Saxbauti í lauksósu. Retró-paleó. Eða eitthvað …

Ókei, gullsúkkulaðigóðærissukkið búið, hægt að gleyma Icesave (en muna upphafið og passa að ekkert svipað gerist aftur) og snúa sér að nútímanum. Með vísun í fortíðina samt; en rétturinn er hversdagslegur og án gullskreytinga. Með ágætlega litríku meðlæti þó.

Ég hef áður skrifað um saxbauta en þá var engin uppskrift. Núna kemur hún. Og af því að ég hef verið að skrifa eitthvað um hin og þessi mataræði síðustu dagana, þá má geta þess að þessir saxbautar eru voða mikið paleo eitthvað. Svona að mestu leyti allavega. Eða það fer reyndar eftir því hvaða paleostefnu maður fylgir …

Nóg um það. Nú er það saxbauti:

IMG_1426

Ég byrjaði á að flysja eina bökunarkartöflu og hálfa sæta kartöflu, skera í bita og sjóða þar til þær voru meyrar.

IMG_1429

Þá voru það saxbautarnir. Ég tók einn lítinn rauðlauk og annan stærri, saxaði þann litla smátt en skar hinn í fjórðunga og svo í sneiðar. Tók líka til vænan kvist af fjallasteinselju, eina teskeið af þurrkuðu timjani, pipar (það má alveg pipra þetta nokkuð vel) og salt.

IMG_1434

Svo saxaði ég steinseljuna og setti hana, saxaða laukinn og kryddið í skál ásamt 550 g af nautgripahakki, 12-16 % feitu. Mér finnst það betra í bollur og buff en mjög magurt hakk. Ég blandaði þessu saman með höndunum, gætilega og án þess að hnoða. Best að handfjatla hakkblönduna sem minnst. Nema náttúrlega ef þið viljið þurra og þétta saxbauta sko …

Ég sé stundum í svona uppskriftum ráðlagt að hnoða hakkið vel til að það tolli saman. En það er miklu betra að fara einfaldlega um það mjúkum höndum. Ég skipti því í sex álíka stóra hluta og mótaði hvern um sig gætilega í kringlótt buff, svona 1,5 cm á þykkt.

IMG_1445

Svo hitaði ég 1 msk af olíu og 1 msk af smjöri (má nota bara olíu) á pönnu og brúnaði saxbautana á báðum hliðum við góðan hita; sneri þeim varlega með spaða. – Hakk sem maður kaupir í búð er alltaf ráðlegt að steikja í gegn, ef maður vill hafa buffið sitt eða hamborgarann bleikt í miðju er best að hakka sjálf og þá má steikja skemur. En fyrir saxbauta af þessu tagi er ágæt regla að steikja/elda í 1 mínútu (við vægan hita) fyrir hvern millímetra í þykkt (svo hæg eldun er líka betri upp á bragðið) svo að um leið og ég setti bautana á pönnuna stillti ég klukkuna á 15 mínútur.

IMG_1452

Ég setti niðursneidda rauðlaukinn á pönnuna á milli bautanna um leið og ég var búin að snúa þeim og hitaði svo 350 ml af vatni, hrærði 2 tsk af nautakrafti saman við, hellti á pönnuna og lækkaði hitann. Lét þetta malla rólega þar til 15 mínúturnar voru liðnar.

IMG_1454

Kartöflurnar og sætu kartöflurnar voru orðnar meyrar svo að ég hellti af þeim vatninu, bætti 2 msk af ólífuolíu í pottinn ásamt pipar og salti og stappaði þetta saman – ekki of mikið, ég vildi hafa stöppuna svolítið flekkótta. Og svo átti ég nokkur basilíkublöð sem ég saxaði og blandaði saman við en það er ekki nauðsynlegt.

IMG_1461

Þegar klukkan hringdi tók ég saxbautana af pönnunni með spaða og setti á disk, smakkaði soðið og bætti við pipar og salti og jafnaði sósuna svo með ögn af sósujafnara (Maizena-sósujafnari er þrátt fyrir nafnið úr kartöflumjöli svo að ef kartöflurnar eru paleo hlýtur hann að vera það líka, er það ekki? annars má líka hafa soðið ójafnað). Setti svo bautana aftur á pönnuna og bar fram.

IMG_1491

Saxbauti með lauksósu, kartöflu-sætkartöflustöppu, súrsuðum gúrkum og sultutaui (ókei, það er ekki paleo). Dálítið mikið retró og dálítið mikið gott.

Fínasti notalegheitamatur.

IMG_1459

Viðbót: var beðin um nærmynd af stöppunni – og áttaði mig þá á að ég hafði gleymt að ég hrærði nokkrum söxuðum basilíkublöðum saman við. En það er ekkert nauðsynlegt, hún er ágæt án þeirra.

Saxbauti í lauksósu

5-600 g nautgripahakk

1 lítill (rauð)laukur, saxaður

steinselja, söxuð

1 tsk þurrkað timjan

1/2 tsk pipar (eða meira)

salt

1 msk smjör

1 msk olía

1 (rauð)laukur

350 ml vatn

2 tsk nautakraftur

sósujafnari

Kartöflu-sætkartöflustappa

1 bökunarkartafla, meðalstór

1/2 sæt kartafla, meðalstór

2 msk ólífuolía

pipar

salt

nokkur basilíkubl0ð, söxuð

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s