Ég var að breyta um útlit á blogginu (sem ég geri yfirleitt svona einu sinni á ári, oftast bara af því að ég er orðin leið á gamla þemanu). Látið mig endilega vita ef ykkur finnst þetta verra á einhvern hátt. Þessi hönnun er af ýmsum ástæðum mun þægilegri fyrir mig en það er ekki víst að það sama gildi um notendur …
Ég var líka að taka til í matarmyndasafninu mínu og áttaði mig á því að ég á miklu fleiri óbirtar uppskriftir en ég hélt – þá á ég reyndar aðallega við að þær hafa ekki birst hér, heldur í bókum, blöðum, tímaritum og víðar, en þarna er líka töluvert af uppskriftum sem hvergi hefur birst. Svo að ég hef víst úr nógu að moða ef mig langar að miðla uppskriftum. Enda elda ég helst aldrei sama matinn tvisvar (með undantekningum, vissulega) og reyni oftar en ekki að skrá hvað ég geri, í myndum og texta. Stundum kemur samt fyrir að ég gleymi að skrifa uppskriftina og sit svo uppi með fínar myndir af einhverju sem virkar svaka girnilegt en ég man ekkert hvernig ég gerði það – og stundum ekki einu sinni hvað þetta er.
Stundum vinn ég út frá einhverju þema, til dæmis mat frá tilteknu landi, og þessi réttur hér er þannig til kominn. Þegar Ólympíuleikarnir voru haldnir í Brasilíu árið 2016 greip ég tækifærið og gerði þátt með brasilískum mat fyrir MAN. Ég hef birt einhverjar uppskriftir úr þættinum áður, allavega hér, hér og hér, og kannski koma hinar seinna. En hér eru allavega brasilískar moqueca de camaroes – rækjur í kókossósu.
Ég byrjaði á að taka 500 g af stórum, hráum rækjum, skelflettum (keyptum í Kolaportinu) og láta þær þiðna. Svo kreisti ég safa úr 1-2 límónum (eftir því hvað þær eru safaríkar) í skál, saxaði þrjá hvítlauksgeira og blandaði saman við ásamt dálitlu salti. Zvo setti ég rækjurnar út í, blandaði vel og lét þetta standa í a.m.k. hálftíma.
Ég bræddi svo 3 msk af kókosolíu á pönnu (eða í víðum potti). Tók 10 cm bút af blaðlauk og 1 lauk, saxaði þetta og lét krauma í olíunni í um 5 mínútur.
Á meðan fræhreinsaði ég eina stóra, rauða papriku og skar hana í bita. Setti hana út í ásamt góðri klípu af chiliflögum, 1 tsk af paprikudufti og dálitlu salti og lét krauma í nokkrar mínútur í viðbót.
Þá skar ég niður fjóra vel þroskaða tómata, setti þá út í, hellti einni dós af kókosmjólk yfir og lét malla í 10 mínútur.
Þá setti ég rækjurnar út í og lét sjóða í um 3 mínútur, eða þar til þær höfðu breytt um lit. Hrærði í nokkrum sinnum á meðan.
Að lokum skreytti ég með svolitlu kóríanderlaufi (ekki nauðsynlegt) og bar þetta fram með soðnum hrísgrjónum.
*
Moqueca de camaroes – rækjur í kókossósu
500 g stórar rækjur, skelflettar en hráar
safi úr 1-2 límónum
3 hvítlauksgeirar
salt
3 msk kókosolía
10 cm bútur af blaðlauk
1 laukur
1 rauð paprika
klípa af chiliflögum
1 tsk paprikuduft
salt
4 tómatar
1 dós kókosmjólk
e.t.v. kóríanderlauf