Linsubaunasúpa í kuldatíð

Veturinn er súputími; tími fyrir matarmiklar, næringarríkar, heitar, yljandi og gjarna vel kryddaðar súpur. Stundum langar mann í góða kjötsúpu, kjúklingasúpu eða fiskisúpu en janúar er nú ekki síst tími fyrir grænmetis- og baunasúpur. Til dæmis þessa indverskættuðu linsubaunasúpu, sem hefur einnig þá kosti að vera býsna ódýr og ákaflega einföld.

Súpan er eiginlega ekki krydduð fyrr en í lokin, þegar heitri, kryddaðri olíu (tadka) er hrært saman við. Kryddblöndunni má breyta eftir smekk og gera tilraunir með ýmsar aðrar samsetningar.

_MG_7778

Ég byrjaði á að saxa tvo lauka og eitt chilialdin (ég fræhreinsaði það en ef maður vill sterkari súpu sleppa því), 2-3 hvítlauksgeira og 2-3 cm bita af engifer og setja í pott ásamt 300 g af rauðum linsubaunum, hálfri dós af söxuðum tómötum og dálitlu salti.

Svo hellti ég 1 l af vatni í pottinn og hitaði að suðu. Lét malla rólega í 30–40 mínútur, eða þar til linsurnar voru orðnar vel meyrar. Ég hellti svo súpunni í matvinnsluvél – mín er með stóra skál en ef hún er lítil er betra að gera þetta í 2-3 skömmtum – og maukaði hana. Einnig má nota töfrasprota. Smakkaði súpuna  og bætti við ögn af salti.

_MG_7812

Á meðan súpan mallaði hafði ég gert kryddolíuna: Ég setti 2 msk af olíu á litla pönnu (eða í pott), ásamt 1 tsk af paprikudufti, 1 tsk af túrmeriki og 1 tsk af kummini. Ég hrærði þetta saman og lét krauma í 1–2 mínútur en gætti þess að kryddið brynni ekki. Svo hellti ég kryddolíunni varlega yfir baunirnar í pottinum og hrærði lauslega saman (en það má gjarna sjást mynstur).

Krydduð linsubaunasúpa (3)

Ef maður á kóríanderlauf er gott að strá svolitlu af því yfir. Súpan er svo borin fram með naanbrauði eða öðru brauði.

*

Krydduð linsubaunasúpa

300 g rauðar linsubaunir

2 laukar, saxaðir smátt

1 chilialdin, fræhreinsað og saxað smátt

2–3 hvítlauksgeirar, saxaðir

2–3 cm biti af engifer, saxaður smátt

1/2 dós saxaðir tómatar

salt

1 l vatn

2 msk olía

1 tsk paprikuduft

1 tsk túrmerik

1 tsk kummin

kóríanderlauf (má sleppa)

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s