Hér koma eiginlega tvær uppskriftir í einni, enda er öll eldamennska (sem er nú ansi lítil) sameiginleg. Salatið sem er aðaluppskriftin er úr bókinni Létt og ljúffengt, sem ég sendi frá mér fyrir tveimur árum. Hin uppskriftin – sem er nú eiginlega ekki uppskrift – var gerð á sama tíma, úr afganginum af vínberjunum, og mér finnst endilega að ég hafi birt hana einhvers staðar, í bók eða blaði eða einhvers staðar, en finn hana ekki svo að kannski er það misminni.
Allavega: Það breytir vínberjum ansi mikið að baka þau, þau hálfþorna og verða sérlega sæt og góð. Ef maður þurrkar þau nógu lengi breytast þau náttúrlega í rúsínur en þá er betra að nota þurrkofn eða hafa ofninn á mjög lágum hita. Ég var einu sinni með íslensk vínber sem ég þurrkaði í þurrkofni og var þá komin með alíslenskar rúsinur. En það er nú ekki um það að ræða hér.
Maður þarf annars bara dálítið af vínberjum, sem er betra að séu frekar lítil. Og endilega steinlaus. Í þetta salat notaði ég svona 200 g en það er fínt að vera með meira, það má finna ýmislegt annað til að nota þau í. Ég var með bæði græn og rauð vínber.
Salatið er fínt sem smáréttur, t.d. á hlaðborð, eða sem meðlæti, ekki síst með kjúklingi.
Ég byrjaði á að kveikja á ofninum og stilla hann á 200°C og svo setti ég 3 msk af ólífuolíu og nokkrar timjangreinar (sem ég var búin að skipta í búta) í skál, ásamt dálitlu af pipar og salti.
Svo skipti ég berjunum í litla klasa, nokkur ber í hverjum, og velti þeim upp úr olíunni. Ég setti bökunarpappír á plötu, dreifði berjunum og timjaninu á hana og bakaði í miðjum ofni í 25-35 mínútur …
… eða þar til berin voru hálfþurr en ekki skorpin eins og rúsínur eða brunnin. Lét þau kólna og hellti þeim safa sem hafði runnið úr þeim í litla skál.
Svo dreifði ég vænni lúku af blönduðum salatblöðum (eða t.d. klettasalati) á fat. Dreifði vínberjaklösunum (en sleppti timjaninu) jafnt yfir ásamt 40 g af pekanhnetum og 75 g af muldum fetaosti. Hrærði svo 1 msk af nýkreistum sítrónusafa saman við vínberjalöginn og dreypti yfir.
Og ef það er afgangur af berjunum má til dæmis gera eins og hér: taka vel þroskaðan hvítmygluost, dreifa vínberjaklösum (með dálitlu timjani í þessu tilviki) í kring og strá nokkrum valhnetum (eða öðrum hnetum) yfir. Skreyta kannski með fersku timjani. Og ef maður vill hafa þetta verulega sætt má dreypa dálitlu hunangi yfir ostinn, en mér finnst það reyndar algjör óþarfi, vínberin eru það sæt.
*
Vínberjasalat
200 g vínber, lítil og steinlaus
nokkrar timjangreinar
3 msk ólífuolía
nýmalaður pipar
salt
40 g pekanhnetur
væn lúka af blönduðum salatblöðum
1 msk nýkreistur sítrónusafi
75 g fetaostur
25-35 mínútur við 200°C.