Ég fór í heilmikla heilsurannsókn í gær – ekki vegna þess að eitthvað væri að mér eða ég væri smeyk um það, heldur var ég bara í úrtaki í rannsókn á vegum Íslenskrar erfðagreininar. Var mæld og vigtuð og mynduð og skönnuð á alla kanta og hjartalínurituð og heyrnarmæld og ég veit ekki hvað og hvað. Og út úr þessu öllu kom að ég væri bara í þokkalegu standi miðað við aldur og fyrri störf og holdafar og svoleiðis. Of þung, jú, en þó með fituprósentu rétt undir meðallagi jafnaldra minna. Þetta eru nefnilega mest vöðvar eins og ég hef alltaf sagt …
Ég held samt að ég hefði ekki komið jafnvel út fyrir nokkrum árum. Þá var ég töluvert þyngri, hreyfði mig minna (ekki að ég sé neitt mikið að hreyfa mig núna, en samt …), var fyrir tveimur árum komin með töluverð forstigseinkenni sykursýki. En svo hætti ég að borða sykur og samhliða því urðu ýmsar aðrar breytingar á mataræðinu, ekki endilega meðvitað, heldur fyrst og fremst kannski vegna þess að matarlystin breyttist. Og allt varð þetta nú til góðs fyrir heilsuna.
Eitt af því sem hefur breyst á seinni árum – en tengist þó ekki sykurleysinu – er að ég borða mun meiri fisk en áður, gjarna þrisvar eða fjórum sinnum í viku. Mér finnst hann einfaldlega mun betri núna en mér þótti þegar ég var yngri og kann reyndar líka betur að matreiða hann; er búin að átta mig á að fiskur er hinn eini sanni skyndibiti. Og svo er hann bráðhollur, ekki síst feitur fiskur eins og lax. Um að gera að borða meira af honum.
Hér er einföld og góð uppskrift. Ég gerði hana reyndar fyrir MAN í vor og hún er aðeins öðruvísi en ég geri hana fyrir sjálfa mig – ég sleppi mirin og hunangi sem hvorttveggja er sætt – en laxinn er góður á hvorn veginn sem er.
Ég var með laxaflak, svona 700-800 grömm, sem ég skar í fjóra álíka stóra bita. Svo blandaði ég saman 2 msk af olíu, 1 msk af sojasósu, 1 msk af ostrusósu, 1 msk af mirin, 1/2 tsk af hunangi og svolitlu salti og penslaði laxinn vel með blöndunni.
Ég hitaði svo grillpönnuna mína (það má líka nota útigrill eða bara venjulega steikarpönnu) og grillsteikti laxinn við góðan hita í um 3 mínútur á hvorri hlið, eða eftir þykkt; penslaði hann einu sinni eða tvisvar með afganginum af maríneringunni (ef einhver er).
Flóknara er það nú ekki. En með laxinum hafði ég sykurbauna- og granateplasalat. Ég byrjaði á að hita vatn í potti, salta það, setti svo 250 g af sykurbaunum út í og sauð þær í 2 mínútur. Hellti þeim svo í sigti, lét kalt vatn buna á þær til að stöðva suðuna og lét svo renna af þeim og hvolfdi þeim í skál.
Svo tók ég eitt granatepli, og hreinsaði fræin úr því. Til þess eru ýmsar aðferðir en mér finnst langbest að skera hring um miðjuna, bara gegnum hýðið en ekki inn í aldinkjötið, losa (rífa) það svo sundur með höndunum og halda svo helmingunum yfir skál með skurðflötinn niður og berja í hýðið með bakkanum á þungum hníf (eða með sleif eða einhverju öðru) svo að fræin hrynji ofan í skálina.
Ég blandaði svo fræjunum saman við sykurbaunirnar, ásamt vænni lúkufylli af salatblöðum (eða spínati) og slatta af mintulaufi. Ég hristi svo saman 2 msk af ólífuolíu, safa úr 1/2 sítrónu, pipar og salt, hellti yfir og blandaði vel. Setti salatið á fat og laxinn ofan á.
Grillaður lax með sykurbauna- og granateplasalat
700-800 g laxaflak með roði
2 msk olía
1 msk sojasósa
1 msk ostrusósa
1 msk mirin (má sleppa)
½ tsk hunang
salt
*
Sykurbauna- og granateplasalat
250 g sykurbaunir (snjóbaunir)
1 granatepli
væn lúkufylli af salatblöðum eða spínati
15-20 mintulauf
2 msk ólífuolía
safi úr 1/2 sítrónu
pipar
salt