Ekkert sérlega vetrarlegt, nei …

Aðeins meira um avókadó. Það – eða forfeður þess – hefur verið ræktað, eða að minnsta kosti borðað, í Mið- og Suður-Ameríku í allavega átta til tíu þúsund ár. Nafnið á ávextinum er komið af spænska heitinu aguacate, en upphaflega úr máli Azteka, af orðinu ahuacatl, sem líka þýddi eista – nafnið trúlega orðið til vegna þess að lögunin hefur þótt minna á eista.

Í sumum tungumálum hefur ávöxturinn (eða hafði áður) einhvers konar peru-heiti, var t.d. gjarna kallaður advokatpære á dönsku (lögfræðingapera; lögfræðingshlutinn orðinn til vegna hljóðlíkingar). Íslenska heitið lárpera var búið til á áttunda áratugnum. Það hefur aldrei náð almennilega festu en er þó nothæft af því að flestir þekkja það og merkingu þess, öfugt við t.d. loðber (kíví) eða granaldin (ananas).

Allir vita að afhýtt/niðursneitt avókadó verður fljótlega grábrúnt þegar það kemst í snertingu við súrefni, sama hversu fagurgrænt eða fallega ljósgrænt það kann að vera. Við því er helst til ráða að  pakka því inn í plast eða velta því upp úr sítrussafa. Það hefur hins vegar ekkert upp á sig að setja steininn úr ávextinum í guacamoleskálina eða salatið, eins og ég sagði frá hér.

En þetta er ekki guacamole, heldur salat með gulrótum, appelsínum og svo auðvitað avókadói. Uppskriftin er frá því í fyrrasumar, eins og sést á myndunum, en þetta er ágætis salat á öllum árstímum. Þetta er frísklegt og gott salat  sem hægt er að bera fram sem sjálfstæðan rétt með góðu brauði en fer líka vel t.d. með kjúklingi eða fiski .

Ég byrjaði á að taka nokkrar gulrætur, snyrti þær og reif þær svo á fremur fínu rifjárni.

_MG_0072

Svo tók ég tvær appelsínur, reif gula börkinn af annarri þeirra og setti hann til hliðar. Síðan skar ég hvíta börkinn af henni og allan börk af hinni, skar burt himnur (en ef maður nennir því ekki mega þær svosem alveg fylgja með) og skar appelsínurnar svo í bita.

_MG_0079

Næst tók ég tvö vel þroskuð avókadó, flysjaði þau og steinhreinsaði og skar þau í bita. Kreisti svo safa úr hálfri sítrónu í skál, velti avókadóbitunum upp úr honum og settu svo rifnar gulrætur og appelsínubita út í ásamt vænni lúku af klettasalati og blandaði þessu saman.

Svo hristi ég saman 4 msk af olíu, 1 msk af balsamediki, 1 tsk af rósapipar og dálítinn pipar og salt, hellti yfir salatið og blandaði vel.

Gulróta- og appelsínusalat

Já, það var víst sumar …

*

Gulróta-appelsínu-avókadósalat

4-5 gulrætur, meðalstórar

2 appelsínur

2 avókadó, vel þroskuð

væn lúka af klettasalati (eða öðru salati)

safi úr 1/2 sítrónu

4 msk olía

1 msk balsamedik

1 tsk rósapipar

pipar og salt

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s