Til Marokkó á þorranum

Eins og þið munið kannski ef þið fylgist með hér var ég (og margir aðrir) með lambakjötsátak í haust og eldaði þá ekkert kjöt nema lambakjöt í einn mánuð (eða raunar líklega eitthvað lengur) og birti fjölda uppskrifta hér. Nú er ég búin að breyta uppsetningunni og flokkuninni á blogginu dálítið svo að það er auðveldara að sjá allar uppskriftir í ákveðnum flokkum í einu vetfangi, það má gera með því að fara í felligluggann Flokkar hér til hliðar og velja lambakjöt (eða eitthvað annað). Svo er nánari flokkun í Uppskriftayfirlitinu en þar sér maður ekki myndir af öllum réttum.

Ég hef reyndar ekki birt neinar lambakjötsuppskriftir síðan þá – og reyndar engar kjötuppskriftir yfir höfuð – en það er þó ekki vegna þess að ég hafi ekki matreitt það, heldur hefur bara annað verið í forgangi; í nóvember og desember voru það gjarna jólalegar uppskriftir og núna í janúar hefur það helst verið grænmeti og salöt. Með undantekningum þó. Febrúar verður svo fiskbrúar hjá mér eins og síðustu ár og ég mun hafa fisk í matinn daglega – það þýiðir samt ekki að ég muni ekkert birta nema fiskuppskriftir en þær verða þó í forgangi.

Þess vegna finnst mér tilvalið að skjóta hér inn eins og einni kjötuppskrift, svona á milli veganúar og fiskbrúar. Hún er reyndar ekki ný, birtist í MAN haustið 2016, en passar ágætlega núna á þorranum þótt hún eigi ættir að rekja suður á bóginn. Til Marokkó sem sagt.

_MG_6088

Ég var með rúmt kíló af völdu lambasúpukjöti, allt af framparti held ég, en það má svosem nota ýmsa bita í þetta. Jafnvel stóra gúllasbita, beinlausa – en ekki litlu bitana og afskurðinn sem yfirleitt er selt sem lambagúllas. Ég fitusnyrti bitana ögn en þess þarf ekkert frekar. – Já, og svo hitaði ég ofninn í 220°C.

_MG_6089

Svo blandaði ég saman í stórri skál 1 msk af kummini, 1 msk af paprikudufti, 1 tsk af kóríanderdufti og 1 tsk af engiferdufti, ásamt pipar og salti. Bætti við tveimur lárviðarlaufum af því að ég er nú með lárviðarrunna í eldhúsglugganum en það er hreint ekki nauðsynlegt.

Svo hrærði ég 4 msk af ólífuolíu saman við og velti kjötinu vel upp úr blöndunni. Saxaði 2-3 lauka og 4 hvítlauksgeira og blandaði saman við.

_MG_6095

Sko, ef þetta á að vera ekta marokkóskt þarf maður saltaðar sítrónur (preserved lemons) sem (stundum) er hægt að fá í krukkum og er líka einfalt að gera heima, en það tekur tíma. Svo að ef maður á þær ekki má bjarga sér með því að skera sítrónu í báta og setja út í, en bragðið verður auðvitað annað. En ég átti saltaðar sítrónur, tók nokkrar slíkar (þessar eru litlar, ætli ég hafi ekki notað þrjár), skar þær  í helminga eða báta og setti út í.

Svo setti ég allt saman í pott sem þarf að vera með þéttu loki. Steypujárnspottur er auðvitað tilvalinn og af þeim á ég  nóg. Ég á líka marokkóska tagínu (sérstök gerð af leirpotti) sem hefði náttúrlega passað vel en ég var hrædd um að það gæti soðið upp úr henni. En svo á ég þennan uppháa leirpott og ákvað að nota hann. Lokið er að vísu ekki nógu þétt en ég leysti það með því að breiða álpappír yfir pottinn og setja svo lokið þar ofan á. Það er líka hægt að nota eldfast fat (eða hvaða eldfasta ílát sem er) ef lokið er þétt eða hægt að þétta það meira með álpappír.

Ég hitaði 1/2 l af vatni að suðu, hellti því yfir kjötið, lokaði pottinum, setti hann í ofninn, lækkaði hitann strax í 140°C og lét þetta alveg eiga sig í 2 1/2-3 klst. Leit ekki á það (það er samt vissara, ef lokið er ekki vel þétt, að athuga þegar líða fer á tímann hvort uppgufun sé nokkuð of mikil).

Marokkóskt sítrónulamb 5

Svo bar ég þetta fram í pottinum og hafði kúskús með – það mættu líka vera t.d. hrísgrjón.

*

Hægeldað marokkóskt sítrónulamb

1-1,2 kg lambasúpukjöt

1 msk kummin

1 msk paprikuduft

1 tsk kóríanderduft

1 tsk engiferduft

2 lárviðarlauf (má sleppa)

pipar og salt

4 msk ólífuolía

2-3 laukar

4 hvítlauksgeirar

2-3 saltaðar sítrónur eða 1 fersk sítróna

1/2 l vatn

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s