Ef maður er ekki á Spáni en langar í paellu …

Ég var búin að bjóða fólki í mat um helgina – reyndar tíðum gestum því þetta var dótturdóttirin og kærastinn hennar og sonur minn og tengdadóttir. Já, og svo sonarsonurinn, en ég var nú ekki að fara að elda neitt oní hann því að hann er sex vikna og ekkert farinn að þiggja neitt hjá ömmu sinni enn.

En þegar ég var að velta fyrir mér hvað ég ætti að gefa þeim fullorðnu að borða varð mér litið upp á eldhúsvegginn hjá mér og kom þá auga á paellupönnuna sem þar hangir. Og það rann upp fyrir mér að þarna er hún líklega búin að hanga ósnert frá því að ég flutti hingað í Efstalandið. Svo að það var alveg kominn tími til að elda paellu, fannst mér. Það var líka veðrið til þess, paella er einhvernveginn sumarmatur, finnst mér (þótt hún sé kannski svolítið vetrarleg líka þegar maður hugsar málið). Afgangurinn af fjölskyldunni er reyndar á Spáni og fær sjálfsagt sína paellu þar. Ekta.

Allavega, ég ákvað að elda einskonar paellu. Ætla ekki að halda því fram að þessi sé ekta spænsk – þótt það sé hægt að setja ansi margt í paellu og sjálfsagt geta Spánverjar rifist endalaust um það hvað eigi að vera í hinni einu sönnu paellu. Sem er náttúrlega ekki til (en reynið að segja Valenciabúum það) … Ég ákvað að gera paella mixta og nota aðallega bara það sem ég ætti til en bæta þó við vænum skammti af kjúklingi. Fór í búð og keypti kjúklingalundir því það var einfaldast – leggir eða læri hefðu líklega verið betri en það er aðeins meira vesen og tekur lengri tíma. Til að hafa nú eitthvert sjófang með (þetta er jú paella mixta) ætlaði ég að kaupa risarækjur í skel en þær voru ekki til í búðinni og ég átti engar í frysti aldrei þessu vant svo að ég notaði bara skelflettan humar. En það er nú allt í lagi að sleppa sjófanginu.

Það er ekki alveg bráðnauðsynlegt að eiga paellupönnu, það má komast af með stóra og víða pönnu. Pannan mín hentar til að elda paellu fyrir sex til átta og ég dró fram eldhúströppurnar, prílaði upp og náði í pönnuna.

_MG_7547

Setti hana svo á stærsta brennarann á eldavélinni, kveikti undir henni, hellti svona 4 msk af ólífuolíu á hana og setti svo svona 100 g af pepperóní á pönnuna. Það hefði vel mátt vera meira en þetta var það sem ég átti. Og jú, það hefði verið spænskara að nota chorizo. Ég steikti pylsusneiðarnar þar til þær voru stökkar og tók þær svo af með gataspaða og setti á disk.

_MG_7552

Svo setti ég kjúklingalundirnar (svona 800 g), sem ég var búin að krydda með pipar, salti og reyktri papriku (má vera venjuleg) á pönnuna og steikti þær við góðan hita í nokkar mínútur. Hrærði oft í þeim til að snúa þeim og færa þær til á pönnunni því að hún er það stór að hún hitnar ekki eins vel út við barmana. Ég steikti lundirnar þar til þær höfðu tekið góðan lit og voru nærri steiktar í gegn. Þá tók ég þær upp með gataspaðanum og setti á diskinn með pepperóníinu.

_MG_7556

Ég var búin að skera niður þrjá lauka og saxa fimm eða sex hvítlauksgeira smátt og setti þá á pönnuna (það má bæta við meiri olíu ef þarf). Lét krauma við meðalhita í nokkrar mínútur og bætti tveimur rósmaríngreinum og tveimur lárviðarlaufum (hvorttveggja ræktað í stofuglugganum) á pönnuna.

_MG_7560

Svo opnaði ég tvær dósir af tómötum og hellti á pönnuna. Ætlaði að nota saxaða tómata en reyndist bara eiga eina dós svo að ég notaði líka niðursoðna kirsiberjatómata, það var ágætt. Hrærði og lét þetta sjóða 1-2 mínútur.

_MG_7563

Svo hellti ég 500 g af arborio-hrísgrjónum (risottogrjónum) á pönnuna. Að réttu lagi ættu þetta að vera bomba-grjón en ég er ekkert viss um að þau fáist hér og allavega duga arboriogrjónin ágætlega. Svo hrærði ég í þar til allt var blandað vel saman.

_MG_7571

Ég hellti svo 1,2 l af sjóðandi vatni út í, kryddaði með salti, pipar og svona 1 1/2 tsk af þurrkuðu óreganói, hrærði vel og lét sjóða við meðalhita í um það bil 15 mínútur, eða þar til grjónin voru farin að meyrna en ekki fullsoðin. Það þarf að hræra nokkuð oft í á meðan og ýta grjónunum frá börmunum inn að miðju og öfugt, svo að allt sjóði nokkuð jafnt. Og ef vökvinn sýður alveg niður má bæta við dálítið meira vatni.

_MG_7576

Þá seti ég svona 250 g af frosnum strengjabaunum út í (af því að ég átti þær, en það hefðu eins getað verið frosnar grænar baunir eða sykurbaunir, til dæmis) og setti svo kjúklinginn og pepperóníið aftur á pönnuna. Hækkaði svo hitann og lét sjóða nokkuð rösklega þar til grjónin voru alveg að verða tilbúin. En ég hrærði ekki neitt, því að ég vildi láta grjónin byrja að brenna ögn við botninn. Það kallast soccarat og er best (en ef maður vill það ekki má alveg hafa hitann vægari og hræra).

Að lokum dreifði ég humrinum yfir, lagði lok ofan á (eða álpappír ef maður á ekki stórt lok), slökkti undir pönnunni og lét standa í svona 5 mínútur.

_MG_7580

Og þá var bara að strá svolítilli basilíku yfir, ef maður á hana, og bera fram.

*

Paella mixta

4 msk ólífuolía (meira ef þarf)

100 g (eða meira) pepperóní eða chorizo

800 g kjúklingalundir eða kjúklingabringur skornar í ræmur

2-3 tsk paprikuduft, gjarna reykt

pipar

salt

3 laukar

5-6 hvítlauksgeirar

2 rósmaríngreinar (eða þurrkaðar kryddjurtir eftir smekk)

2 lárviðarlauf

2 dósir tómatar

500 g arborio-hrísgrjón (risottogrjón)

1,2 l sjóðandi vatn (meira ef þarf)

1 1/2 tsk þurrkað óreganó, eða eftir smekk

250 g strengjabaunir eða aðrar frosnar baunir

250 g hráar rækjur eða smáhumar (má sleppa)

e.t.v. söxuð basilíka

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s