Mér áskotnuðust á dögunum fáein andaregg. Og þegar maður eignast slíkt góðgæti er nú ekki vert að spæla þau bara eða harðsjóða oná brauð eða nota þau í pönnukökur. Þótt það megi sannarlega gera allt þetta með þau. Nei, það er betra að gera eitthvað þar sem eggjabragðið nýtur sín alminlega. Þau bragðast – finnst mér- betur en hænuegg, sérstaklega rauðan, og rauðuhlutfallið er hærra en í hænueggjum.
Ég hefði líklega átt að setja hænuegg þarna með til samanburðar – en andareggin voru svolítið stærri, eða kannski eins og stór hænuegg. Ég held samt að þessi andaregg hafi verið í minna lagi.
Ég ákvað semsagt að nota tvö af þessum ágætu eggjum í salat. Volgt salat með beikoni og sykurbaunum. Það má auðvitað alveg nota hænuegg í þetta líka, það er ágætt, en andareggin eru samt betri, ekki bara vegna bragðsins, heldur vegna þess að rauðuhlutfallið er hærra og rauðan myndar eins konar sósu.
Ég átti beikonstykki frá Kjötpól …
… og skar af því tvær þykkar og vænar sneiðar. Það er líka hægt að kaupa þykkt skorið beikon og nota nokkrar sneiðar af því. Fleiri en tvær samt því þær eru ekki eins þykkar og þær sem ég skar. Sneiðarnar voru svo langar að ég skar hvora um sig í tvennt.
Ég setti svolitla olíu á pönnu (beikonið var það magurt að mér fannst þess þurfa) og steikti beikonið á báðum hliðum þar til það var fallega brúnt. Þá tók ég það af pönnunni, setti það á eldhúspappír, setti aðra pappírsörk ofan á og létt farg yfir til að pressa úr því fitu. Lét það svo hálfkólna.
Svo tók ég tvö lítil form (eða bolla eða skálar, skiptir engu máli því formin eru ekki notuð sem slík) og reif bút af plastfilmu og lagði yfir hvort um sig. Braut svo eitt andaregg í hvort form.
Ég tók hornin á plastinu saman til að pakka egginu inn en treysti því ekki að það væri nóg að snúa þau saman eða eitthvað slíkt svo ég skar smábúta af seglgarni og batt fyrir opið á hvorum böggli um sig.
Svona. Svo setti ég vatn í lítinn pott – hann þarf að vera hálffullur að minnsta kosti – og hitaði næstum að suðu.
Þá setti ég eggjap0kana út í og lét malla – ekki sjóða, bara rétt búbbla – í svona fimm mínútur. Sex ef notuð eru stór andaregg, kannski bara fjórar ef maður er með hænuegg. Svo veiddi ég eggin upp úr með gataspaða og setti pokana aðeins í kalt vatn til að stöðva suðuna.
Ég átti nokkrar frosnar sykurbaunir – svona 100 g – sem ég ákvað að hafa með, en það má líka nota annað grænmeti eða sleppa þeim. Ég notaði bara sama vatnið og ég hafði soðið eggin í, saltaði það aðeins, setti baunirnar út í og lét þær sjóða í þrjár mínútur (tvær ef þær eru ófrosnar). Þá hellti ég þeim í sigti og skolaði þær úr köldu vatni.
Ég staflaði beikonsneiðunum upp og skar þær í ræmur þvert yfir.
Tók svo væna lófafylli (eða tvær) af blönduðum salatblöðum og setti á fat og setti baunirnar og beikonræmurnar yfir og blandaði.
Það má láta eggjarauðurnar duga sem sósu á salatið en ég vildi peppa það svolítið upp – þó ekki svo mikið að andareggjabragðið drukknaði – svo ég hrærði saman 1/2 tsk af grófkorna sinnepi (heimagerðu reyndar, en það er ekki skilyrði), 1 1/2 msk af ólífuolíu og 2 tsk af ediki (ég var með sérríedik en það má nota annað gott edik), dreypti yfir salatið og blandaði.
Þá var bara eftir að taka plastið utan af eggjunum og setja þau ofan á salatið.
Og svo er bara að skammta sér á disk og stinga gat á eggið … Algjörlega perfekt soðið.
Þetta var nokkuð gott.
Volgt andareggja- og beikonsalat
(fyrir 2)
2 andaregg (eða hænuegg)
nokkrar þykkar beikonsneiðar
örlítil olía til steikingar
salt
75-100 g sykurbaunir
væn lófafylli af salatblöðum
1/2 tsk grófkorna sinnep
1 1/2 msk ólífuolía
2 tsk gott edik
Sæl Nanna.
Ég hef aldrei gert eggin öðruvísi en svona þ.e. í plastfilmu.
Þau verða kanski ekki eins falleg með þessu lagi.
Er hin aðferðin miklu áhættusamari? Og hvað ber þá helst að varast?
Er með „brunch“ á morgun þar sem ég ætla að bjóða uppá Norwegian Eggs og ætlaði nú bara að gera þetta í plastinu. En svo sat ég til borðs í dag með mínum fyrrverandi sem gumaði af færni sinni í því að hleypa egg. Maðurinn gat ekki soðið egg í okkar sambúð. Svo ég verð að „mastera“ þetta. 🙂
Það skil ég vel. Og þetta er ekkert mál svosem, ég ákvað bara að nota plastið af því að eins og ég segi er eggjarauðan hlutfallslega stærri í andareggi og ég var ekki viss hvernig það kæmi út. En það skiptir máli að eggin séu sem ferskust. Vatnið á ekki að sjóða, varla einu sinni búbbla. Hvítan helst betur utan um eggið ef maður setur svolítið edik en það er alls ekki nauðsynlegt. Og það er best að brjóta eggið í bolla og renna því svo út í vatnið. Hafa hitann mjög vægan og helst bara slökkva undir pottinum.
Best er að gera eitt eða í mesta lagi tvö egg í einu og taka þau svo upp með gataspaða og láta renna af þeim á eldhúspappír – ef maður er að gera mörg má svo hita þau aftur áður en þau eru borin fram með því að setja þau í heitt (ekki sjóðandi) vatn í mínútu eða svo.
Kærar þakkir.