Beikon og kotasæla, einhver sukkjöfnun hér á ferð …?

Ég er búin að vera bæði i gær og dag á Austurvelli vegna þess að mér þykir svolítið vænt um lýðræðið – ekki gallalaust sístem en það skársta sem við höfum – og einhvernveginn er það svo að mótmæli kveikja ævinlega hjá mér hugrenningar um kjötbollur. Þannig að þegar ég kom heim og átti hakk lá eiginlega beint við að elda kjötbollur. Eða reyndar urðu þetta hálfgerð buff því þær voru flatar. En í brúnni sósu og með sultutaui og súrmeti svo þær voru mjög byltingarlegar. Eða mótmælalegar, allavega.

En það kemur nú ekki uppskrift af þeim hér. Þess í stað er uppskrift sem er eiginlega ekkert mótmælaleg en ágæt samt. Hún hefur áður birst í janúarblaði MAN.

Ég baka oft einhvers konar flatbrauð – það er ákaflega fljótgert og hægt að baka aðeins örfáar kökur í einu ef því er að skipta, og geyma kannski deig í kæli í nokkra daga og taka af því eftir þörfum.

Þessar kökur henta vel í morgunmatinn eða sem nesti til að hafa í hádeginu. Ég notaði blöndu af hveiti og heilhveiti en það má nota bara annaðhvort; deigið verður meðfærilegra eftir því sem meira er notað af hveiti og ef notað er heilhveiti eingöngu geta kökurnar orðið svolítið stökkar og brotgjarnar.

Þetta er semsagt beikonflatbrauð; beikonið gefur brauðinu bragð en það má líka alveg sleppa því, einkum ef notaðar eru kryddjurtir.

IMG_7287

 

Ég semsagt byrjaði á að steikja nokkrar sneiðar af mögru beikoni (4-6 sneiðar) á þurri pönnu þar til þær voru stökkar. Notaði mína ágætu beikonpressu til að halda þeim flötum en það er svosem ekki skilyrði. Tók þær af pönnunni þegar þær voru tilbúnar, setti þær á eldhúspappírsörk, lagði aðra eldhúspappírsörk ofan á og reyndi að pressa úr þeim sem mesta fitu (og þar kom beikonpressan sér náttúrlega vel).

IMG_7294

Ég lét beikonsneiðarnar kólna og staflaði þeim svo upp og skar þær í litla bita.

IMG_7295

Ég tíndi svo saman hráefnið; fyrir utan beikonið notaði ég 75 g af heilhveiti, 60 g af hveiti, 1/2 tsk af lyftidufti, 2 msk af sesamfræjum, svolítinn nýmalaðan pipar (ekkert salt, það er í beikoninu), 1/4 tsk af þurrkuðu timjani (má nota aðrar kryddjurtir, ferskar eða þurrkaðar), 50 g af köldu smjöri,  1/2 rautt chilialdin, 1 hvítlauksgeira og 1 stórt egg sem gleymdist að hafa með á myndinni.

IMG_7298

Ég blandaði heilhveiti, hveiti, lyftidufti , timjani og pipar saman í matvinnsluvél. Setti smátt skorið chili og hvítlauk út í ásamt smjöri í bitum og hrærði vel saman.

IMG_7301

Svo hrærði ég egginu saman við.

IMG_7305

Að lokum setti ég beikonið og sesamfræin út í og hrærði vel saman (það eiga ekki að vera neinir stórir bitar í beikoninu. Ef deigið er of þurrt má bæta við ögn af köldu vatni.

IMG_7307

 

Svona ætti deigið að vera – mylsnukennt en þannig að auðvelt sé að hnoða það saman. Ég mótaði það í lengju, skipti henni í 10 hluta, hnoðaði hvern um sig í kúlu og flatti kúlurnar svo út í frekar þunnar kökur, um 2 mm á þykkt og kannski svona 8-10 cm í þvermál. Ég hafði brúnirnar óreglulegar en það má líka stinga út alveg kringlóttar kökur ef maður vill.

IMG_7324

 

Svo hitaði ég þykkbotna pönnu og þurrbakaði flatkökurnar við meðalhita  í um 2 mínútur á hvorri hlið.

IMG_7357

 

Staflaði þeim svo upp og bar þær fram. Þær eru fínar með smjöri og osti en það er líka hægt að hafa annað álegg, t.d. kryddaða kotasælu:

IMG_7346

 

Ég saxaði svona hálfan rauðlauk smátt (ætti að gera 2 msk eða svo) og líka 6-8 steinlausar ólífur. Blandaði þessu saman við 125 g af kotasælu sem ég hafði látið standa smástund í sigti, bætti við dálítilli saxaðri steinselju (mætti líka vera t.d. basilíka) og kryddaði með svolitlum  nýmöluðum pipar.

IMG_7371

 

 

Beikonflatbrauð með kotasæluáleggi

4-6 sneiðar magurt beikon

75 g heilhveiti

60 g hveiti

½ tsk lyftiduft

pipar á hnífsoddi

50 g smjör, kalt

1 stórt egg

½ rautt chilialdin, fræhreinsað

e.t.v. basilíka, steinselja eða aðrar kryddjurtir

kalt vatn eftir þörfum

 

Kotasæluálegg:

125 g kotasæla

2 msk rauðlaukur, smátt saxaður

6-8 ólífur, saxaðar

e.t.v. steinselja eða basilíka, söxuð

nýmalaður pipar

Blandaðu öllu vel saman og bragðbættu með

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s