Silungur að vestan (uppskriftin allavega)

Ég hef reynt að skera töluvert niður sykurneyslu og sykurnotkun á seinni árum og það gengur nú bara alveg þokkalega, svona heilt yfir. Ég kaupi aldrei gosdrykki og sjaldan ávaxtasafa, les innihaldslýsingar, kaupi sjaldan sælgæti, kex eða kökur og þegar ég baka er það oftar en ekki eitthvað tiltölulega sykurlítið eða sykurlaust (fyrir utan kannski ávexti, og já, ég veit að það er ávaxtasykur í þeim).

Ég hef ekkert á móti sykri,þannig séð, en ég vil stjórna því sjálf hvað ég nota mikið af honum og vita af því ef ég er að nota hann. Það er ein af mörgum ástæðum fyrir því að ég reyni yfirleitt að sneiða hjá unnum matvælum og geri frekar hlutina frá grunni þótt á því séu auðviðað undantekningar.

Og ég hef líka áttað mig á því að oftar en ekki er vel hægt – og stundum bara til bóta, svona upp á bragðið – að sleppa sykri þar sem maður hefur vanist á að nota hann. Hér áður fyrr setti ég alltaf sykur í kartöflustöppu, til dæmis, því það ólst ég upp við; og gott ef ekki uppstúf líka. En það hef ég ekki gert í mörg ár og þykir hvorttveggja mun bragðbetra fyrir vikið.

En sykur er samt ekkert bannaður í mínu eldhúsi,  og það kemur fyrir stöku sinnum (af því að ég er nú ekkert alltaf sjálfri mér samkvæm) að ég nota hann þar sem ekki er vani að nota sykur. Eða (og þetta á við uppskriftina sem hér kemur) ekki nema maður sé að vestan. Ég er nefnilega nokkuð viss um að sykursteiktur silungur er upprunnin fyrir vestan. Ég þarf líklega að leita 200 ár aftur í tímann til að rekja einhverjar ættir á Vestfjarðakjálkann en mér þykir sykursteiktur silungur samt góður. Bara ekki of oft.

Einhverjum finnst kannski sykur og silungur ekki eiga vel saman en þá má minna á ýmsar mjög vinsælar uppskriftir frá síðustu árum þar sem sætu mauki eins og mangóchutneyi eða öðru slíku er smurt á silunginn áður en hann er bakaður. En hér er ekkert verið að flækja málin, bara notaður strásykur. Ekki mikið af honum (eða ég nota allavega ekki svo mikið, veit ekkert hvað gert er fyrir vestan).

IMG_9187

Ég var með þrjú bleikjuflök, svona 200 grömm hvert. Og til að vega upp óhollustuna af sykrinum ákvað ég að nota heilhveiti til að velta þeim upp úr. Það er hollusta, nema maður sé í glútenóvinafélaginu. Sem ég er ekki. Svo ég blandaði saman 3 msk af heilhveiti (eða hveiti), 1/2 tsk af salti, 1/4 tsk af pipar og 1/4 tsk af timjani. Hefði notað 1/2 teskeið af þurrkuðu blóðbergi í staðinn, ef ég hefði átt það.

IMG_9189

Ég velti svo silungsflökunum upp úr blöndunni og þrýsti þeim dálítið vel niður í hana.

IMG_9191

 

Ég setti sv0 2 msk af smjöri á pönnu og þegar það var bráðið og hætt að freyða setti ég flökin á hana – lét roðhliðina snúa niður fyrst – og stráði dálitlum sykri á hina hliðina, kannski svona hálfri teskeið á hvert flak.

IMG_9199

Ég steikti flökin í eina til tvær mínútur við fremur háan hita, sneri þeim þá (notaði pönnukökuspaða), stráði líka sykri á roðhliðina og steikti áfram í eina til tvær mínútur. Þá sneri ég þeim aftur, lækkaði hitann og lét krauma áfram í tvær til þrjár mínútur, þar til bleikjan var rétt steikt í gegn og roðið dökkgullinbrúnt og stökkt.

IMG_9205

Þá færði ég flökin yfir á fat, bætti 1 msk af smjöri á pönnuna, setti svona 300 g af spínati á hana (var búin að klípa/skera flesta stönglana af því), steikti í eina eða tvær mínútur og hrærði stöðugt á meðan. Bar svo spínatið fram með silungnum, ásamt soðnum kartöflum og tómötum.

IMG_9237

 

Eftir því sem ég best veit blanda sumir sykrinum saman við hveitið og saltið (eða sleppa hveitinu og nota bara sykur, salt og pipar) en mér finnst betra að gera þetta svona.

IMG_9261

 

Ég hef séð uppskriftir þar sem silungurinn er roðflettur áður en hann er sykursteiktur – en mér finnst roðið einmitt svo gott svona.

 

Sykursteiktur silungur

3-4 bleikjuflök, 200-250 g

3 msk heilhveiti eða hveiti

1/2 tsk salt

1/2 tsk þurrkað blóðberg eða 1/4 tsk timjan (má sleppa)

1/4 tsk pipar

3 msk smjör

1-2 msk sykur

300 g spínat

 

2 comments

  1. Ég ólst upp við það fyrir vestan að strá sykrunum bara ríflega yfir silunginn eftir að hann var steiktur 🙂

    • Já, það er auðvitað hægt líka. En mér finnst betra að steikja silunginn upp úr sykrinum til að hann bráðni og karamelliserist aðeins.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s