Það var fyrir löngu …

Það er orðið dálítið langt síðan ég setti eitthvað hér inn síðast, hef verið upptekin við ýmislegt annað en þó aðallega löt. Reyndar fyrst og fremst löt við hluti sem koma matreiðslutilraunum og matarskrifum lítið við en eru þess eðlis að mér hefur fundist að ég gæti ekki verið að eyða tíma í eitthvað slíkt á meðan ég nennti ekki að gera eitthvað sem meira liggur á …

En hér er allavega ein uppskrift … Þýðir það að ég sé búin að gera þetta sem ég þarf að gera? Nja … sko … sumt af því.

Allavega: Á dögunum átti ég til bita af löngu. Hafði keypt lönguflak tveimur dögum áður af því að ég hélt hálfpartinn að ég fengi gest í mat en svo varð ekki af því og ég steikti bara bita af löngunni handa mér og hafði bara gott salat með. En svo átti ég þarna vænan bita sem eitthvað þurfti að gera við og það mátti ekki bíða lengur. Og af því að langan var nú orðin tveggja daga gömul (eða þriggja, en hún virkaði glæný þegar ég keypti hana) ákvað ég að gera fiskbollur.

Ég notaði sem uppistöðu gamla bolluuppskrift sem mig minnir að ég hafi fengið frá mömmu en samt hafa fiskbollurnar mínar aldrei verið vitund líkar bollunum hennar mömmu. Ef satt skal segja var ég aldrei yfir mig hrifin af fiskbollunum hennar en öðru máli gegndi um son minn. Þegar hann fór norður að heimsækja ömmu sína og afa tók hann alltaf fyrirfram loforð af ömmu sinni um að hún steikti fiskbollur handa honum – og mikið af þeim. Hin amma hans gerði allt öðruvísi fiskbollur sem honum þóttu líka mjög góðar. Maður fer ekki í fiskbollukeppni við heilar tvær ömmur svo ég bauð honum ekki sérlega oft upp á fiskbollur fyrr á árum.

En þetta var handa mér. Svo ég tók þessa bolluuppskrift og bætti ýmsu við. Þessar fiskbollur eru hins vegar eggjalausar. Og auðvitað má nota ýsu, þorsk og flesta aðra hvíta fiska í staðinn fyrir löngu.

_MG_0362

Þetta lönguflak stóð alveg undir nafni – þrátt fyrir lengdina (og ég var búin að taka bita af því og elda) var það ekki nema tæp 400 grömm. En það dugir alveg í bollur handa þremur til fjórum. Svo notaði ég einn rauðlauk af því að ég átti ekki venjulegan (það er reyndar mjög algengt, þarf að fara að gera eitthvað í því), hvítlauksgeira, 3 msk af rjóma (má alveg vera mjólk), svona 25 g af linu smjöri, 3 1/2 msk af kartöflumjöli, 2 msk af hveiti, pipar, salt, cayennepipar á hnífsoddi, tvo vorlauka og lófafylli af steinselju (hvorutveggja má sleppa ef maður á það ekki til).

_MG_0364

 

Ég byrjaði á að skera fiskinn í bita og setja í matvinnsluvélina ásamt söxuðum lauk og hvítlauk og lét vélina ganga þar til allt var komið í mauk. Ef maður notar rauðlauk verður farsið dálítið fjólublátt/gráleitt, bara svo þið vitið það. Mér þykir það ekki verra en öðrum gæti þótt það.

 

_MG_0366

 

Svo setti ég kryddið, kryddjurtirnar og smjörið út í og lét vélina ganga áfram og mauka þetta saman við.

_MG_0367

 

Svo setti ég hveiti, kartöflumjöl og mjólk út í og lét vélina ganga rétt eins og þurfti til að blanda þessu saman (notaði púlshnappinn) – ef   farsið er hrært of mikið geta bollurnar orðið seigar.

_MG_0369

 

Ég setti farsið á disk og hitaði svo blöndu af olíu og smjöri á stórri pönnu, dýfði matskeið í feitina og notaði hana til að móta aflangar bollur úr farsinu.

 

_MG_0374

 

Setti bollurnar á pönnuna og dýfði skeiðinni alltaf í feitina á milli svo bollurnar festust minna við hana. Úr þessu farsi urðu 10-12 bollur en fjöldinn fer auðvitað eftir stærðinni og það má líka gera minni bollur. Og svo má alveg baka þær í ofni.

_MG_0376

 

Ég steikti bollurnar á þremur hliðum, í svona 2-3 mínútur á hverri hlið við meðalhita. En það má líka gera flatar bollur og steikja á tveimur hliðum.

_MG_0397

 

Ég hafði soðið hrísgrjón til að hafa með bollunum …

_MG_0401

 

… og svo gerði ég salsa úr söxuðum vel þroskuðum tómötum, lungamjúkri lárperu, kóríanderlaufi, chili, ólífuolíu, límónusafa og pipar og salti – og bætti við 1-2 msk af fræblöndu (graskersfræ, furuhnetur, sólblómafræ).

 

_MG_0407

 

Þetta voru alveg hreint ágætar bollur.

 

Fiskbollur með salsa

375 g fiskur (ég notaði löngu en má vera nær hvaða hvítur fiskur sem er)

1 laukur (ég notaði rauðlauk)

1 hvítlauksgeiri

2 vorlaukar

lófafylli af steinselju

25 g lint smjör

pipar

salt

cayennepipar á hnífsoddi

3 msk rjómi eða mjólk

3 1/2  msk kartöflumjöl

2 msk hveiti

olía og smjör til steikingar (má nota bara olíu)

 

Salsa:

2-3 vel þroskaðir tómatara

1 vel þroskuð lárpera

kóríanderlauf

1/2 chilialdin, saxað

2 msk ólífuolía

safi úr 1 límónu

pipar

salt

1-2 msk fræblanda (má sleppa)

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s