Til er fólk sem finnst haustið komið strax eftir verslunarmannahelgina og margir eru farnir að tala um haust seinnipartinn í ágúst. Fyrir mér er þá enn sumar og núna í ár var að minsta kosti enginn vafi á að svo væri; eiginlega er sumrinu bara að ljúka núna. Eða ætlar einhver að halda því fram að það sé ekki sumar á þessari mynd, sem ég tók í gær?
En jæja, í dag fannst mér þó vera fyrsti haustdagurinn. Ég fór í Kópavog (byggilega hlutann) eftir vinnu til að kaupa tvær viðbótarhillur í fataskápinn minn og þar sem ég hímdi með hillurnar í roki og rigningu og beið eftir strætó fann ég að mér var orðið kalt á tánum. Og þá er komið haust. Mér verður aldrei kalt á tánum á sumrin.
Og þess vegna er tími kominn á haustlegan rétt. Einhverja bragðmikla og krassandi kássu, til dæmis. Og þá mundi ég eftir uppskrift sem ég var með í MAN í vor en er ekkert vorleg, þannig séð. Þetta er nefnilega chili con carne, sem reyndar var hugsuð fyrir fótboltakvöld; eitthvað sem hægt væri ef maður vildi að bera fram í stórri skál (eða nokkrum litlum) með maísflögum eða öðru snakki fyrir framan sjónvarpið. En þetta getur að sjálfsögðu verið venjulegur kvöldmatur, borðaður með hníf og gaffli. Eða reyndar bara gaffli, hnífur er óþarfur með öllu.
Chilikássuna má vel elda daginn áður, hún verður ekki verri fyrir það, og hita hana svo upp. Þetta er mjög einföld uppskrift (allavega miðað við sumar chiliuppskriftir sem ég hef séð) og ekkert voðalega „ekta“ svosem.
Allavega, ég var með 600 g af nautahakki og byrjaði á að hita 2 msk af olíu í víðum potti og brúna hakkið í nokkrar mínútur. Saxaði svo 1 lauk og 2-3 hvítlauksgeira, setti út í og lét krauma í nokkrar mínútur í viðbót.
Svo blandaði ég saman 3 msk af chilikryddi (kryddblöndunni (chili powder), ekki chilipipar, það er ekki meiningin að drepa neinn), 2 tsk af óreganói, pipar og salti og hrærði saman við hakkið í pottinum.
Svo tók ég 500 g af vel þroskuðum tómötum – ég var reyndar með plómutómata en það er ekki nauðsynlegt. Þeir þurfa hins vegar að vera vel þroskaðir; ef þeir eru það ekki er betra að nota bara tómata úr dós. Ég skar þá í stóra bita og setti út í …
… ásamt 200 ml af bjór (má alveg vera pilsner) og 500 ml af tómatpassata.
Hitaði þetta að suðu, kryddaði vel með tabascosósu (nokkrar góðar skvettur; það má líka nota aðra chilisósu) og lét malla í opnum potti í um 45 mínútur. Hrærði öðru hverju og bættu við svolitlu vatni eftir þörfum.
Svo opnaði ég eina dós af rauðum nýrnabaunum, lét renna af þeim í sigti og setti þær svo út í og lét malla í um 10 mínútur í viðbót.
Svo er bara að smakka og bragðbæta með tabascosósu, pipar og salti eftir þörfum. Og bera fram með kóríanderlaufi og maísflögum (og bjór ef maður er þannig stemmdur).
Chili con carne
2 msk olía
600 g nautahakk
1 laukur
2 hvítlauksgeirar
3 msk chilikrydd (ekki chilipipar)
2 tsk óreganó
pipar og salt
500 g tómatar
200 ml bjór
500 ml tómatpassata (tómatmauk)
nokkrar vænar skvettur af tabascosósu (eða annarri chilisósu)
1 dós nýrnabaunir
kóríanderlauf
maísflögur eða annað nasl
Er Chili con carne ekki upplagður til að gera daginn áður og hita svo upp? Sleppa baununum þar til í upphitun.
Jú, það er alveg tilvalið.