Haustrigningar og rok, það er svosem ekkert nýtt en kannski verð ég aðeins meira vör við það en áður. Öll þau ár sem ég bjó í miðbænum átti ég heima í íbúðum í húsalengjum, frekar há hús í kring, þröngbyggt og kannski ívið meira skjól; hér er allt opnara, meira útsýni og kannski finnur maður meira fyrir vindum þess vegna. En svo er ég kannski aðeins meira að hugsa um veðrið af því að nú er ég komin með svalir þar sem ég er að byrja ræktun og er alltaf að huga að plöntunum mínum; hef reyndar helst áhyggjur af því þessa dagana að þær drukkni.
Á Grettisgötunni hugsaði ég lítið um það sem var á svölunum, enda var þar fátt annað en grillið og stöku sinnum tunna með svínslæri eða öðru kjöti í pækli, sem ég hafði nú litlar áhyggjur af. En þegar hvessti af norðri buldi nú stormurinn á svölunum svo um munaði (hér er ég alveg í skjóli fyrir norðanáttinni) og í hitteðfyrrahaust rifnaði lokið af grillinu af því að ég hafði gleymt að setja yfirbreiðsluna á það. Enda fór ég aldrei út á svalir. Það gerist ekki hér.
Í svona tíðarfari eru ýmiss konar haustréttir mér vitaskuld ofarlega í huga; pottréttir og súpur og svoleiðis. Nokkur sýnishorn eru til dæmis í nýju tölublaði af MAN, sem var að koma í búðir … En maður þarf nú ekkert algjörlega að fylgja árstíðunum í matarvali og mér finnst ágætt að skjóta öðru inn á milli. Og það ætla ég að gera núna, enda er þetta réttur af því tagi sem er alls ekki bundinn við neina árstíð. Á heimaslóðum hans í Andalúsíu er reyndar sól og sumar allt árið – eða þannig – en þetta er norræn útgáfa og kannski aðeins kuldalegri.
Í Andalúsíu eru notaðar pínulitlar rækjur sem eru eldaðar heilar og borðaðar með skel og öllu saman. Hér eru aftur á móti notaðar venjulegar rækjur, soðnar og pillaðar. Á Spáni eru lummurnar líka gerðar úr kjúklingabaunamjöli en það má alveg nota hveiti. Þar er þetta yfirleitt hluti af tapas og lummurnar eru tilvaldar á smáréttahlaðborð en það er líka alveg hægt að hafa þetta í kvöldmatinn. Ég fékk úr þessu svona 15 frekar litlar lummur en það má auðvitað hafa þær litlar eða stórar eftir hentugleikum.
Ég byrjaði á að láta 350 g af litlum rækjum þiðna í sigti og setti þær svo í matvinnsluvél ásamt 3-4 grófsöxuðum vorlaukum og lófafylli af steinselju.
Grófsaxaði þetta – rækjurnar eiga ekki að fara alveg í mauk, þ.e. þetta á ekki að vera slétt fars.
Ég setti svo 75 g af hveiti (eða öðru mjöli) í skál og hrærði tveimur eggjum og svona 75 ml af köldu vatni saman við – best að setja samt ekki allt vatnið út í strax, heldur bæta við eftir þörfum þar til manni finnst soppan hæfilega þykk.
Svo hrærði ég saman við soppuna 3/4 tsk af paprikudufti, cayennepipar á hnífsoddi og dálitlum pipar og salti.
Að lokum blandaði ég rækjuhakkinu saman við þetta og lét standa í kæli í a.m.k. hálftíma.
Þá hitaði ég dálitla olíu á pönnu, setti soppuna á hana með matskeið og steikti lummurnar við meðalhita í 2-3 mínútur á hvorri hlið.
Hér eru lummurnar bornar fram á tapas-hlaðborði (ég var með tapasþátt í septemberblaði MAN) en það mætti líka bera þær fram með einhverri góðri sósu, t.d. kryddjurtabættri tómatsósu eða bara rauðu pestói, grænu salati eða steiktu grænmeti.
Litlar rækjulummur
350 g litlar rækjur
3–4 vorlaukar
lófafylli af steinselju
75 g hveiti
2 egg
75 ml kalt vatn, eða eftir þörfum
3/4 tsk paprikuduft
cayennepipar á hnífsoddi
pipar og salt
olía til steikingar