Gamlir og góðir ostar með meiru

Eins og ég sagði í gær átti ég þá enn eftir þrjár bökunarkartöflur. Það er hægt að gera ýmislegt við slíkar og ég er með ákveðnar hugmyndir sem sjálfsagt verður eitthvað úr í næstu viku. En eina þeirra ákvað ég að elda mér í kvöldmatinn og vera með bakaða kartöflu. Ég er reyndar búin að hafa eina slíka í kvöldmatinn áður – með sveppum og geitaosti – en var ekki alveg viss hvaða fyllingu ég ætti að hafa í þessari. Svo var hún líka dálítið minni en hin og ég var ekki alveg viss um að hún nægði mér ein og sér.

En ég fór að velta fyrir mér hvað ég gæti notað í fyllinguna og þá rifjaðist upp fyrir mér lítil krukka af Stilton-osti sem ég kom með heim frá Englandi í fyrrasumar og ætlaði að vera með í Forláksmessuboðinu en gleymdi að setja hana á borðið og hún var enn ósnert. (Auðvitað má svo nota annan gráðaost.)

_MG_5516

Hún var reyndar með Best Before-dagsetningu frá því í fyrrahaust en það skiptir nú litlu þegar Stilton er annars vegar, hann batnar bara. Einu sinni átti ég Stilton sem hafði runnið út fimm árum fyrr, hann var ansi magnaður. Þessi var nú bara mildur í samanburði. Svo að ég ákvað að nota dálítið af honum í fyllinguna. Og valhnetur, þær passa mjög vel með Stilton.

Ég byrjaði á að taka kartöfluna, þvo hana og þerra, og svo bar ég á hana 1 tsk af ólífuolíu, setti hana í lítið eldfast mót, stráði dálitlu flögusalti yfir og bakaði hana í klukkutíma við 200°C, eða þar til prjónn sem stungið var í hana rann auðveldlega í gegn.

Á meðan skar ég niður fjórðung af rauðlauk, lét hann krauma í 1 tsk af olíu á lítilli pönnu í 2-3 mínútur, setti þá 2-3 msk af grófmuldum valhnetum á pönnuna og steikti í 2-3 mínútur í viðbót. Saltaði ögn og tók svo pönnuna af hitanum.

_MG_5517

Þegar kartaflan var tilbúin tók ég hana út og hækkaði ofnhitann í 225°C. Skar svo djúpan kross í kartöfluna og þrýsti með fingrunum á hvern fjórðung til að opna hana vel. Dreifði 2-3 msk af muldum Stilton og 1 tsk af söxuðu rósmaríni í krossinn og hellti svo hnetublöndunni yfir. Setti 3-4 msk af parmesanosti (þessum háaldraða sem ég nefndi í gær) yfir fyllinguna og bakaði kartöfluna í 10-12 mínútur í viðbót.

_MG_5533

Mér fannst hún ansi girnileg þegar ég tók hana út. Svona af kartöflu að vera.

_MG_5513

Eins og ég sagði var ég ekki viss um að þetta væri alveg nóg í matinn. En ég var búin að taka úr frysti bita af heimaverkaðri skinku (ég lagði hana í saltpækil í nokkra daga og svo var hún reykt fyrir mig uppi í Mosfellsbæ). Meirihlutann af henni sauð ég svo og bar fram í Forláksmessuboðinu mínu en ég hafði semsagt skorið þennan bita af áður en hún fór í pottinn og sett í frysti. Svo að ég skar nokkrar þunnar sneiðar af honum til að hafa með.

_MG_5545

Svo að ég dreifði skinkusneiðunum í kringum kartöfluna á diskinum. Og þetta passaði nú alveg ljómandi vel saman. En auðvitað má sleppa skinkunni.

*

Bökuð kartafla með Stiltonosti og valhnetum (og hráskinku)

1 bökunarkartafla

2 tsk ólífuolía

salt

1/4 rauðlaukur

2-3 msk valhnetur

2-3 msk Stilton (eða annar gráðaostur)

rósmarín

2-3 msk parmesanostur

*

nokkrar sneiðar af hráskinku (má sleppa)

2 comments

  1. Enn dáist ég að hugkvæmni þinni! Spennandi með rauðlauk og valhnetur (sem ég elska) en gráðostur, hvort sem hann er fimm ára eða yngri, hann get ég alls ekki borðað. Ég fengi mér einhvern annan. Fylltar kartöflur eru gæðafæða 😊

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s