Ókei, síðustu dagana er ég búin að vera með LCHF-uppskriftir og paleo-uppskriftir og grænmetisuppskriftir og hollustukökuuppskriftir (og sukkuppskriftir) og allt mögulegt svo nú kemur brauðuppskrift. Af einhverri ástæðu er fjöldi fólks farinn að trúa því að brauð og einkum og sér í lagi gerbrauð sé hin mesta óhollusta og gott ef ekki eitur. Ég er ekki í þeim hópi.
Reyndar hefði ég eiginlega átt að vera með annaðhvort uppskrift að einhverjum grænmetisrétti eða einhverjum svakalega rómantískum og tælandi rétti sem hver einasti karlmaður mundi falla kylliflatur fyrir. Á mbl.is í dag er nefnilega bæði frétt um að græmetisætur fái síður hjartasjúkdóma en annað fólk og að hjónaband sé gott fyrir hjartað. Eða kannski öllu heldur að einlífi sé slæmt fyrir hjartað, einkum fyrir konur, því konum sem eru einar kvað vera 60-65% hættara við hjartaáfalli en giftum konum.
Ég held annars að ég borði bara meira grænmeti.
En ég bakaði semsagt brauð. Þetta er ekki ísskápsbrauð eins og algengast er að ég baki (þótt það mætti svosem alveg geyma deigið), heldur gróft fimmkornabrauð sem ég bakaði annars vegar sem flatbrauð og hins vegar sem brauðhleif. Þar sem ég notaði nákvæmlega sama deigið hafði ég dálítið minni vökva en venjulega til að geta flatt það út í flatbrauðin.
Ég setti allt hráefnið í hrærivélarskálina í einu: 250 g heilhveiti, 200 g brauðhveiti, 100 g af fimm korna blöndu, 300 ml ylvolgt vatn, 1 msk þurrger, 1 tsk salt, 2 msk af ólífuolíu. Ég hafði svo meira hveiti tiltækt og bætti við eftir þörfum; það er alltaf auðveldara að hnoða meira hveiti saman við ef deigið er of blautt en bæta við vökva ef það er of þurrt.
Ég lét vélina hnoða deigið góða stund, þar til það var slétt og skálin hrein að innan. Deigið á að vera mjúkt og svolítið rakt – eða allavega ekki þurrt – en það á að vera auðvelt að hnoða það án þess að það klessist við hendurnar. Ég breiddi rakt viskastykki yfir skálina og lét deigið lyfta sér í svona 1-1 1/2-2 klst.
Deigið lyfti sér vel og var mjúkt og meðfærilegt en ekki eins teygjanlegt og ef ég hefði notað brauðhveiti eingöngu. Ég sló það niður (þ.e. rak hnefann ofan í það til að þrýsta úr því lofti), tók það úr skálinni, hnoðaði það aðeins og mótaði í svera lengju. Ég skar hana fyrst í tvennt en sá mig svo um hönd og ákvað að nota aðeins þriðjunginn í flatbrauðin en hitt í einn brauðhleif.
Ég skipti flatbrauðspartinum í fjóra hluta og flatti hvern um sig út í kringlótta, þunna köku. Raðaði þeim á pappírsklædda bökunarplötu og lét brauðið lyfta sér í svona hálftíma en hitaði á meðan ofninn í 225°C.
Ég mótaði sívalt brauð úr afganginum af deiginu og setti í hefunarkörfu, vel heilhveitistráða. Það má líka nota venjulega körfu eða skál, aflanga eða kringlótta, breiða viskastykki yfir og strá hveiti á það áður en deigið er sett í körfuna/skálina. Ég lét það svo lyfta sér í svona 40-50 mínútur.
Ég pikkaði flatbrauðið vel með gaffli og bakaði það ofarlega í ofni í 7-8 mínútur.
Þegar brauðdeigið var búið að lyfta sér hvolfdi ég því á bökunarplötu (eða hitaðan bökunarstein) og bakaði það á neðstu rim í 30-35 mínútur.
Ólík brauð þótt deigið sé nákvæmlega það sama.
Svo set ég hér að gamni tvær myndir af venjulegu hveitibrauði úr ísskápsdeigi, bara af því að mér þykja þær fallegar … (uppskrift, sjá krækju efst á síðunni).
Fimm korna brauð
250 g heilhveiti
200 g brauðhveiti
100 g fimm korna blanda
300 ml vatn
1 msk ger
1 tsk salt
2 msk olía