Afrískt kornmeti

Í kornmetisskúffunni minni eru ýmsar tegundir sem ég nota oft, eins og til dæmis nokkrar sortir af hrísgrjónum, perlubygg, kúskús, perlukúskús (æi, nei, það er búið) og fleira, og tegundir sem ég nota sjaldnar en man alveg eftir, eins og kínóa (venjulegt og rautt), villihrísgrjón, kjúklingabaunamjöl, polentumjöl og fleira. Og svo eru nokkir pakkar sem ég hef keypt til að elda eitthvað sérstakt og hef svo steingleymt. Og núna ákvað ég að gera eitthvað úr tveimur af þessum pökkum, annars vegar hirsi og hins vegar blöndu af teff og bókhveitimjöli, og þar sem hirsi er einkum ræktað í Indlandi og Afríku og teff aðallega í Austur-Afríku, einkum Eþíópíu, ákvað ég að leita í þá áttina þótt útkoman tengist líklega ekki einum stað frekar en öðrum.

Hirsi (millet) er annars ekki ein korntegund og raunar ekki korntegund, heldur fræ ýmissa harðgerðra grasa sem aðallega eru ræktuð á þurrkasvæðum í hitabeltislöndum. Ég held, án þess að vera viss, að sú tegund sem aðallega fæst hér sé perluhirsi, sem er sú tegund sem mest er ræktuð í heiminum og einkum notuð í brauð og grauta. Glútenlaus (fyrir þá sem eru í þeim gír) og járnauðug.

_MG_5622

Ég setti 100 ml af hirsi í pott ásamt 250 ml af vatni, hitaði að suðu og lét malla undir loki í svona 20 mínútur, eða þar til hirsið var búið að taka upp nokkurn veginn allt vatnið og var orðið nokkurn veginn meyrti (gott að líta á það þegar líður á suðutímann og bæta við svolitlu vatni ef þarf. Þá tók ég pottinn af hitanum og lét hirsið standa í 10 mínútur í viðbót. Hrærði þá upp í því með gaffli. (Þetta var  reyndar of mikið magn en það er erfitt að gera minna.)

Á meðan tók ég pakkann með teff- og bókhveitiblöndunni. Teff er grasfræ og er stundum talið til hirsitegunda en oftast þó ekki. Það vex aðallega í Eþíópíu og Erítreu, þar sem það er talið vera 2/3 af próteinneyslu þjóðanna, og er þar ekki síst notað í flatbrauðið/pönnukökurnar injera, en einnig í grauta og svo er bruggað úr því líka. Ég hefði kannski gert injera ef ég hefði munað að það þarf að byrja á því daginn áður – uppskrift má finna hér – en ég ákvað að gera bara einfaldar pönnukökur. (NB: teff fæst held ég ekki hérlendis núna, ég er búin að eiga þennan pakka árum saman og þá var ekki hægt að fá hreint teff, bara þessa teff- og bókhveitiblöndu. Það má nota bókhveiti í staðinn. Eða bara heilhveiti.

_MG_5619

Ég hrærði saman 125 ml af teff-bókhveitiblöndunni, 150 ml af vatni, 1 tsk af lyftidufti og örlítið salt. Soppan á að vera aðeins þykkari en pönnukökusoppa. Svo hitaði ég 1/2 tsk af olíu á pönnukökupönnu og steikti nokkrar pönnukðkur; setti alltaf 1/2 tsk af olíu á pönnuna á milli.

_MG_5623

Eins og fram hefur komið er afar lítið eftir í grænmetisskúffunni en ég fann reyndar einn lauk í dag, sem bjargar matseldinni hjá mér næstu daga til viðbótar við þennan fjórðung sem ég átti eftir … Ég saxaði semsagt hálfan lauk smátt og tók svo hnúðkálshnyðju, flysjaði hana og skar í litla teninga, kramdi tvo hvítlauksgeira og saxaði hálft chilialdin smátt. Hitaði svo 2 msk af olíu á pönnu, stráði 1 msk af karrídufti og 1 tsk af kummini yfir og lét krauma í eina mínútu. Setti þá lauk, hnúðkál, chili og hvítlauk út á og lét krauma í 2-3 mínútur. Þá bætti ég við hálfri dós af smjörbaunum (eða öðrum baunum, t.d. kjúklingabaunum), hellti svo 150 ml af vatni á pönnuna, saltaði og lét sjóða í nokkrar mínútur, þar til vökvinn var næstum gufaður upp og hnúðkálið orðið meyrt.

_MG_5630

Þá hrærði ég meirihlutanum af hirsinu saman við (ekki öllu, þetta var svo mikið) og hrærði vel. Stráði nokkrum af þessum óþrjótandi sellerílaufum yfir (óþarfi samt, en ég hefði sett spínat eða grænkál ef það hefði verið til) og bar fram með pönnukökunum.

_MG_5650

Ég fór að hugsa um þegar ég smakkaði hvort þetta væri kannski ekki nógu sterkt og náði í sriracha-flösku og dreypti smávegis yfir. Komst svo að því að það væri nú óþarfi, þetta var alveg nógu sterkt.

*

Karríhirsi með hnúðkáli, baunum og teff-pönnukökum

100 ml hirsi

250 ml vatn, og meira eftir þörfum

1 laukur

1 hnúðkálshnyðja

2 hvítlauksgeirar

1/2 chilialdin

2 msk olía

1 msk karríduft

1 tsk kummin

1/2 dós smjörbaunir (eða kjúklingabaunir eða aðrar baunir)

150 ml vatn

salt

*

Teff-pönnukökur

125 ml teff, bókhveiti eða annað mjöl

150 ml vatn

1 tsk lyftiduft

örlítið salt

olía til steikingar

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s