Brasilískt kjúklingasalat

Ég er í töluverðu grænmetis/grænkerastuði þessa dagana, hef verið að elda mikið af grænmetisréttum og líka að útbúa mikið af alls konar orkubitum og próteinstykkjum sem vill svo til að eru vegan. Og svo hef ég verið mynda þetta eins og ég geri nú gjarna og svo hef ég sett dálítið af myndunum á twitter (þar sem ég pósta bara á ensku og bara myndum, ekki uppskriftum) og tagga þær #vegan og allt í einu er ég komin með hóp af grænkerafylgjendum og komin á einhverja vegan-lista. Og ég veit þá ekki hvað gerist næst þegar ég set inn mynd af til dæmis sviðum eða blóðugri nautasteik, þetta fólk fær örugglega sjokk …

En allavega, hér er uppskrift sem er ekki grænmetis (þótt það sé slatti af grænmeti í henni)    en heldur ekki svið eða blóðug steik. Þetta er vinsælt brasilískt salat, uppskriftin var í Brasilíuþættinum sem ég var með í MAN í sumar. Mjög einfalt en merkilega gott þótt það sé gert úr frosnu grænmeti að hluta. Reyndar eru yfirleitt rúsínur í því en ég sleppti þeim af tómri tillitssemi við rúsínuhatara í minni fjölskyldu, held þó að það sé ekki verra að hfa þær með. En kartöflustráin eru alveg ómissandi. Og jú, þetta er majónessalat, ekki beint hollustan uppmáluð svosem.

_mg_2321

Ég var með kjúklingabringur, tvær frekar vænar. Það má líka nota kjúklingaafganga ef þeir eru til. En ég byrjaði á að hita ofninn í 220°C. Setti kjúklingabringurnar í eldfast mót, velti þeim upp úr 1 msk af olíu og kryddaði þær með pipar, salti og 1/2 tsk af þurrkuðu timjani. Breiddi álpappír yfir mótið og steikti bringurnar í um 25 mínútur. Þá tók ég þær út, lét þær hálfkólna og reif þær svo í bita eða tægjur. Ég geymdi soðið úr mótinu til að nota út á salatið._mg_2316

Svo tók ég tvær stórar og sverar gulrætur (mega auðvitað vera nokkrar minni) og reif þær á fremur grófu rifjárni. Skar líka eitt grænt epli í litla bita.

_mg_2317

Ég sauð 200 g af frosnum grænum baunum og 200 g af maískorni samkvæmt leiðbeiningum á umbúðum, hellti þessu í sigti og lét kólna áður en ég blandaði gulrótunum saman við. Ég hellti soðinu úr mótinu yfir og blandaði því saman við; ef maður notar kjúklingaafganga má bara sleppa því en krydda þá salatið heldur meira í staðinn.

 

_mg_2326

Ég saxaði svo hálft knippi af steinselju og blandaði saman við ásamt kjúklingnum. (Ef maður notar rúsínur eru þær settar út í líka, kannski svona lófafylli.) Síðan hrærði ég saman 250 ml af majónesi og 100 ml af sýrðum rjóma, kryddaði með pipar og salti, hellti yfir salatið og blandaði vel.

_mg_2327

Síðan blandaði ég tveimur þriðju af kartöflustráunum saman við.

salpicao

Setti svo salatið í skál, dreifði afganginum af kartöflustráunum yfir og svo skreytti ég með ögn af steinselju, en þess þarf svosem ekki.

salpicao-2

Salpicao-kjúklingasalat

2-3 kjúklingabringur (einnig má nota kjúklingaafganga)

1 msk olía

pipar og salt

1/ 2 tsk þurrkað timjan

2 stórar gulrætur

1 grænt epli

200 g frosinn maís

200 g frosnar grænar baunir

 

1/2 knippi fjallasteinselja

250 ml majónes, heimagert eða keypt

100 g sýrður rjómi

pipar og salt

200 g kartöflustrá (Pik-Nik)

One comment

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s