Ég hef séð á Facebook og Twitter að undanförnu að margt erlent vinafólk mitt – mikið mataráhugafólk flest, matreiðslubókahöfundar upp til hópa – er þessa dagana að fara í gegnum búrið sitt og skápana og kanna birgðastöðuna og finna alls konar hluti sem þeir hafa einhverntíma keypt eða fengið gefins og ekkert vitað hvað þeir áttu að gera við eða gleymt. En nú er þess tími kannski kominn og það kæmi mér ekki á óvart þótt ég ætti eftir að sjá ýmsum óvenjulegum réttum skjóta upp á næstunni.
Ég er auðvitað í þessum gír líka, búin að vera að fara í gegnum mínar birgðir og finna ýmislegt sem ég var búin að steingleyma að ég ætti. Rétturinn sem ég eldaði handa mér í kvöld er nú samt ekki þannig til kominn þótt hann sé vissulega ekki mjög venjulegur, þ.e. ég fann nú ekki hráefnið í hann í ísskápnum, ég vissi alveg af því og þurfti að fara að nota það hvort eð var.
Eitt af því sem ég átti í ísskápnum þegar ég hóf einangrunina var pakki af reyktu folaldakjöti, sem ég hafði keypt nokkrum dögum fyrr. Ég held ég hafi ætlað að gera eitthvað hefðbundið úr honum, kannski bara folaldahangikjöt með uppstúfi, en nú er ég að spara mjólkina svo að þegar ég ákvað að elda kjötið núna (enda farið að nálgast síðasta söludag) kom uppstúf ekki til greina og mig langaði ekki í kartöflustöppu eða sætkartöflustöppu eða neitt af því sem mér kom fyrst í hug.
En svo fékk ég hugmynd. Pínu sambland af alíslensku og austurlensku.
Ég byrjaði á að sjóða kjötið – þetta voru þrjár sneiðar, frekar þunnar, um 1 kg samtals en töluvert af því voru bein – í rúman klukkutíma, eða þar til það var meyrt. Ég lét það kólna aðeins, tók það svo af beinunum, tók helminginn til hliðar og setti í kæli (verður í matinn seinna í vikunni, einhver allt önnur útgáfa) en skar afganginn í bita – sirka munnbitastóra. Ég átti líka tvo vorlauka – þá seinustu í grænmetisskúffunni, held ég – skar þá í bita og setti skærgræna hlutann til hliðar.
Svo hrærði ég saman 100 ml af hikkorí-bbq-sósu, 2 msk af sojasósu, 2 söxuðum hvítlauksgeirum og smáklípu af cayennepipar í skál og setti kjötið og hvíta/ljósgræna hlutann af vorlauknum út í og blandaði vel.
Ég hitaði ofninn í 225°C. Tók þykka sneið af ferskum ananas, flysjaði og skar í bita, blandaði saman við kjötið ásamt lófafylli af edamame-baunum í hýði (má sleppa) og dreifði öllu saman í pappírsklædda ofnskúffu. Setti þetta svo í ofninn í um 12 mínútur. Á meðan sauð ég hrísgrjón.
Svo setti ég hrísgrjónin á disk, hrúgaði kássunni yfir, stráði grænu bitunum af vorlauknum ofan á og setti á borðið. Þetta var bara hreint ekki svo vitlaust.
Reykt folald og ananas í bbq-sósu
250 g reykt folaldakjöt, soðið
100 ml af bbq-sósu (hikkorí)
2 msk sojasósa
2 hvítlauksgeirar, saxaðir
smáklípa af cayennepipar
3-4 cm þykk sneið af ferskum ananas
lófafylli af edamamebaunum (má sleppa)
2 vorlaukar
soðin hrísgrjón