Komið að köku

Ég hef ekkert verið í miklu bökunarstuði að undanförnu, satt að segja, og það er heillangt síðan ég hef sett hér inn köku. Svo það er eiginlega komið að því, svona til að halda jafnvæginu …

Allnokkrar af þeim kökum sem ég hef sett inn í vetur eru sykurlausar, eða öllu heldur án viðbætts sykurs og sætuefna, heldur eingöngu með þeim sykri sem er í ávöxtum sem í þeim eru. Og mér er nú þannig farið að ég er afskaplega lítið fyrir sætuefni, hverju nafni sem þau nefnast eiginlega, vil þá frekar nota bara sykur – en minna af honum. Þessi kaka er hins vegar ekki sykurlaus, það er smávegis sykur í henni og svo er Nutellað náttúrlega sætt – og svo eru perurnar. En hún er ekki dísæt, bara mjög góð (fannst mér og fleirum). Uppskriftin var gerð fyrir febrúarblað MAN.

Einhverntíma fyrr í vetur var ég að fletta matreiðslublöðum sem ég á og kom auga á uppskrift sem mér fannst hljóma spennandi – perukaka með súkkulaðihnetumauki. Nutella var reyndar að ég held ekki nefnt en það var það fyrsta sem mér kom í hug, enda er ég alltaf svolítið veik fyrir Nutella. En þegar ég fór að skoða uppskriftina í blaðinu freistaði hún mér ekkert sérstaklega, mér fannst of lítið af perum í henni og of mikið af hnetumaukinu, og svo kakóduft til viðbótar, sem mér fannst nú óþarft.

Mér datt þessi uppskrift í hug á dögunum en fann hana ekki aftur svo að ég ákvað að baka mína eigin Nutellaperuköku. Ég þóttist nú muna eða vita hlutföllin svona nokkurn veginn en ákvað að nota ekki heila krukku af Nutella eins og mig minnir að hafi verið í uppskriftinni í blaðinu og setti dálítið af smjöri og sykri í staðinn en sleppti kakóduftinu og hugsanlega einhverju fleiru, en setti  meiri perur. Úr þessu varð ansi gómsæt kaka.

IMG_9592

Ég byrjaði á að hita ofninn í 165°C og smyrja meðalstórt smelluform. Svo setti ég Nutella, smjör og sykur í hrærivélarskálina og hrærði þetra vel saman.

IMG_9600

Svo tók ég þrjú egg og þeytti þeim saman við, einu í senn.

IMG_9601

 

Síðan blandaði ég saman 150 g af hveiti, 1 1/2 tsk af lyftidufti og 1/4 tsk af salti og hrærði saman við Nutellablönduna. Setti deigið svo í formið og sléttaði yfirborðið.

IMG_9607

Svo tók ég þrjár frekar litlar perur, flysjaði þær, skar í fjórðunga eftir endilöngu og kjarnhreinsaði þær. Raðaði fjórðungunum  í hring ofan á deigið og ýtti þeim aðeins niður í það.

IMG_9611

Ég bakaði svo kökuna á neðstu rim í 35-40 mínútur, eða þar til hún var farin að losna frá börmunum en var enn svolítið mjúk í miðju. Lét hana kólna í forminu smástund en losaði hana svo úr því og settu á fat.

IMG_9615

 

Áður en kakan var alveg orðin köld setti ég 2 msk af apríkósusultu og svona 1/2 msk af vatni í lítinn pott og hitaði þar til marmilaðið var bráðið. Penslaði perurnar, svo yfirborð kökunnar og síðan perurnar aftur.  Þetta kemur í veg fyrir að perurnar dökkni meðan kakan bíður.

IMG_9645

Að endingu tók ég fáeinar valhnetur (má líka nota aðrar hnetur, eða sleppa alveg), grófsaxaði þær og stráði yfir kökuna. Marmilaðið ætti að duga til að festa þær (svona nokkurn veginn).

IMG_9685

Þetta var nú nokkuð góð kaka, bara.

IMG_9679

Nutellakaka með perum

200 g Nutella (eða annað súkkulaðihnetumauk)

100 g smjör, mjúkt

50 g sykur

3 egg

150 g hveiti

1½ tsk lyftiduft

¼ tsk salt

3 litlar eða meðalstórar perur

2 msk apríkósumarmilaði

½ msk vatn

nokkrar valhnetur (eða aðrar hnetur)

 

One comment

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s