En til að bæta nú aðeins úr bloggletinni síðustu vikuna, þá er hér önnur uppskrift af allt öðrum toga. Ég á eitthvað af myndum sem ég tók um jólin og áramótin, komst ekki til að skrifa um þá og fannst svo einhvernveginn ekki passa að birta einhverja jólaveislurétti svona á fyrstu vikum ársins, þegar allir eru búnir að borða yfir sig af hátíðamat og eru líka blankir og/eða í átaki eða eitthvað … En nú eru bráðum tveir mánuðir liðnir frá jólum og alveg hægt að fara að koma með eitthvað af þessu. Þótt það séu engar stórhátíðir alveg á næstunni, það þarf nú ekkert stórhátíð til að gera sér einhvern dagamun.
Ég sá um hátíðarnar að eitt af því sem algengast var að þeir sem komu inn á bloggið gegnum gúgl var að leita að voru grafnar gæsabringur. Ég hef verið með uppskrift áður og hún er ágæt en ég var ekki ánægð með myndirnar og svo er alltaf gaman að breyta til svo ég ætla að setja hér inn uppskriftina að gæsabringunum sem ég var með á Þorláksmessuhlaðborðinu mínu og þóttu bara nokkuð góðar, heyrðist mér. Einhverjir eiga nú sjálfsagt enn gæsabringur í frysti – og svo fást þær í einhverjum búðum – og svo er þá þessi uppskrift hér þegar fólk fer aftur að gúgla fyrir næstu jól.
Ég byrjaði á að forsalta gæsabringuna. Geri það reyndar ekki alltaf, það fer eftir hvað ég vil hafa hana þurra, en forsöltunin dregur safann úr henni. Þetta var ein bringa, rúm 200 grömm.
Fyrst hreinsaði ég bringuna og reyndi að skera burt allar himnur (sé þó á myndunum að eitthvað smávegis hefur farið framhjá mér). Svo blandaði ég saman 6 msk af salti og 1 msk af sykri og stráði hluta af blöndunni í lítið, eldfast mót. (Ég segi eldfast en það er í sjálfu sér ekki málið – en ílátið þarf að vera úr gleri, leir eða ryðrfíu stáli).
Svo setti ég gæsabringuna ofan á, stráði afganginum af saltblöndunni yfir og breiddi plastfilmu yfir formið. Setti létt farg ofan á (ég notaði lítið bretti eða plötu og setti niðursuðudós þar ofan á) og lét standa í ísskápnum til næsta dags. Þá tók ég bringuna- sem nú var umlukin fljótandi pækli vegna þess hve mikill safi hafði runnið úr því – skolaði saltið af henni undir kalda krananum og þerraði hana vel með eldhúspappír.
Þá var komið að því að útbúa kryddblönduna sem ég ætlaði að nota. Ég blandaði saman 2 msk af flögusalti (ég var með íslenskt salt en man ómögulega hvort það var frá Saltverki eða Norðursalti), 1 msk af sykri, 1 tsk af grófsteyttum piparkornum, 1/2 tsk af grófsteyttum kóríanderfræjum (má sleppa) og 1 tsk af blönduðum þurrkuðum kryddjurtum – ég notaði herbes de Provence. En annars má nota hvaða kryddjurtir sem manni dettur í hug, til dæmis blóðberg, timjan, rósmarín eða óreganó, og svo líka einiber, dill- eða fennikufræ og rósapipar, sem skreytir bringurnar töluvert.
Ég lagði nokkrar ferskar timjangreinar á álpappírsörk (reyndar er betra að nota plastfilmu en hún var búin) og stráði helmingnum af kryddblöndunni yfir.
Svo setti ég gæsabringuna þar ofan á og stráði afganginum af kryddblöndunni yfir.
Lagði nokkrar timjangreinar efst, vafði álpappírnum utan um bringuna, setti hana í kæli og hafði létt farg ofan á.
Ég sneri bringunni nokkrum sinnum, svona tvisvar eða þrisvar á dag. Ég læt bringur yfirleitt liggja í einn til þrjá sólarhringa. Man ekki alveg hvað þessi var lengi en held að það hafi verið tveir sólarhringar, það finnst mér mjög passlegt.
Í þetta skipti vildi ég hafa saltið og kryddið með svo ég tók bringuna bara, setti hana á bretti og skar hana í þunnar sneiðar á ská. En það má líka strjúka mestallt kryddið af áður en hún er skorin niður.
Ég bar hana bara fram með klettasalati …
… en það er gott að skreyta með einhverjum berjum, ferskum eða þurrkuðum, og þarna um jólin átti ég til (erlend) rifsber. En svo er líka hægt að hafa einhverja góða kryddjurta- og/eða berjavinagrettu eða sósu. Eða bara graflaxsósu. Og kannski ristað brauð með.
Grafin gæsarbringa
1 gæsarbringa, 200-250 g
6 msk salt
2 msk sykur
2 msk flögusalt
1 tsk piparkorn, grófsteytt
1/2 tsk kóríanderfræ, grófsteytt (má sleppa)
1 tsk blandaðar þurrkaðar kryddjurtir (t.d. herbes de Provence) eða aðrar kryddjurtir eða krydd eftir smekk
nokkrar timjangreinar
[…] Food and Cookery og þar eru uppskriftir að bæði steiktum gæsabringum og gröfnum gæsabringum. Grafna bringan er hér en nú ætla ég að setja hér uppskrift að steiktu bringunum (ókei, þetta var bara ein bringa […]