Gullskreyttir góðærissnúðar

Ég hélt upp á lyktir Icesave-málsins. Þó nú væri. Það gladdi mig ósegjanlega því þetta hefði getað farið svo illa.

En mér finnst satt að segja að það eigi fyrst og fremst að rifja upp hvernig þetta byrjaði allt saman og hvað Icesave var. Og af því að ég baka gjarna þegar ég er að halda upp á eitthvað, þá ákvað ég að baka eitthvað gott til að fagna. Og fannst þá viðeigandi að hafa það eitthvað sukksamt og óhollt og óhófslegt og ofskreytt. Og fannst líka viðeigandi að vaða út í það beint af augum og vita ekkert hvernig allt færi, láta bara ráðast og treysta á lukkuna.

Svo að ég bakaði snúða. Þeir eru eitthvað svo Icesave-legir.

Súkkulaðisnúða, með súkkulaði í deiginu og fyllingunni og ofaná. Og viðeigandi skreytingu.

Ég tók ekki myndir af deighnoðuninni en ég byrjaði á að velgja 200 ml af mjólk og stráði svo 1 msk af þurrgeri yfir. Vigtaði 75 g af sykri og stráði 1 msk af honum yfir gerblönduna og lét standa í svona 10 mínútur. Á meðan bræddi ég 60 g af smjöri og 100 g af suðusúkkulaði í litlum potti við vægan hita (má auðvitað líka nota örbylgjuofn), hrærði og tók af hitanum um leið og súkkulaðið var bráðið og lét kólna aðeins.

Svo vigtaði ég 40 g af kakódufti og blandaði saman við afganginn af sykrinum. Setti þetta út í gerblönduna ásamt 1 eggi, 1 tsk af vanilluessens og 1/2 tsk af salti. Hrærði þessu saman við ásamt súkkulaði-smjörblöndunni og um 350 g af hveiti. Ég notaði hnoðkrókinn á hrærivélinni og hnoðaði býsna vel, þar til deigið var alveg slétt og gljáandi, þétt og blautt án þess að klessast mikið við.

IMG_1529

 

Svona einhvernveginn. Ég lét deigið svo lyfta sér í svona einn og hálfan til tvo tíma.

IMG_1531

 

Þá setti ég það á borð (eða marmaraplötu í þessu tilviki) og stráði góðum skammti af hveiti undir og ofan á.

IMG_1535

 

Svo flatti ég það út frekar þunnt …

IMG_1539

 

… bræddi svona 2 msk af smjöri og smurði því á deigið með sleikju og svo stráði ég 75 g af grófsöxuðum pekanhnetum og 75 g af súkkulaðidropum jafnt yfir.

IMG_1542

 

Ég rúllaði deiginu upp frá annarri langhliðinni, ekki mjög fast, og skar lengjuna í 1 1/2-2 cm þykkar sneiðar – þetta urðu 24 snúðar í allt.

IMG_1555

 

Svo raðaði ég snúðunum á bökunarplötur, 12 á hvora, og lét þá lyfta sér í svona 40 mínútur. Hitaði ofninn í 200°C (reyndar b7rjaði ég á 215°C en það var of mikið) og penslaði snúðana með bráðnu smjöri áður en þeir fóru í ofninn. Á næstefstu rim í 12 mínútur. Af því að ég var að gera þetta upp úr mér var ég hvorki viss um hvaða hita né tíma ég ætti að hafa og fyrri skammturinn varð aðeins of dökkur á botninum. En 12 mínútur við 200°C reyndist passa.

IMG_1559

 

Snúðarnir eru reyndar alveg í lagi eins og þeir koma fyrir bara.

IMG_1569

 

En hey, þetta eru ekki hvaða snúðar sem er, þetta eru Icesave-snúðar. Svo að ég bræddi súkkulaði og dreypti svona teskeið yfir hvern snúð um sig.

En það var ekki nóg. Eins og ég sagði, þetta eru Icesave-góðæris-Landsbankasnúðar.

IMG_1565

Svo að ég náði í blaðgullsforða heimilisins. (Þetta er alvörugull, sko. Þeir hjá Landsbankanum hefðu ekki þurft að skammast sín fyrir þetta.)

IMG_1592

 

Og setti dálitla gullflögu á hvern einasta snúð.

IMG_1601

Og svo beit ég í snúðinn og rifjaði upp hvernig þetta var nú allt með Icesave. Hvernig það kom til og hverjir voru á bak við.

Þetta var samt fínasti snúður.

 

Alvöru góðærissnúðar

200 ml mjólk

1 msk þurrger

75 g sykur

60 g smjör

100 g suðusúkkulaði

40 g kakóduft

1 egg

1 tsk vanilla

½ tsk salt

um 350 g hveiti

75 g pekanhnetur

75 g súkkulaðihnappar

 

ofan á:

100 g suðusúkkulaði

blaðgull eftir efnum og ástæðum

 

 

2 comments

  1. Þetta er nú það girnilegasta sem nemandi getur óskað sér þegar hann á að vera í kafi í lestrinum, Takk fyrir æðislegar uppskriftir 🙂

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s