Það var þetta með fiskmetið, já. Ég hef borðað óvenju lítið af því að undanförnu – að minnsta kosti af fiski, af því að ég á hann yfirleitt ekki í frysti, eða ekki mikið af honum allavega. En ég átti rækjur og hörpuskel í frysti (nú er hörpuskelin búin og ég orðin pínu leið á rækjum) og nóg af túnfiski sem er svosem alltaf hægt að nota en hann hefur kannski mest farið í túnfisksalöt og svoleiðis – ég borða brauð með heimagerðu áleggi af ýmsu tagi á morgnana og líka í hádeginu ef ekki er til afgangur frá deginum áður.
Og svo voru það sardínurnar, sem ég sagði frá um daginn. Nokkrar dósir sem ég fann á bak við einhvern sjaldan hreyfðan bauk í búrskápnum. Keyptar í Porto haustið 2015 og valdar af kostgæfni í sardínusérverslun (eða næstum því) eftir langar samræður við sérlega sardinufróða afgreiðslustúlku.
Mig rámaði eitthvað í marokkóska sardínuuppskrift sem ég hélt ég ætti nokkurn veginn allt i. Það reyndist rétt – nema þegar til átti að taka var ekki til neitt kúskús, sem var nú aðaluppistaðan í þeirri uppskrift. En það var til afgangur af ókrydduðu hirsi frá í gær (ég sauð of mikið) og ég ákvað að nota það – reyndar er ekkert stórkostlegur munur og hirsið eiginlega betra, finnst mér. En þar sem ekki var til neitt rosalega mikið af því ákvað ég að nota tvær dósir af sardínum og gera þetta að alvöru sardínurétti. Sardínur með hirsi en ekki bara hirsi með sardínum.
Ég byrjaði á að hita 1 1/2 msk af ólífuolíu á lítilli pönnu og stráði svo 1 msk af chermoula yfir (það er marokkósk kryddblanda) og hrærði vel. Opnaði svo tvær dósir af sardínum – ekki sömu tegund en báðar í tómatsósu – lyfti sardínunum gætilega og setti þær á pönnuna en geymdi dósirnar með sósuleifunum í. Ég steikti sardínurnar við meðalhita í 1 1/2-2 mínútur, sneri þeim gætilega við og steikti á hinni hliðinni. Svo tók ég þær af með spaða og setti á disk og hélt þeim heitum.
Ég var bún að skera 10-12 steinlausar svartar ólífur og jafnmargar grænar í tvennt og setti þær á pönnuna. Fyllti báðar sardínudósirnar af vatni til að skola þær og hellti tómatvatninu svo á pönnuna og lét sjóða í 2-3 mínútur. Þá setti ég hirsið (ekki viss með magn, kannski 75-100 g, og auðvitað má líka nota kúskús eða jafnvel soðin hrísgrjón) á pönnuna, hrærði vel og lét malla þar til hirsið var heitt í gegn og allur vökvi gufaður upp. Þá smakkaði ég og saltaði ögn (ekki víst að þess þurfi).
Svo jós ég hirsiblöndunni á disk, raðaði sardínunum ofan á og skreytti með timjani úr gluggakistunni (hefði notað kóríander ef ég ætti það til).
Þetta var nú aldeilis gott, ef maður kann að meta góðar sardínur. Sem ég kann.
*
Chermoula-sardínur með ólífum
1 1/2 msk ólífuolía
1 msk chermoula-kryddblanda
2 dósir góðar sardínur
10-12 svartar ólífur, steinlausar
10-12 grænar ólífur, steinlausar
sósan úr dósunum + vatn
soðið hirsi eða kúskús
e.t.v. salt
timjan eða kóríanderlauf (ekki nauðsynlegt)