Ég er sveitastelpa, eða var það einu sinni að minnsta kosti. Ég ætla nú ekki kannski beint að segja að sláturtíðin á haustin hafi verið einn skemmtilegasti tími ársins – og þó; það var allavega heilmikil tilbreyting. Þótt flestöll lömbin færu í sláturhúsið á Króknum var slátrað heima því sem ætlað var til heimanota og það var töluvert, enda heimilið stórt og mikið til sjálfu sér nægt um mat.
Og maður fylgdist með af áhuga og fékk að vera með; ég var að vísu ekki gömul þegar við fluttum úr sveitinni og ekki farin að taka þátt í öllum sláturstörfum en ég fékk til dæmis að svíða svið og lappir, hræra í blóði, reyta ristla og rekja garnir, hleypa úr vömbum, brytja mör (en entist nú illa við það) og ýmislegt fleira. Það voru fáir bitar af kindinni sem ekki voru hirtir, ýmist til matar handa mannfólki eða hundum, og þetta var einmitt á meðal þess sem ég talaði um í erindi sem ég flutti á ráðstefnu í Oxford í sumar, þar sem þemað var innmatur. Erindið kallaði ég Gone and Forgotten – Hook steaks, trash bags and other disappeared Icelandic offal dishes. En reyndar var hvorki krókasteik né ruslakeppur á borðum á mínu bernskuheimii.
Uppskriftin sem hér kemur er heldur ekki að einum þessara horfnu eða hálfgleymdu rétta, heldur þvert á móti þar sem ég tók gamalkunnugt hráefni sem ég ólst upp við og færði það í nýjan búning, ansi ólíkan því sem mamma gerði og ég tala nú ekki um formæður mínar. Sjálf hef ég dálæti á flestum innmat en ég veit að það eru sífellt færri sem kunna að meta hann – sem er miður því þetta er hráefni sem er gaman að leika sér að og hægt að gera svo ótalmargt annað við en þessa fáu rétti sem maður ólst upp við.
Mér finnst líka rétt að benda öllum sem hneykslast (réttilega) á matarsóun en eru ekki grænmetisætur á að hér er nú aldeilis tækifæri til að sýna hug sinn í verki; það á auðvitað að nýta alla hluta skepnunnar, ekki bara meyru og fitulitlu vöðvana … Svo er þetta einhver ódýrasti matur sem völ er á, ég held ég hafi borgað 159 krónur fyrir lambahjörtu sem dugðu handa tveimur.
Stundum segir fólk að það eldi ekki hjörtu af því að það þurfi að sjóða þau svo lengi svo þau verði ekki seig. En hjörtu eru eitt af þessu sem maður eldar annaðhvort lengi við lágan hita eða stutt við háan. Ef hjörtu eru sneidd þunnt og pönnusteikt eða grilluð tekur það aðeins örfáar mínútur. Öll eldamennskan tók svona 15 mínútur.
Ég var semsagt með þrjú lambahjörtu, rétt um 500 grömm samtals. Ég snyrti þau – skar ofan af þeim og skar burt æðar og mestalla fituna.
Svo skar ég hjörtun í um 5 mm þykkar sneiðar þvert yfir og hverja sneið í tvennt (nema þær minnstu).
Kryddaði hjörtun með salti, pipar, paprikudufti og dálitlum chili- eða cayennepipar og lét liggja í nokkrar mínútur.
Ég átti 150 g af þiðnuðum edamame-baunum í ísskápnum og sauð þær í saltvatni í 4 mínútur og hellti þeim svo í sigti til að láta renna af þeim. En það má sleppa þeim og nota annað grænmeti – baunir eða annað.
Ég kreisti svo baunirnar úr belgjunum (það tekur ekki langan tíma, þær renna úr eins og bráðið smjör) og setti þær í skál en henti belgjunum. Ég skar líka niður eina rauða papriku og 2-3 vorlauka.
Ég hitaði 2 msk af olíu vel í wokpönnu (má nota venjulega pönnu, stóra), setti hjörtun á hana og steikti þau við háan hita í 1 mínútu eða svo. Hrærði í á meðan.
Svo setti ég vorlauk og papriku á pönnuna og veltisteikti áfram í 2-3 mínútur.
Bætti svo baununum á pönnuna …
Og síðan vænni lúkufylli af grænkáls- og spínatblöndu (má vera bara annaðhvort), hellti 2 msk af sojasósu yfir, lét sjóða í um 1 mínútu (alltaf á hæsta hita) og hrærði á meðan. Tók svo pönnuna af hitanum.
Setti þetta svo á diska og stráði ögn af kóríanderlaufi yfir. En því má svosem sleppa.
Það mundi passa ágætlega að hafa soðin hrísgrjón með þessu. En ég gerði það nú ekki, hjörtun og grænmetið dugðu mér alveg.
Snöggsteikt hjörtu með edamamebaunum
3 lambahjörtu, um 500 g
pipar
salt
1 tsk paprikuduft
chili- eða cayennepipar á hnífsoddi
150 g edamamebaunir
1 paprika, rauð
2-3 vorlaukar
2 msk olía
væn lúka af grænkáli og/eða spínati
2 msk sojasósa
e.t.v. kóríanderlauf