Ég hélt í morgun þegar ég var að ákveða hvað ætti að vera í matinn að það yrði kannski hríðarveður í dag, eða allavega frekar kuldalegt, svo að ég ákvað að hafa einhvern mat sem passaði við það; einhvern notalegheitamat (eða allavega eitthvað sem mér finnst vera notalegheitamatur, alveg óvíst að aðrir yrðu sammála mér. Og þá datt mér í hug sviðahausinn sem ég átti í frystinum. Lítill og nettur gimbrarhaus og annar kjamminn alveg passlegur kvöldmatur handa mér, eitthvað rétt um 500 g.
Ég hef gert ýmislegt óvenjulegt við svið í áranna rás og það var strax á hreinu að kjamminn yrði ekki soðinn, heldur færi í ofninn, sem mér finnst reyndar miklu betri aðferð. Og svo rámaði mig í uppskrift frá Sardiníu sem mig hafði langað til að prófa og þegar ég skoðaði málið átti ég flest sem til þurfti.
Jæja, kannski ekki alveg. Sardinískir fjárhirðar eru auðvitað ekki með svið, heldur flegna hausa, og þeir elda heilann með. En ég hélt að þetta gæti nú vel virkað svona. Dósatómatar í staðinn fyrir ferska og einhverjar fleiri smábreytingar. Svo að ég lét kjammann bara þiðna (hinn kjamminn verður notaður í eitthvað annað seinna, kannski sviðasúpu).
Ég hitaði ofninn í 180°C. Svo tók ég eldfast mót (ekki of lítið þótt þetta sé bara einn lítill kjammi, dreifði dálítilli ólífuolíu á botninn, setti kjammann í mótið og hellti meiri olíu yfir hann (líklega 3 msk alls). Svo skar ég nokkrar frekar litlar kartöflur í helminga og einn rauðlauk í bita og dreifði í kring, ásam tveimur söxuðum hvítlauksgeirum. Opnaði svo eina dós af heilum tómötum og dreifði í kring, ásamt leginum úr dósinni. Kryddaði með nýmöluðum svörtum pipar og flögusalti, stráði 1 tsk af óreganói yfir og bætti við 2-3 lárviðarlaufum (það má nota aðrar kryddjurtir eftir smekk) og að lokum hellti ég 100 ml af hvítvíni yfir.
Svo setti ég þetta í ofninn og steikti í hálftíma. Þá tók ég það út, sneri kartöflunum við, setti þetta aftur í ofninn og steikti í svona hálftíma í viðbót, eða þar til kartöflurnar voru alveg meyrar og kjamminn eldaður í gegn.
Íslensk svið og sardinísk uppskrift, það er nú ekki slæm blanda.
*
Svið að hætti sardinískra fjárhirða
1 sviðakjammi
3 msk ólífuolía
5-6 kartöflur, fremur litlar
1 rauðlaukur
1 dós tómatar, heilir
2 hvítlauksgeirar
pipar og salt
1/2 tsk óreganó
2-3 lárviðarlauf
100 ml þurrt hvítvín
[…] sem henta betur fyrir einbúa í einangrun. Til dæmis átti ég lambshaus, eldaði annan kjamman að sardinískum hætti á dögunum og nú var komið að hinum. Mig langaði að búa til súpu, hef áður eldað […]