Bakaðir grænir tómatar

Venjulegir tómatar eru góðir á tveimur stigum þroskaferils síns: Þegar þeir eru knallrauðir og algjörlega fullþroskaðir og rétt aðeins farnir að mýkjast – og svo þegar þeir eru alveg grænir og óþroskaðir, harðir og stinnir og óþroskaðir. Allt þar á milli vil ég ekki sjá. Ég kaupi að vísu tómata sem ekki eru orðnir nógu rauðir þegar annað er ekki í boði – en ekki til að nota þá strax, heldur til að geyma þá á eldhúsbekknum þangað til þeir eru orðnir fagurrauðir. Alls ekki í ísskápnum; tómatar eiga ekki að koma nálægt ísskáp.

En núna er tími hinna grænu tómata. Ég rakst á nokkra álitlega slíka á föstudaginn og ætlaði að nota þá um kvöldið en komst ekki til þess og svo fór ég norður og tók ekki tómatana með. Þegar ég skoðaði þá í dag þegar ég kom heim úr vinnunni voru sumir þeirra enn fagurgrænir og fínir en einhverjir voru byrjaðir að roðna. Samt ekki til skaða. Svo að ég eldaði mér græna tómata í kvöldmatinn.

Flestir hafa heyrt um steikta græna tómata og þeir eru nú ágætir en ég er frekar svona í hollustugírnum þessa dagana svo að ég ákvað að baka þá í staðinn og búa til tómata- og mozzarellaturna með basilíku. Græntómata-caprese, hef ég heyrt svoleiðis kallað. Caprese-salat er jú tómatar, mozzarella og basilíka svo það má til sanns vegar færa. Þetta er grænmetisréttur en ekki vegan út af ostinum – það mætti þó sleppa honum og bera tómatsneiðarnar bara fram með basilíku og salati og e.t.v. einhverri sósu.

_mg_6874

Ég tók þrjá tómata – tvo alveg græna og einn sem var aðeins byrjaður að roðna en var enn grjótharður – og skar þá í svona 8 mm þykkar sneiðar.

_mg_6876

Svo stráði ég dálitlu flögusalti á báðar hliðar sneiðanna og raðaði þeim á grind sem ég setti yfir disk. Þetta var til að reyna að draga út ögn af safanum. Á meðan hitaði ég ofninn í 210°C.

_mg_6879

Svo tók ég þrjá diska. Setti 3-4 msk af maísmjöli á einn og blandaði dálitlu paprikudufti, pipar og ögn af cayennepipar saman við. Á öðrum diski var slegið egg og á þeim þriðja dálítið af brauðmylsnu – ég hafði eiginlega ætlað að nota polentumjöl en það reyndist ekki vera til. Eða allavega fann ég það ekki. Ég velti svo tómatsneiðunum fyrst upp úr maísmjölinu, síðan úr egginu og að lokum brauðmylsnunni.

_mg_6885

Raðaði sneiðunum á pappírsklædda bökunarplötu, ýrði dálítilli ólífuolíu yfir þær og bakaði svo ofarlega í ofni í um 18 mínútur.

_mg_6887

Þá sneri ég þeim og bakaði á hinni hliðinni í svona 5 mínútur í viðbót.

_mg_6920

Ég skar svo mozzarellakúlu í sneiðar. Dreifði klettasalati (eða öðru salati) á disk og byggði turna úr tómatsneiðum, mozzarellaosti og basilíkublöðum.

_mg_6931

Ef þetta er gert þegar tómatsneiðarnar eru nýkomnar úr ofninum byrjar osturinn aðeins að bráðna, sem er gott (en turnarnir geta orðið svolítið skakkir og jafnvel valtir). En bragðið er ekki verra fyrir það.

Uppskriftin er fyrir einn en það má auðvitað stækka hana að vild. Svo er þetta líka fínn forréttur.

Græntómata- og mozzarellaturnar

3-4 tómatar, grænir og harðir

flögusalt

3-4 msk maísmjöl (gult, ekki maizenamjöl)

1/3 tsk paprikuduft

nýmalaður pipar

cayenne- eða chilipipar á hnífsoddi

1 egg

brauðmylsna eftir þörfum

2 msk ólífuolía

1 mozzarellakúla

basilíkublöð

klettasalat eða önnur salatblöð

18+5 mínútur í ofninum við 210°C.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s