Það var einhver á undan mér í röðinni í búðinni sem var að kaupa snakk og kex og gos og sykraða jógúrt eða skyr eða eitthvað. Ég er svosem ekkert vön að vera með nefið ofan í innkaupakörfum hjá öðrum en sá þetta útundan mér og tók kannski meira eftir því af því að þetta var í Nettó og þar eru heilsu- og lífsstílsdagar, sem ég gef nú kannski ekki mikið fyrir af því að mér sýndist það ganga dálítið mikið út á að selja alls konar unnar heilsuvörur og fæðubótarefni og brennslu- eitthvað og guðmávitahvað. En það voru líka ýmsir ávextir og grænmeti á tilboði og það var einmitt þess vegna sem ég var í búðinni.
Þetta er það sem ég keypti – 800 g af jarðarberjum og 1 kg af ferskjum og 600 g af apríkósum og 1 kg af grænum tómötum og granatepli, sítróna, límóna, salat, mjólk og snittubrauð. Þetta kostaði allt saman rétt um 2500 krónur og mér fannst það nú engin ósköp. Manneskjan á undan mér var að borga nánast nákvæmlega sömu upphæð fyrir það sem hún keypti og ég gat ekki að því gert að ég hugsaði með mér að ég væri nú að gera betri kaup.
Og hvað gerir maður svo með þetta? Það er nú ýmislegt en mér datt til dæmis í hug eftirréttur sem ég var með í MAN í sumar. Kannski fullsumarlegur, svona með tilliti til þess að í dag eru jafndægur, haustið opinberlega byrjað og ég fékk flensusprautuna mína í dag (öruggt haustmerki). Og þó. Hér er hann allavega.
Þetta er dálítið óvenjulegur eftirréttur. Mér finnst hann mjög góður en ef ykkur líst ekki á blámygluostinn má nota annan ost, t.d. brie, eða sleppa honum alveg og bera réttinn e.t.v. fram með sýrðum rjóma.
En ég byrjaði semsagt á að hita ofninn í 200°C. Svo tók ég 700-800 g af blönduðum steinaldinum – ferskjum, nektarínum og apríkósum, það má nota bara eina tegund eða hvaða blöndu sem er. Skar ávextina í tvennt og fjarlægði steinana. Svo setti ég ávextina í eldfast mót og dreifði smjörklípum yfir – svona 50 g. Setti þetta í ofninn og bakaði í um 20 mínútur, eða þar til ávextirnir eru vel meyrir og aðeins farnir að taka lit.
Á meðan tók ég 50 g af heslihnetum, setti þær á litla, þykkbotna pönnu og ristaði þær við meðalhita þar til þær voru farnar að dökkna, en þær mega ekki brenna. Eða ekkert að ráði allavega …
Jú það eru nokkrar þarna sem urðu kannski aðeins of dökkar, en bara hýðið og það er allt í lagi. Ég hellti svo hnetunum á hreint viskastykki, vafði því utan um þær og nuddaði þær þar til mestallt hýðið var dottið af.
Þá tók ég þær úr viskastykkinu og setti þær í skál. Saxaði þær svo gróft.
Ég setti líka 5 msk af balsamediki og 1 msk af hunangi í pínulítinn pott og lét sjóða niður þar til sírópið var farið að þykkna.
Samt ekki of mikið því þá verður það að mjög seigri karamellu og það er ekki meiningin. En það má líka nota tilbúinn balsamgljáa.
Svo tók ég 50 g af blámygluosti og skar í litla bita. En það má líka nota annan ost eins og ég sagði áður.
Svo tók ég ávextina úr ofninum, raðaði þeim á fat, settu ostbita á hvern ávöxt, stráði hnetum yfir, skreytti með basilikublöðum (þetta var dvergbasilíka en það má nota venjulega) og dreypti að lokum dálitlu balsamsírópi yfir allt saman.
Bakaðir ávextir með blámygluosti og balsamsírópi
700-800 g ferskjur, nekarínur og/eða apríkósur
50 g smjör
50 g heslihnetur
5 msk balsamedik
1 msk hunang
50 g blámygluostur (eða annar ostur eftir smekk)
basilíkublöð