Brasilískar ostabollur

Sko, ég er í glútenvinafélaginu eins og oft hefur komið fram. Það er að segja í þeirri merkingu að ég lít hvorki á glúten sem eitur né óhollustu eða móður allra meina eða eitthvað slíkt; ég veit að til er fólk sem þolir alls ekki glúten og aðrir sem melta það illa en sjálf er ég hreint ekki í þeim hópi og kann vel að meta góða eiginleika glútens.

Það þýðir samt ekki að ég geri aldrei neitt glútenlaust. En það er þá yfirleitt ekki beinlínis til að forðast glúten (þótt fyrir komi að ég útbúi eitthvað slíkt ef ég er sérstaklega beðin um það). Stundum er ég bara að útbúa kökur eða brauð eða annað sem vill einfaldlega svo til að  inniheldur ekki glúten.

Þannig var það til dæmis með þessar vatnsdeigsbollur sem ég gerði fyrir brasilíska þáttinn sem ég var með í MAN í ágúst. Þær eru mjög algengar í Brasilíu og m.a. þess vegna hafði ég þær með; hugsaði eiginlega ekki út í fyrr en eftir á að þær eru náttúrlega glútenlausara og gætu hentað vel fyrir þá sem vilja forðast glúten. Þessar eru með osti og henta kannski ekki sem rjómabollur á bolludaginn en eru fínar t.d. með súpu og snarli. Og það er ekki ólíklegt að sleppa megi ostinum en ég hef semsagt ekki prófað það.

Tapíóka er hvítt mjöl eða sterkja úr rótum kassavaplöntunnar, sem er mikilvæg matjurt sumstaðar í Suður-Ameríku, Asíu og Afríku. Einhverntíma hef ég séð því haldið fram að tapíóka sé sama og kassavamjöl en svo er ekki, kassavamjölið er minna unnið og ekki eins sterkjuríkt.

_mg_2192

Ég keypti tapíókamjölið í Mai Tai á Hlemmi en það fæst í öllum austurlenskum búðum og sjálfsagt víðar og er ekki dýrt.

Ég byrjaði á að hita ofninn í 225°C og svo tók ég 100 g af parmesanosti og reif hann fínt. Setti hann svo til hliðar.

_MG_2194.jpg Svo hellti ég 250 ml af mjólk og 75 ml af olíu í pott, bætt1 við  1/2 tsk af salti og hitaði upp undir suðu. Tók þá pottinn af hitanum, setti 200 g af tapíókamjöli út í og hrærði vel.

_mg_2195

Blandan verður límkennd í fyrstu og líklega fremur ókræsileg, það er eðlilegt. Það er hægt að klára að hræra hana með sleif í pottinum …

_mg_2196

… en ykkur að segja nenni ég því nú sjaldnast þegar ég geri venjulegt vatnsdeig og þaðan af síður nennti ég því þarna, heldur setti ég deigið í hrærivél og lét hana ganga í nokkrar mínútur. Svo tók ég tvö egg, hrærði fyrst öðru þeirra saman við deigið og síðan hinu.

_mg_2203

Og að lokum parmesanostinum.

_mg_2206

Ég setti svo deigið með matskeið á pappírsklædda bökunarplötu og bleytti skeiðina í vatni á milli.

_mg_2208

Ef bollurnar verða mjög óreglulegar í laginu má bleyta fingurgómana og laga þær aðeins til. Best er að hafa  3-4 cm bil á milli þeirra; þetta ættu að verða um 12 bollur.

_mg_2210

Ég setti svo plötuna í miðjan ofninn, lækkaði hitann strax í 180°C og bakaði bollurnar í 20-25 mínútur, eða þar til þær höfðu blásið út og tekið fallegan lit.

pao-de-quejo

Gott er að bera bollurnar fram volgar. Það má líka geyma þær í nokkra daga og hita þærð þá upp áður en þær eru bornar fram.

pao-de-quejo-3

Pao de queijo – ostabollur

100 g parmesanostur

250 ml mjólk

75 ml olía

1/2 tsk salt

200 g tapíókamjöl

2 egg

One comment

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s