Afgangurinn af E.T.

Ég hef í fjöldamörg ár alltaf verkað skinku fyrir jólin – eða öllu heldur fyrir Þorláksmessuboðið mitt, sem hefur þó verið Forláksmessuboð síðustu árin, af því að ég tók upp á því að stinga af til útlanda um jólin. Ég set svínslæri í saltpækil úti á svölum og læt það liggja þar, oftast í svona tvær vikur, steiki það svo í ofni og ber það fram kalt. Skinkan gengur gjarna undir nafninu Hausinn af E.T. – skýringu á því má lesa hér.

Nokkur síðustu árin hef ég svo verið með annað svínslæri sem ég hef líka lagt í pækil en læt svo reykja fyrir mig, eins og ég sagði frá í gær. Nú eru tvö rígvæn svínslæri ansi mikill matur og þótt gestirnir sem koma í Forláksmesuveisluna taki oft rösklega til matar síns hefur stundum verið töluverður afgangur síðustu árin. Hluta af því hefur nú sonurinn gjarna tekið að sér að éta en það er samt ekki hægt að koma þessu öllu á hann og sumt sker ég í hæfilega skammta og sting í frysti.

Og nú hafði ég einmitt tekið úr frysti bita af hausnum af E.T., sem var búinn að liggja þar frá því rétt fyrir jól.

_MG_5551

Ætli þetta hafi ekki verið svona 300 g biti? Ríflega í matinn handa mér allavega, hvað sem ég ákvæði nú að gera við hann. Möguleikarnir eru nú dálítið farnir að þrengjast svo að ég ákvað að opna baunadós og tómatdós og gera einhvers konar pottrétt. Svolítið chili-legan kannski. Og það voru enn til tvær bökunarkartöflur og aðra þeirra mætti nota í kartöflustöppu til að hafa með. Ég á bara hálfan lauk eftir og þarf að nota hann í annað sem ég ætla að elda seinna í vikunni en það er nokkuð aldraður baukur með laukdufti í kryddskápnum svo að ég ákvað að nota hann.

_MG_5548

Ég bræddi 1 msk af gæsafeiti í potti (olían er farin að minnka) og skar niður tvo hvítlauksgeira og þrjá sellerístöngla sem ég lét krauma í nokkrar mínútur, ásamt tveimur lárviðarlaufum og timjangrein. Svo stráði ég yfir 1 tsk af laukdufti, 1 tsk af kummini, 1 tsk af hikkoríreyktri papriku til að fá svolítið barbeque-bragð (ég á barbeque-sósu en vildi ekki nota hana af því að hún er sæt og ég vil forðast sykur), 1 tsk af óreganói, klípu af chiliflögum, pipar og salti. Hrærði vel í og lét þetta krauma aðeins.

_MG_5550

Svo setti ég í pottinn eina dós af söxuðum tómötum, eina dós af blönduðum baunum (má líka nota t.d. nýrnabaunir eða pintóbaunir), 1 msk af balsamediki og svona 250 ml af vatni. Lét þetta malla í smástund.

Á meðan flysjaði ég bökunarkartöfluna, skar hana í bita og sauð í litlum potti þar til hún var meyr.

_MG_5554

Ég skar svo kjötið í bita, setti það út í baunakássuna og lét malla í a.m.k. 10 mínútur – má alveg vera lengur. Smakkaði sósuna og bragðbætti hana eftir þörfum. Ef hún er mjög þunn má þykkja hana aðeins með sósujafnara.

Nú var komið að því að stappa kartöflurnar. Í þær nota ég oftast smjör (búið) eða ólífuolíu (næstum búin) og svo mjólk eða rjóma (hvorttveggja löngu búið). Svo að ég tók frá ögn af kartöflusoðinu, setti ríflega matskeið af gæsafeiti í pottinn og stappaði kartöfluna saman við hana. Þynnti svo ögn með kartöflusoði og kryddaði með pipar, salti og dálitlu kummini. Þetta var alveg ágætis stappa.

_MG_5585

Ég setti stöppu á disk, jós baunakássu við hliðina á henni og skreytti með sellerílaufi (sem, merkilegt nokk, er jafnfrísklegt og þegar það fór í ísskápinn fyrir hátt í sex vikum). Alveg ágætt bara, skemmtilegur barbeque-keimur af réttinum. – En þessi skammtur hefði líklega dugað fyrir tvo, ég hef nóg að borða í hádeginu á morgun.

*

Baunapottréttur með kjötafgöngum

250-400 g af soðnu/steiktu svínakjöti (eða öðru kjöti)

1 msk gæsafeiti (eða önnur feiti)

2 hvítlauksgeirar

3 sellerístöngar

2 lárviðarlauf

timjangrein

1 tsk laukduft

1 tsk kummin

1 tsk hikkoríreykt paprika (eða önnur paprika)

1 tsk óreganó

klípa af chiliflögum

pipar og salt

1 dós saxaðir tómatar

1 dós baunir

1 msk balsamedik

250 ml vatn

e.t.v. sósujafnari

*

Kartöflustappa með gæsafeiti

1 bökunarkartafla, meðalstór

1-1/2 msk gæsafeiti

1/4-1/2 tsk kummin

pipar og salt

kartöflusoð eftir þörfum

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s