Og nú byrjar fastan …

Ég bakaði hálfan annan helling af bollum á sunnudaginn, fékk meiri bollur á mánudaginn, eldaði saltkjöt og baunir ofan í átvöglin í fjölskyldunni í gær og eldaði svo tvo stóra súpuskammta (ekta ungverska gúllassúpu og sveppa-bauna-grænmetissúpu) fyrir vinnufélagana í morgun í tilefni öskudagsins og bakaði brauð með. Svo það er líklega kominn tími til að hefja föstuna …

Reyndar borðaði ég nú bara upphitaðan afgang af baunasúpu í kvöldmatinn. En fer í einhvern annan gír næstu dagana. Til dæmis er ég aðallega með uppskriftir að grænmetisréttum í nýju tölublaði af MAN, sem er að koma út, og hér er grænmetisréttur sem var í febrúarblaðinu. Reyndar er þetta fyrst og fremst meðlæti, til dæmis með fiski (sérlega gott með laxi og silungi) en ef maður kann vel að meta fenniku má borða réttinn með salati og brauði.

Fennika eða fennel er jurt sem upprunnin er við Miðjarðarhaf og fræin hafa verið notuð sem krydd í þúsundir ára og laufin sem kryddjurt, enda vex plantan mjög víða villt. Það er hins vegar ræktað afbrigði sem notað er til matar sem grænmeti en fennikuhnýðið er í rauninni neðsti hluti blaðstilkanna.

Fennika er stökk og frískleg og hefur mildan, svolítið sætan anískeim. Hún er bæði borðuð hrá, m.a. í salötum (til dæmis með appelsínum eða avókadó), og elduð á ýmsan hátt – hana er hægt að steikja, gufusteikja, baka, grilla og nota í pottrétti. Heil, meðalstór fennika þarf um 40 mínútur í ofni en tíminn styttist til muna ef hún er skorin í sneiðar eða geira. Það er hægt að pönnusteikja hana með lauk og nota sem meðlæti með ýmsum réttum og hún er sérlega gott meðlæti með laxi og fleiri fiskum.

IMG_9557

Fennikur eru yfirleitt bestar á veturna en fá beiskan keim þegar hlýnar í veðri. Veldu fennikur sem eru ekki mjög stórar, og eru hvítar eða ljósgrænar og frísklegar og ekki farnar að linast eða dökkna. Ef blöð eru á þeim eiga þau að vera græn og fersk. Geymdu þær í kæli, helst vafðar í rakan eldhúspappír, en ekki geyma þær lengi því þær tapa bragði með tímanum. Það er hægt að frysta þær en þær halda bragðgæðum sínum ekki vel.

IMG_9617

Ég var með tvær meðalstórar fennikur, um 200 g hvora. Byrjaði á að fjarlægja meirihluta laufanna (ef einhver eru) – það má geyma þau og nota til skreytingar ef vill. Ég skar líka örþunna sneið neðan af hverri fenniku en lét þó rótina halda sér til að halda fennikuhlutunum saman.

IMG_9618

Svo skar ég hverja fenniku í 4-6 hluta. Best er að passa að hluti af rótinni fylgi hverri sneið til að halda þeim saman.

IMG_9620

Ég hitaði 1 msk af smjöri og 1 msk af olíu á þykkbotna pönnu, raðaði fennikunum á hana og brúnaði þær við góðan hita í nokkrar mínútur.

IMG_9624

Ég sneri þeim á meðan svo að þær brúnuðust nokkuð jafnt á öllum flötum og kryddaði þær með pipar og salti.

IMG_9629

Ég saxaði  3-4 vorlauka og setti á pönnuna ásamt nokkrum timjangreinum sem ég átti til.  Steikti þetta  í 1 mínútu í viðbót og hellti svo 200 ml af vatni, blönduðu 1 tsk af kjúklingakrafti (má vera grænmetiskraftur), á pönnuna.

IMG_9654

Ég hitaði þetta að suðu og setti þá lok á pönnuna en hafði þó smárifu. Lét malla í 6-8 mínútur, eða þar til fennikurnar eru vel meyrar og mestallur vökvinn gufaður upp.

IMG_9719

Ekki slæmt.

IMG_9748

Gufusteikt fennika

400 g fennikur

1 msk olía

1 msk smjör

pipar

salt

3-4 vorlaukar

nokkrar timjangreinar

200 ml vatn

1 tsk kjúklingakraftur

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s