Svolítið afturhvarf

Það hefur nú líklega ekki farið framhjá neinum hvað avókadó – eða lárperur – hafa verið mikið í tísku síðustu árin. Þessi ávöxtur – því að vissulega er avókadó ávöxtur þótt maður sjái það oftar í grænmetisdeildinni – var ekki til hér þegar ég man fyrst eftir og sást reyndar lítið í Evrópu fyrr en á sjöunda áratugnum. Eða eins og athugul amma í breskum sjónvarpsþætti sagði einhverntíma og ég held ég hafi nú vitnað í áður: „Lárperur og lesbíur komu fram á sama tíma. Þetta byrjaði allt um árið 1962, minnir mig.“

Þær voru líklega aðeins seinni á ferðinni hér – bæði lárperur að koma á markað og lesbíur út úr skápnum – en ávöxturinn fór allavega að sjást fyrst um 1970 þótt fæstir vissu hvað ætti að gera við hann; í blaðafrétt frá 1972 má lesa þetta:

Screen Shot 2018-01-23 at 21.02.01

Svo áttaði fólk sig nú smátt og smátt á að það var hægt að gera eitt og annað við avókadó, það var þó helst notað ofan á brauð (í sneiðum eða stappað), í salöt og þess háttar og svo komust margir upp á að gera guacamole. En það var eiginlega ekki fyrr en fyrir nokkrum árum sem farið var að nota það miklu meira, bæði eitt sér og í ýmiss konar rétti, þar á meðal ábætisrétti (í sumum Suður-Ameríkulöndum hefur það alltaf verið notað sem ávöxtur og borðað með sykri).

Helstu ástæðurnar fyrir vinsældunum eru kannski frekar að það er mun aðgengilegra og auðfengnara en áður og miklu algengara að hægt sé að kaupa það á réttu þroskastigi. Markaðssetningin hefur verið góð. Og svo hefur það fengið orð á sig fyrir að vera sérlega heilsusamlegt. Sem er auðvitað að ýmsu leyti rétt; avókadó er næringarríkt, inniheldur B- og E-vítamín og fleiri hollefni, trefjar og dálítið af próteini. En það er fituríkt (vissulega að einómettaðri fitu) og því býsna hitaeiningaríkt; í 150 g avókadói eru um 30 g af fitu og um 285 he. Svo að megrunarfæða er það ekki.

Það er líka ástæða til að minnast á að avókadó er ekki sérlega umhverfisvænt í ræktun. Það krefst mikillar vatnsnotkunar, sem er vandamál í mörgum ræktunarlöndum, auk þess sem áburðar- og skordýraeitursnotkun er oft mikil. Og t.d. í Mexíkó hafa vinsældir avókadós orðið til þess að bændur hafa mun meira upp úr því að rækta það en hefðbundar tegundir, sem eru umhverfisvænni, og hafa verið að ryðja skóglendi til að rækta avókadótré. Svo að það eru tvær hliðar á öllu.

En alveg hreint burtséð frá því, þá er hér avókadóuppskrift. Avókadó hefur lengi verið notað á ýmsan hátt með rækjum og á vel við með þeim. Þetta er svolítið retró, afturhvarf til áttunda áratugarins; áður fyrr gerði ég stundum fyllta avókadóhelminga með rækjum en þá var eingöngu hægt að fá fremur stóra ávexti; litlu avókadóin sem nú er hægt að fá eru mun hentugri í þennan rétt. Salsafyllingin sem hér kemur ætti að duga í 16 litla avókadóhelminga en það er líka hægt að bera hluta af henni fram í skál og hafa e.t.v. kex eða brauð með fyrir þá sem kjósa það frekar. Það má sleppa kotasælunni og setja e.t.v. meira grænmeti í staðinn.

Ég byrjaði á að láta 250 g af rækjum þiðna í sigti. Svo skar ég 8 lítil avókadó (eða 4, ef maður ætlar að bera hluta af salatinu fram með brauði handa þeim sem eru ekki mikið fyrir avókadó) í tvennt og fjarlægði steininn. Ef hann er mjög lítill (og skilur þar af leiðandi eftir sig litla holu) má stækka hana dálítið með skeið. Eins og sjá má á myndinni voru steinarnir í þessum ákaflega misstórir.

_MG_0507

Ég tók eina sítrónu, reif börkinn af henni með fínu rifjárni og setti til hliðar. Svo kreisti ég safann úr sítrónunni á disk og dýfði skurðfletinum á avókadóhelmingunum ofan í. Raðaði þeim svo á disk eða bakka; það getur verið gott að skera örþunna sneið neðan af helmingunum svo að þeir haldist stöðugir. Það er þó óþarfi ef maður á svona fínan gamaldags disk með lautum til að raða einhverju góðgæti í (þennan keypti ég á fornsölu á Akureyri fyrir mörgum árum).

Þá var það fyllingin: Ég saxaði grænu blöðin af 2-3 vorlaukum, 10 cm bút af gúrku, 75 g af kirsiberjatómötum og nokkrar radísur frekar smátt og setti í skál.

_MG_0500

Svo blandaði ég rækjunum saman við, ásamt 100 g af kotasælu, og kryddaði með 1/2 tsk af hvítlauksdufti, cayennepipar á hnífsoddi, pipar og salti. Auðvitað má líka nota kraminn hvítlauk í staðinn fyrir hvítlauksduftið en þetta átti nú að vera örlítið retró og á áttunda áratugnum notaði maður hvítlauksduft eða hvítlaukssalt …

_MG_0502

Svo saxaði ég hálft knippi af kóríanderlaufi (það hefði maður nú ekki notað á áttunda áratugnum, þá fékkst það hvergi) og blandaði saman við ásamt sítrónuberkinum. Svo er gott að smakka þetta og bragðbæta e.t.v. með afganginum sítrónusafanum sem avókadóunum var dýft í.

_MG_0519

Svo kúffyllti ég avókadóin með blöndunni og skreytti með kóríanderlaufi.

Og eins og ég sagði má svo setja hluta af salatinu í skál og bera fram með fyrir þá sem vilja ekki heilan avókadóhelming. Þótt lítill sé.

*

Avókadó með rækjusalsa

250 g rækjur, soðnar og skelflettar

4-8 lítil avókadó

1 sítróna

grænu blöðin af 2-3 vorlaukum

10 cm bútur af gúrku

75 g kirsiberjatómatar

4-5 radísur

100 g kotasæla

1/2 tsk hvítlauksduft (eða kraminn hvítlaukur)

cayennepipar á hnífsoddi

pipar og salt

1/2 knippi kóríanderlauf

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s