Matur og mýtur

Kannski á maður bara að elda eitthvað vetrarlegt á svona dögum, pottrétti og súpur og steikur og þess háttar. Og ég hefði svosem alveg getað gert það. En það vildi svo til að ég átti bita af löngu sem ég þurfti að elda (eða setja í frysti) og fiskur er svosem alveg notalegheitamatur líka, það vantar ekki.

Og svo átti ég eitt ágætlega þroskað avókadó líka. Bráðlá svosem ekki á að nota það en allt í einu fannst mér það og fiskurinn kallast á og ég hugsaði málið og prófaði bragðið í huganum (ég geri það stundum) og sá allt í einu að þetta gæti vel passað saman. Sem það reyndist svo gera.

Ég ákvað að hafa guacamole með löngunni. Reyndar átti ég ekki kóríander og það var heldur ekki til í Bónus og ég nennti ekki að leita víðar. En kóríander er reyndar alls ekki ómissandi í guacamole og þótt hann sé yfirleitt (en ekki alltaf) notaður í það í Mexíkó og Tex-Mex-matargerð, þá er sú alls ekki raunin alls staðar; ég fletti upp að gamni í nokkrum miðamerískum matreiðslubókum sem ég á og þar voru oftast uppskriftir að guacamole og stundum fleiri en ein og engin þeirra innihélt kóríander. (Í flestum voru reyndar harðsoðin egg og í sumum rifinn ostur en það er önnur saga.) Ég hefði vissulega notað kóríander ef ég hefði átt hann til en mér finnst alveg hægt að sleppa honum, bragðið verður bara svolítið öðruvísi. Ég átti aftur á móti smávegis steinselju og notaði hana, aðallega upp á útlitið.

En þetta var ekki matarmýtan sem ég ætlaði að tala um. Hún kemur hér neðar.

Elsta uppskriftin að guacamole sem ég hef fundið í íslensku blaði er úr Vísi í desember 1975; þar er jóla-guacamole sem er nú kannski ekki alveg hefðbundið miðað við það sem algengast er en getur svosem alveg verið ,,ekta“ fyrir því, í Mið-Ameríku og Mexíkó er til milljón og ein uppskrift:

Screen Shot 2013-02-03 at 3.33.31 PM

 

Þótt ýmislegt komi þarna spánskt fyrir sjónir er síðasta málsgreinin alveg hárrétt; það á alltaf að gera guacamole rétt áður en það er notað.

 

IMG_1802

 

En þar sem fiskurinn er fljóteldaður byrjaði ég á guacamoleinu: tók til eina lárperu, einn stóran vorlauk (eða tvo minni), eitt grænt chili-aldin (þessi eru mild svo ég notaði það nærri allt), eina límónu, hvítlauksgeira, dálítið gróft salt, steinselju í staðinn fyrir kóríanderlaufin og einn tómat. Miðað við tómatana sem fást í flestum búðum núna þarf reyndar helst að kaupa tómatinn með lágmark viku fyrirvara og láta hann standa á eldhúsbekknum eða í glugganum svo að hann nái hugsanlega að þroskast og roðna eitthvað.

IMG_1805

 

Ég byrjaði á að saxa hvíta hlutann af vorlauknum, helminginn af steinseljunni, chili-aldinið og hvítlaukinn og setja í mortél ásamt saltinu og hamast á þessu með stautnum þar til það var orðið að grófu mauki.

IMG_1811

 

Svo helmingaði ég avókadóið, fjarlægði steininn og hýðið og grófasxaði það. Saxaði líka grænu blöðin af vorlauknum, tómatinn og afganginn af steinseljunni og skar límónuna í tvennt (notaði annan helminginn á fiskinn).

Ef avókadóið er ekki mjúkt eins og smjör er ágætt að stappa það mjög gróft með gaffli.

IMG_1812

 

Svo setti ég avókadó, vorlauk og steinselju í mortélið, kreisti safa úr hálfri límónu yfir og grófsteytti þetta – það eiga að vera eftir bitar af avókadói og það á alls ekki að verða að mauki.

IMG_1827

 

Svona semsagt. – Þetta getur nú beðið rétt áð meðan verið er að steikja fiskinn en ef það þarf að bíða eitthvað lengur er um að gera að breiða plastfilmu yfir og passa að hún snerti alls staðar yfirborðið svo það komist ekki í snertingu við súrefni. Þá verður guacamoleið nefnilega grábrúnt og hálf ,,leiðinlegt“ eins og segir í úrklippunni hér ofar.

Avókadósteinninn þarna á bak við er til að rifja upp alþekkta matarmýtu sem flestir hafa líklega heyrt, það er að segja að koma megi í veg fyrir að guacamole breyti um lit með því að setja steininn í skálina. Það er tóm della eins og allir vita sem einhverntíma hafa reynt. Jú, guacamoleið helst skærgrænt undir steininum – vegna þess að hann hefur sömu áhrif og plastfilma, en bara þar sem hann hlífir yfirborðinu við snertingu við súrefni, ekkert í kringum sig. Plastfilma sem snertir yfirborðið er eina góða aðferðin. Svo er reyndar líka hægt að setja mjög mikið af límónusafa í avókadóið, þá ætti það að haldast grænt – en það verður líka mjög mjög súrt.

Þannig að ef einhver segir ykkur að setja bara avókadósteininn í skálina miðja, þá – ekki taka mark á því.

IMG_1823

 

Löngubitinn sem ég átti var um 375 g og nokkuð þykkur. Ég kryddaði hann með pipar og salti, velti honum upp úr sesamfræi og þrýsti honum vel niður í það. Svo hitaði ég 1 msk af ólífuolíu og 1 msk af smjöri á pönnu og skar niður hálfa rauða, hálfa gula og hálfa appelsínugula papriku (það mætti líka nota annað grænmeti en ég átti þessar paprikur til).

IMG_1832

 

Ég steikti fiskinn við meðalhita í fimm mínútur á annarri hliðinni og dreifði paprikubitum í kring. Sneri honum svo og steikti í svona 4 mínútur á hinni. Hrærði í paprikunum öðru hverju og saltaði þær örlítið. Ég kreisti líka safa úr hálfri límónu yfir lönguna þegar ég var búin að snúa henni.

IMG_1848

 

Bar svo fiskinn fram á pönnunni með guacamoleinu og grænu salati.

IMG_1868

 

Guacamoleið passaði alveg hreint ljómandi vel með löngunni. Sem var líka alveg mátulega elduð.

Það var afgangur af því og ég breiddi plastfilmu yfir. En henti steininum.

 

3 comments

  1. […] Allir vita að afhýtt/niðursneitt avókadó verður fljótlega grábrúnt þegar það kemst í snertingu við súrefni, sama hversu fagurgrænt eða fallega ljósgrænt það kann að vera. Við því er helst til ráða að  pakka því inn í plast eða velta því upp úr sítrussafa. Það hefur hins vegar ekkert upp á sig að setja steininn úr ávextinum í guacamoleskálina eða salatið, eins og ég sagði frá hér. […]

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s