Baka bökuð

Það getur verið gott að eiga pakka af smjördeigi í frystinum og geta gripið til hans þegar á þarf að halda. Til dæmis þegar maður ætlar að búa til böku en nennir ekki að búa til bökudeig og það fæst heldur ekki tilbúið í búðinni. Það er nefnilega oft hægt að notast við smjördeig þótt uppskriftin geri ráð fyrir bökudeigi (mördeigi). Ekki að það sé neitt sérstakt vesen að búa til bökudeig svosem …

En auðvitað þarf frosna smjördeigið að þiðna; það tekur reyndar ekki nema kannski hálftíma á eldhúsbekknum ef það er tekið úr pakkanum. En það er samt betra að láta það þiðna í ísskápnum og ókei, þá er það svosem ekkert fljótlegt …

Ég átti smjördeig sem ég hafði tekið úr frysti fyrir nokkrum dögum og sett í ísskápinn af því að ég ætlaði að nota það í jarðarberjaböku. En svo varð ekkert úr því að ég gerði hana, jarðarberin fóru í annað og smjördeigið beið í ísskápnum. Það má alveg vera þar í nokkra daga en samt var nú komið að því að ég þurfti að nota það eða henda því. Og ég hendi helst ekki mat.

Ég var í Nóatúni að hugleiða hvað ég ætlaði að gera við smjördeigið og kom þá auga á reykta ýsu í fiskborðinu. Ég er ekki mikið fyrir ýsu, það eru ansi margir fiskar sem eru betri  – nema ef hún er reykt. Reyndar var reykt ýsa áratugum saman eiginlega eini maturinn sem ég borðaði alls ekki en það tengdist ekki bragðinu, heldur ákveðinni minningu – og svo tókst mér að yfirvinna það. Og eftir það er hún ósjaldan á borðum. Svo að ég ákvað að gera böku með reyktri ýsu. Keypti eitt flak sem var um 350 grömm.

_mg_6937

Ég byrjaði á að kveikja á ofninum og stilla hann á 200°C. Tók svo deigið, stráði dálitlu hveiti á borðið (ókei, á marmaraplötuna mína sem ég nota alltaf þegar ég er að vinna með smjördeig eða bökudeig), lagði deigplöturnar þar á og lét þær skarast og klessti þær saman með fingurgómunum. Flatti þetta svo ögn út.

_mg_6939

Svo lagði ég deigið yfir bökumót og snyrti kantana.

_mg_6940

Svo lagði ég eldhúspappírsörk yfir og setti farg ofan á til að deigskelin héldi lögun og botninn blési ekki upp. Ég nota leirkúlur sem ég keypti einu sinni í Divertimenti í London en áður en ég eignaðist þær notaði ég þurrkaðar baunir eða hrísgrjón (sem má svo geyma og nota aftur og aftur). Setti þetta í ofninn og bakaði „blint“ í um 15 mínútur. Þá tók ég formið út, lyfti pappírnum með farginu og lagði það til hliðar en setti bökuskelina aftur í ofninn og bakaði í svona 5 mínútur í viðbót svo að botninn væri ekki hrár.

_mg_6942

Á meðan byrjaði ég á fyllingunni. Fyrst af öllu skrapp ég út á svalir til að ná í lárviðarlauf – þau eru miklu betri fersk en þurrkuð og ég er með eina lárviðarplöntu á svölunum og aðra í eldhúsglugganum. Þessi á svölunum þrífst ívið betur eins og er en ég veit ekki hvernig hún þolir íslenskan vetur; það kemur í ljós. Ég tók þrjú lítil lárviðarlauf en annars ætti eitt eða tvö að duga.

_mg_6946

Svo setti ég 100 ml af rjóma og 150 ml af mjólk í pott (það má nota mjólk eingöngu en ég átti þennan rjóma). Skar ýsuna í bita og setti hana út í ásamt lárviðarlaufunum og dálitlum pipar. Hitaði að suðu, lét malla í 2-3 mínútur og slökkti svo undir pottinum og lét hann standa í fáeinar mínútur í viðbót.

_mg_6954

Ég tók svo fiskinn upp úr, setti hann á disk og lét hitann aðeins rjúka úr honum, en síaði mjólkurblandið. Skolaði pottinn og bræddi svo 30 g af smjöri í honum, hrærði 2 msk af hveiti saman við og hrærði svo mjólkurblandinu saman við smátt og smátt og bakaði upp sósu og lét hana malla 2-3 mínútur. Svo reif ég svona 40-50 g bita af parmesanosti, hrærði saman við og lét malla aðeins lengur. Tók svo pottinn af hitanum.

_mg_6959

Ég tók tvö egg og aðskildi þau, stífþeytti hvíturnar en hrærði rauðurnar saman við sósuna. Hreinsaði svo reyktu ýsuna (fjarlægði roð og bein), skipti henni í flögur og setti hana út í ásamt vænni lúku af grænkáls- og spínatblöndu (fæst í Bónus en það má líka nota bara annaðhvort). Að lokum blandaði ég svo eggjahvítunum gætilega saman við með sleikju.

_mg_6960

Ég setti svo allt saman í bökuskelina, lækkaði ofnhitann í 180°C og bakaði bökuna neðarlegaí  ofni í 20-25 mínútur, eða þar til fyllingin hafði stífnað.

_mg_6977

Þetta var bara alveg ágætt. Og mundi líklega duga í kvöldmat fyrir þrjá til fjóra. Ég er bara ein svo að vinnufélagarnir fengu að njóta góðs af og kvörtuðu ekkert.

_mg_6990

Reykýsubaka

1 pakki smjördeig (5 plötur)

350 g reykt ýsa

100 ml rjómi

150 ml mjólk

1-2 lárviðarlauf

pipar

30 g smjör

2 msk hveiti

50 g nýrifinn parmesanostur

2 egg

væn lúka af spínati/grænkáli

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s