Vetrarfiskur

Það er nú mun hlýrra í veðri hér í Reykjavík en í gær en þó var dálítið kaldranalegt að standa á Austurvelli áðan og ekki einu sinni girðing til að sparka í … Ég var einmitt að hugsa um það á leiðinni heim að nú væri gott að fá einhvern sjóðheitan og saðsaman vetrarlegan pottrétt eða súpu. En lét mér þó nægja að hita upp afganga. Og ég var búin að ákveða að setja hér inn einhverja uppskrift sem ég ætti til en þegar ég fór að skoða það sem ég átti var flest af því vorlegt og létt og einhvern veginn ekki það sem ég var að hugsa um.

Þessi uppskrift komst samt næst því, þetta er fiskréttur sem ég var með í febrúarblaði MAN og er – ja, ekki beint vetrarlegur, kannski meira haustlegur. Það gerir líklega grænkálið. En ef grænkál er ekki til má nota til dæmis spínat.

Já, og fyrst ég minnist á ,,hvað er hægt að nota í staðinn“ – þá er ég viss um að það gleður einhverja að frétta að nú er loksins verið að endurprenta bókina mína, Maturinn hennar Nönnu, sem gengur einmitt töluvert út á að skipta út hráefnum, nota það sem til er, nýta afganga og finna leiðir til að nota innihaldið úr öllum krukkunum sem maður hefur keypt til að nota eina eða tvær matskeiðar úr og fylla svo ísskápinn. (Bókin hafði einmitt vinnuheitið ,,Notað og nýtt“.) Hún er búin að vera uppseld í nokkur ár og mikið verið spurt eftir henni. En hún ætti að vera til eftir nokkrar vikur.

En jæja, hér er fiskurinn. Bragðmikill og svolítið óvenjulegur fiskréttur af hollara taginu. Þeir sem vilja sneiða hjá kolvetnum geta sleppt kartöflunum og notað annað grænmeti í staðinn.

 IMG_9825

Ég var með svona 350-400 g stykki af steinbít en það má nota annan hvítan, þéttan fisk. Þetta dugir fyrir tvo (eða tvisvar í matinn fyrir einn) en það má líka tvöfalda uppskriftina. Svona 100 g af grænkáli, 1 rauðlauk, 1 lítinn hvítlauksgeira, 2 msk af ólífuolíu, 1/2 msk af smjöri, 1 sítrónu (notaði þó bara dálítið af safanum), 1 msk af furuhnetum, 1 msk af graskersfræjum, 1 msk af þurrkuðum trönuberjum eða rúsínum (má sleppa), ögn af chiliflögum, pipar, salt – já, og 200 g af litlum kartöflum, sem ég gleymdi að hafa með á myndinni.

Ég byrjaði á að skera fiskinn í bita, kryddaði þá með pipar og salti og lét standa smástund. Setti svo kartöflurnar í pott og sauð þær þar til þær voru meyrar (það má líka not kartöfluafgang).

IMG_9827

Á meðan skar ég stönglana úr grænkálinu og skar svo stönglana í bita. Saxaði rauðlaukinn og hvítlaukinn.

IMG_9880

Svo hitaði ég 1 msk af ólífuolíu á pönnu, setti grænkálsstöngla, rauðlauk, hvítlauk, furuhnetur, graskersfræ og chiliflögur á hana og lét krauma við meðalhita í nokkrar mínútur.

IMG_9883

Ég saxaði grænkálsblöðin og setti þau á pönnuna – best er að setja þau í 2-3 skömmtum og hræra vel í á milli.

IMG_9885

Síðan bætti ég trönuberjum og dálitlum sítrónusafa á pönnuna, lækkaði hitann, setti lok yfir og lét krauma við vægan hita í 8 mínútur, eða þar til allt var orðið meyrt.

IMG_9892

Ég skar svo kartöflurnar í fjórðunga þegar þær voru fullsoðnar, bætti þeim á pönnuna með grænkálinu þegar nokkrar mínútur voru eftir og hrærði vel.

IMG_9890

Á meðan grænkálið mallaði tók ég aðra pönnu, hitaði 1 msk af ólífuolíu og 1/2 msk af smjöri á henni og steikti fiskinn við meðalhita í nokkrar mínútur, eða þar til hann er rétt steiktur í gegn. Ég notaði þykkt stykki af steinbít og bitarnir voru næstum jafnþykkir og þeir voru breiðir svo ég steikti þá í um 2-3 mínútur á hvorri hlið.

IMG_9897

Þegar allt var tilbúið setti ég grænkálsblönduna á fat  og fiskbitana ofan á og bar fram. Það má líka setja fiskbitana ofan á grænkálið á pönnunni og bera fram á henni.

IMG_9929

Þetta var alveg hreint ágætt.

 

Steiktur fiskur með grænkáli og kartöflum

350-400 g steinbítur eða annar hvítur fiskur

pipar

salt

200 g litlar kartöflur

100 g grænkál

1 rauðlaukar

1 hvítlauksgeiri

2 msk ólífuolía

1 msk furuhnetur

2 msk graskersfræ

smáklípa af chiliflögum

1 msk þurrkuð trönuber eða rúsínur (má sleppa)

safi úr 1/4-1/2 sítrónu

1 msk smjör

 

 

 

 

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s