í ljósi þess að ríkisstjórnin var nýbúin að gefa út Evrópustefnu þar sem átti að stórauka samskipti við Noreg og Liechtenstein og svo gengu fjandans Norðmennirnir úr skaftinu svo nú verður að setja allt traust á Liechtenstein. Käsknöpfle er pastaréttur, úr heimagerðu hveitideigi (eins og spätzle) með rifnum osti og steiktum lauk.
En ég hvarf nú frá þessu, enda er ég farin að efast verulega um að utanríkisstefna sem felst aðallega í því að efla tengsl við Liechtensteinbúa sé mjög skynsamleg. Þetta er þó ábyggilega besta fólk. Hefur nú ekkert verið að flýta sér rosalega inn í nútímann samt – konur fengu til dæmis ekki kosningarétt þar fyrr en 1984, minnir mig.
Ég hætti semsagt við Käsknöpfle en áttaði mig samt á því áðan að mig langaði í eitthvert pasta, ekki kannski með hálfbráðnum osti og steiktum lauk, meira kannski löðrandi í rjómasósu og helst bakað. Og ég átti tvær kjúklingabringur sem ég þurfti að nota. Svo að þetta lá nú nokkuð beint við. Þetta er nú líklega meira ítalskt en liechtensteinskt – en þó ekki. Samevrópskt, líklega.
Ég byrjaði á að kveikja á ofninum og stilla hann á 220°C. Svo hitaði ég vatn að suðu í potti, saltaði það og setti 200 g af makkarónum út í og skar svona 150 g af spergilkáli niður í kvisti og setti þá í sama pott. Sauð þetta í 5-6 mínútur (makkarónurnar þurfa ekki að vera alveg meyrar, þær eiga eftir að bakast). Þá hellti ég hvorutveggja í sigti og lét renna af því.
Það má alveg nota annað pasta; ef það þarf lengri suðu er bara beðið aðeins með að setja spergilkálið út í.
Á meðan hitaði ég 1 msk af ólífuolíu á pönnu og skar kjúklingabringurnar tvær í munnbita. (Biðst afsökunar á að myndin er hreyfð, var eitthvað að flýta mér.) Ég setti bitana á pönnuna ásamt 2 söxuðum hvítlauksgeirum, kryddaði með pipar, salti, timjani og basilíku og steikti kjúklingabitana í svona 5 mínútur og hrærði oft á meðan til að þeir tækju lit á öllum hliðum.
Ég bætti 100 g af rjómaosti og vel kúfaðri matskeið af mauki úr sólþurrkuðum tómötum (eða mætti líka vera rautt pestó) á pönnuna.
Svo hellti ég 125 ml af rjóma á pönnuna, hrærði og lét malla þar til komin var slétt sósa.
Þá hellti ég makkarónunum og spergilkálinu á pönnuna og hrærði því saman við sósuna og kjúklinginn. Hellti svo öllu saman í frekar lítið, eldfast mót, stráði 2-3 msk af raspi (ég notaði panko-rasp, en má vera hvaða brauðmylsna sem er) yfir og grófsaxaði svo 30-40 g af möndlum og dreifði yfir.
Það má alveg sleppa möndlunum, eða nota t.d. möndluflögur, en mér finnst gott upp á áferðina að hafa grófsaxaðar möndlur.
Svo setti ég allt saman í ofninn og bakaði í um 15 mínútur, eða þar til yfirborðið var fallega gullinbrúnt. Það má líka hafa hitann eitthvað lægri og baka þetta þá ívið lengur.
Með þessu þarf ekkert nema salatblöð.
Alveg ágætt bara. Gleymi Liechtenstein í bili.
Bakaðar makkarónur með kjúklingi
200 g makkarónur (eða annað frekar smátt pasta)
salt
150 g spergilkál
2 kjúklingabringur
1 msk ólífuolía
2 hvítlauksgeirar
1/2 tsk þurrkað timjan
1/2 tsk þurrkuð basilíka
pipar
salt
100 g hreinn rjómaostur
1 vel kúfuð matskeið af mauki úr sólþurrkuðum tómötum (eða eftir smekk)
125 ml rjómi
2-3 msk rasp (ég notaði panko-rasp)
30-40 g heilar möndlur, saxaðar gróft
Geggjað! Áfram Evrópa!
Fyndið samt að þessi réttur er til með útfærslum amk í Finnlandi sem macaroni laatikko og Austurríki sem Käsespätzle. Burtséð frá frekar leiðinlegu mac&cheese útgðafunni bandaríkjamanna 😉
En, ég elska einmitt þetta með þetta svokallaða alþjóðlega eldhús, öll þjóð fundu upp pönnukökuna, var það ekki öruglegga þannig?