Gleðileg jól og allt það.
Ýmsir sem mættu í Forláksmessuboðið mitt voru að spyrja hvernig ég hefði gert tereyktu andabringurnar og af því að ég hafði tekið myndir þegar ég var að dunda við þetta daginn áður ákvað ég að setja þetta inn hér, svona ef einhvern langar að prófa. Þetta er satt að segja fáránlega einfalt og ég hef svosem gert þetta við ýmislegt fleira – kjúklingabringur, bleikju, lax og fleira.
Maður þarf bara að hafa wokpönnu og lok sem hægt er að nota á hana – ég á wokpönnu með meðfylgjandi loki en finn það hvergi (hvernig týnir maður wokpönnuloki?) svo að ég notaði bara lok af einum pottinum mínum og það virkaði ágætlega, var reyndar mjög hentugt að því leyti að það er úr gleri og maður getur fylgst með því sem er að gerast.
Svo þarf grind til að setja matinn á, álpappír (til að wokpannan eyðileggist ekki og til að loka reykinn inni – og þá er það eiginlega upptalið. Nema matinn auðvitað, og eldsneytið.
Ég reif tvær lengjur af álpappír og lagði þær í kross yfir pönnuna – þær þurfa að ná vel upp fyrir barmana því að þær eru svo brotnar inn yfir lokið til að halda reyknum betur inni. Setti svo einn bút í viðbót á miðjuna og dreifði eldsneytinu á hann.
Í svona tereykingu notar maður gróft salt, hrísgrjón og auðvitað te. Ég átti grænt te sem ég hafði einhverntíma keypt í óljósum tilgangi en drekk ekki svo að það var upplagt – reyndar má alveg nota svart te og af því að ég reykti bringurnar í tvennu lagi dugði græna teið ekki alveg í seinni skammtinn svo að ég notaði dálítið af svörtu. Líklega kom græna teið eingöngu þó betur út. Ég notaði svona 4-5 msk af hverju. Svo má henda kryddjurtum og fleiru með ef maður vill – ég átti þessar rósmaríngreinar sem höfðu dottið af búnti sem ég var að vesenast með svo að ég setti þær þarna líka.
En daginn áður hafði ég reyndar þurrkrydddað bringurnar og látið þær liggja í kæli. Kryddið getur verið hvað sem hugurinn girnist en ég notaði pipar, salt, svolítið þurrkað timjan og svona teskeið af einhverri sweet hickory smoke rub. Örugglega hægt að nota ýmsar kryddblöndur. Eða eitthvað annað. Ég setti líka ögn af nítrítsalti í blönduna en það er óþarfi.
Ég skar svo tíglamynstur í fituna á bringunum og nuddaði kryddinu vel inn í báðar hliðar, pakkaði þeim svo inn og stakk í ísskápinn. Nokkrir klukkutímar duga alveg en þessar lágu yfir nótt. Svo tók ég þær út, setti grindina yfir teblönduna í wokpönnunni og bringurnar þar ofan á með fituhliðina upp.
Ég var með fjórar bringur og ætlaði upphaflega að reykja þær allar í einu en sá svo að það yrðu of þröngt um þær og lokið myndi snerta ytri hlutana svo að reykurinn næði ekki að leika um þær allar. Svo að ég reykti bara tvær í einu.
Svo braut ég álpappírinn inn yfir lokið, setti pönnuna á stærsta brennarann á vélinni og stillti á hæsta straum. Eftir smástund (2-4 mínútur?) fór reykur að sjást laumast upp af pönnunni og þá lækkaði ég í meðalhita. (NB: viftan þarf að vera á fullu og gott að gluggar séu opnir. Og spurning um að slökkva á reykskynjaranum rétt á meðan …) En verið óhrædd, eldhúsið fyllist ekkert af reyk og það verður ekki ólíft í íbúðinni klukkutímum saman. Gerist aldrei hjá mér, allavega …
Eftir 22 mínútur slökkti ég undir og tók lokið af. (Hefði haft þær örlítið skemur ef ég hefði ætlað að bera þær fram sem kvöldmat – 20 mínútur duga alveg fyrir mig.)
Ég vildi hafa haminn svolítið stökkan svo að ég hitaði steypujárnspönnu, setti bringurnar á hana með fituhliðina niður og steikti við háan hita í kannski 2 mínútur. Bara fituhliðina, engin þörf á meiru.
Og þá voru þær svona. Girnilegar, safaríkar og fantagóðar. – Það má láta þær bíða kannski 5 mínútur og bera þær þá fram en ég kældi þær og skar þær daginn eftir þunnt niður og notaði í salat með ristuðum kastaníum og fleiru. Því miður fórst fyrir að taka mynd en salatið kláraðist.