Eins og ég sagði frá á föstudaginn átti ég bara pakka með tveimur andabringum og þurfti því að þíða báðar en eldaði bara aðra. En nú var komið að því að elda hina og ég ákvað að gera eitthvað allt öðruvísi með hana.
Það er svosem ansi margt hægt að gera með andabringu en mér datt í hug að elda einhvers konar karrírétt. Á taílenskum nótum, kannski. Stundum geri ég karrímauk frá grunni en nú átti ég alls ekki allt sem ég hefði viljað nota í það en hins vegar var til rautt taílenskt karrímauk í krukku og kókosmjólk.
Þegar ég var að hugsa um hvað ég ætti að hafa fleira mundi ég eftir að þegar ég var að taka til í ísskápnum í gær fann ég bakka með slatta af rauðum vínberjum, sem hafði lent aftast í hillu og gleymst. Ég veit ekki alveg hvað þau voru gömul og þau voru aðeins farin að láta á sjá, orðin svolítið hrukkótt og farin að linast, en alls ekki mygluð eða neitt og það var ekkert að bragðinu. Svo að ég henti þeim ekki og datt nú í hug að ég gæti kannski notað þau. Önd, karrí og vínber hljómar kannski undarlega en það er jú svona sem fólk getur farið að gera þegar aðeins fer að ganga á birgðirnar.
Ég byrjaði á að taka andabringuna, rista tígulmynstur í fituna og krydda bringuna með pipar og salti. Svo hitaði ég pönnu (eða í þessu tilviki reyndar wok úr steypujárni, en panna er fín) og steikti bringuna við nokkuð góðan hita, fyrst á fituhliðinni í 7-8 mínútur og svo á hinni í svona 4 min. Tók hana þá af pönnunni, setti á bretti og lét bíða. – Ef mikil fita bráðnar af bringunni er best að hella henni af og skilja svona 1-2 msk eftir.
Ég var búin að skera niður smábút af blaðlauk (svona 6-7 cm, en það mætti líka nota 1/2 venjulegan), 1 hvítlauksgeira og 1/2 chilialdin (kannski samt óþarfi, karrímaukið er nógu sterkt. Setti það á pönnuna, lét krauma í nokkrar mínútur og hrærði oft á meðan. Bætti svo (mjög) vel kúfaðri teskeið af rauðu karrímauki á pönnuna og hrærði vel. Síðan opnaði ég 1 dós af kókosmjólk og hellti á pönnuna, bætti við svona 100 ml af tómat-passata (afgangur síðan ég eldaði súpuna í fyrradag), hrærði vel og lét malla í nokkar mínútur.
Svo skar ég andabringuna í þunnar sneiðar þvert yfir og setti á pönnuna, ásamt vínberjunum og lófafylli af frosnum grænum baunum.
Hrærði og lét þetta malla við vægan hita í 4-5 mínútur. Smakkaði, saltaði ögn og stráði svo saxaðri basilíku yfir (bara upp á útlitið samt).
Svo bar ég þetta fram með soðnum hrísgrjónum. Óvenjulegt en býsna hreint gott.
Andabringa í rauðu karríi með vínberjum og baunum
1 andabringa
blaðlauksbiti eða 1/2 laukur
1 hvítlauksgeiri
1/2 chilialdin (má sleppa)
kúfuð teskeið rautt karrímauk
1 dós kókosmjólk
100 ml tómat-passata eða maukaðir tómatar
um 100 g rauð vínber
lófafylli af frosnum grænum baunum
e.t.v. nokkur basilíkublöð