Það er fleira matur en saltkjöt

Kannski eru allir að hugsa um saltkjöt í dag. Ég var í Nóatúni áðan og það var fátt annað en saltkjöt að sjá í kjötborðinu og allir voru að kaupa saltkjöt – og kannski var það vegna aldurssamsetningar viðskiptavinanna en ég tók eftir að allir sem voru á undan mér í röðinni vildu blandaða bita en ekki valda, tóku fram að þeir vildu ekki magurt eða léttsaltað og roskin kona sendi afgreiðslumann á bak við að gá hvort hann ætti virkilega ekki feitari bita. Nei, þetta er nú ekki sérlega hollt en það er þó ekki sprengidagur nema einu sinni á ári …

Ég var líka að kaupa saltkjöt – blandað, ekki valið, en bað ekki sérstaklega um feita bita þó – en ég ætla ekki að koma með uppskrift að saltkjöti og baunum hér. Ég elda það alltaf ósköp svipað en það er fjölskylduhefð hér að kvarta yfir öllu mögulegu í sambandi við sprengidagsmáltíðina. Það er of lítið af kjöti eða of mikið af rófum eða súpan er of heit eða diskarnir eru of litlir eða of stórir eða kjötið er of feitt eða of magurt eða það eru of margir rifjabitar eða gulrótabitarnir eru of stórir eða súpan er of sölt eða ekki nógu sölt eða súpan er of gul á litinn eða kjötið of rautt eða … Dóttir mín er reyndar þegar búin að kvarta fyrirfram yfir því að sprengidagur þurfi endilega að vera á þriðjudegi af því að hún er að vinna og kemst ekki og dótturdóttirin er búin að kvarta yfir að það þurfi endilega að vera baunasúpa með saltkjötinu því hún sé vond.

Ekki misskilja; þetta er fjölskylduhefð og ég tek ekkert mark á neinum af þessum kvörtunum.

En hér er allavega öðruvísi lambakjöt, ekki saltað. Eða ekki sem heitið getur. En það er með rótargrænmeti og mætti alveg hafa rófur líka, ofnsteiktar gulrófur eru alveg ágætar. Þetta er semsagt hægeldaður lambabógur með grænmeti, uppskrift sem ég var með í janúarblaði MAN og er fínasta helgarsteik – en gæti alveg átt við á sprengidaginn líka ef fólk langar ekki í saltkjöt og baunasúpu.

IMG_7274

Lambabógur er mun ódýrari en læri og hentar líka betur fyrir litlar fjölskyldur. Kjötið er bragðgott og bragðmikið en ekki eins meyrt og lærið og því hentar hæg, rök matreiðsla eða gufusteiking best – það þýðir að kjötið er eldað í lokuðu íláti og vökvi hafður í fatinu þannig að gufa leikur stöðugt um kjötið og það þornar ekki. Svo má fjarlægja lokið og hækka hitann til að fá fallegan lit á kjötið.

IMG_7280

Ég var með bóg sem var um 1,5 kíló, frá Kaupfélagi Skagfirðinga en keyptur í Bónus. Svo var ég með 2-3 sellerístöngla, 250 g af gulrótum, 1 lauk, 4 hvítlauksgeira, 1 tsk af kummini, 1 tsk af þurrkuðu timjani, 3/4 tsk af pipar, salt, 2 msk af ólífuolíu og svo 600 g af bökunarkartöflum og 600 g af sætum kartöflum sem ekki eru á myndinni.

IMG_7284

Ég byrjaði á að hita ofninn í 150°C og þerra lambabóginn með eldhúspappír. Svo blandaði ég saman kummini, timjani, pipar og salti og nuddaði vel inn í kjötið á öllum hliðum. Lagði svo bóginn í eldfast mót. Svo flysjaði ég gulræturnar og laukinn og skar í bita og skar líka selleríið í bita og hvítlaukinn í þunnar sneiðar. Blandaði þessu öllu saman og dreifði í kringum bóginn.

IMG_7319

Ég hellti svo ½ l af sjóðandi vatni í formið og breiddi álpappír þétt yfir (en svo má líka  nota ofnpott eða form með loki). Setti formið í ofninn og lét malla í 2-2½ klst.

IMG_7321

Á meðan flysjaði ég  kartöflurnar og sætu kartöflurnar, skar þær í bita (2-4 cm á kant), velti þeim upp úr ólífuolíu og kryddaði með salti. Svo tók ég formið svo út og hækkaði hitann í 230°C. Hellti soðinu í skál en skildi grænmetið eftir í forminu. Svo dreifði ég kartöflunum og sætu kartöflunum í kring og setti formið aftur í ofninn í 25-30 mínútur, eða þar til kjötið hafði tekið fallega brúnan lit og kartöflurnar voru orðnar meyrar. Ef kjötið virðist ætla að brúnast of mikið áður en grænmetið er tilbúið má taka það út og halda því heitu.

IMG_7405

En jafnvel þótt kjötið sé látið vera jafnlengi og grænmetið í ofninum er best að láta það standa smástund eftir að það er tekið út. Á meðan hitaði ég soðið í potti, bragðbætti það eftir þörfum með pipar og salti (svo má líka bæta við kjötkrafti), þykkti það ögn með sósujafnara og bar fram með kjötinu. Stráði ögn af steinselju yfir grænmetið af því að ég átti hana til.

IMG_7429

 

Alveg ágætt bara.

 

Hægeldaður lambabógur með kartöflum og sætum kartöflum

1 lambabógur, um 1,5 kg

1 tsk kummin (cumin)

1 tsk timjan, þurrkað

¾ tsk pipar

salt

250 g gulrætur

2-3 sellerístönglar

1 laukur

4 hvítlauksgeirar

½ l vatn, sjóðandi

600 g bökunarkartöflur

600 g sætar kartöflur

2 msk ólífuolía

e.t.v. svolítil steinselja

 

 

 

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s