Sykurlausar (en sætar) súkkulaðilummur

Það má nú ekki alveg vanta sætmeti í tilveruna, jafnvel þótt það sé janúar og sumir (enn) í átaki og að reyna að minnka við sig sykur og svona. Og rigning og slabb alla helgina, hér í höfuðborginni allavega, svo að það er ástæða til að útbúa eitthvað til að gæða sér í í rólegheitum heima við. Til dæmis steikja lummur. Eða baka lummur, þið hafið það eins og þið viljið. Ég segi sitt á hvað.

Þessar lummur eru sykurlausar og sósan líka – en reyndar inniheldur hvorttveggja döðlur og er því ekki alveg ósætt. Það má líka sleppa sósunni og bera lummurnar bara fram með þeyttum rjóma.

Ég tók myndir af því þegar ég var að undirbúa og steikja lummurnar og gera sósuna en finn þær ekki, þær hafa annaðhvort glatast þegar gamla tölvan mín hrundi eða ég hef hent þeim óvart, það væri eftir mér. En það kemur nú líklega ekki verulega að sök.

Súkkulaðilummur5

Súkkulaðilummur með súkkulaðisósu

3 egg

6 döðlur, steinhreinsaðar

50 g smjör, brætt

300 ml mjólk

1 tsk vanilluessens

200 g heilhveiti

50 g kakóduft

2 1/2 tsk lyftiduft

1/2 tsk salt

40 g kakónibbur (má sleppa)

smjör til steikingar

Aðskildu eggin og geymdu hvíturnar en settu rauðurnar í matvinnsluvél eða blandara ásamt döðlum og smjöri og maukaðu vel. Þeyttu mjólk og vanillu saman við og síðan heilhveiti, kakódufti, lyftidufti og salti. Blandaðu að lokum kakónibbum saman við, séu þær notaðar. Hitaðu pönnu, bræddu dálítið smjör á henni og steiktu 3-4 lummur í einu við meðalhita. Bættu ögn af smjör á pönnuna á milli.

*

Súkkulaðisósa

8 döðlur, steinlausar

50 g lint smjör

kúfuð matskeið af möndlu- eða hnetusmjöri

kúfuð matskeið af kakódufti

150 ml rjómi

fersk ber, t.d. hindber

Gerðu svo sósuna. Maukaðu saman döðlur og lint smjör og hrærðu möndlu- eða hnetusmjöri og kakódufit saman við. Hitaðu rjómann að suðu og þeyttu honum saman við.

Súkkulaðilummur4 (1)

Berðu lummurnar fram með sósunni, ásamt berjum og e.t.v. þeyttum eða sýrðum rjóma. – Best að taka fram að ég er ekki að ætlast til að fólk setji svona lummustafla á diskinn sinn, juði sósu yfir og hámi allt saman í sig. Þetta var bara til að þær nytu sín betur á mynd; ein eða tvær í einu dugir alveg …

 

One comment

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s