Það var annars að renna upp fyrir mér að ég er alveg í því þessa dagana að gera eitthvað sem getur sem best fallið undir hinn eða þennan kúr eða mataræði. Meira og minna óvart samt. Til dæmis var ég að átta mig á því að saxbautarnir sem ég steikti mér í hádeginu eru voða mikið paleo og sama gildir eiginlega um gæsabringuna sem ég neyddist til að elda í gærkvöldi (uppskriftir að hvorutveggja koma líklega seinna í vikunni).
Þessir hafrabitar eru aftur á móti hvorki paleo né LCHF, ekki hráfæði heldur, en þeir eru hveitilausir, glútenlausir (það er að segja ef hafrar eru glútenlausir, sem mér skilst að sé ekki á hreinu), sykurlausir (en með hunangi), eggjalausir, mjólkurlausir, lyftiefnalausir, fitulausir (fyrir utan fituna sem er í höfrunum og fræjunum og svona) og falla ábyggilega undir einhverja mataræðistísku. Ég ruglast alltaf í þessu svo ég þori ekki að segja. Það sem ég veit er að þeir eru bara alveg ágætir.
Ég byrjaði á að hita ofninn í 170°C og svo vigtaði ég 225 g af hafragrjónum. Eins og ég hef áður sagt, þá heita valsaðir hafrar hafragrjón í mínum huga (enda stendur havregryn á pakkanum); haframjöl er allt annað, það er að segja malaðir hafrar. En nú vildi svo til að mig vantaði haframjöl en ekki grjón svo ég setti hafragrjónin í matvinnsluvélina. – Þetta voru grófvölsuð hafragrjón, það má líka nota venjuleg en mér þykja þessi betri í svona.
Svo lét ég vélina ganga þar til grjónin voru orðin að haframjöli. Það þarf þó ekkert að vera slétt og fínt og reyndar betra að það sé það ekki.
Saman við þetta setti ég svo 150 ml af eplamauki úr krukku, 100 ml af þunnu hunangi, 1/2 tsk af kanel og 1/4 tsk af salti og lét vélina ganga þar til allt var hrært vel saman.
Svo mældi ég 100 ml af sólblómafræjum, 100 ml af rúsínum og 100 ml af þurrkuðum trönuberjum og blandaði þeim saman við – ég notaði sleikju en það má nota púlshnappinn á matvinnsluvélinni, bara rétt til að blanda þessu saman – það á ekkert að hakka berin, rúsínurnar og fræin saman við deigið.
Ég klæddi eldfast mót, líklega svona 20×15 cm, að innan með bökunarpappír, hellti deiginu í það og þrýsti því jafnt niður með blautum lófa. Setti þetta svo í miðjan ofn og bakaði í svona 35 mínútur.
Þá var kakan farin að brúnast vel á jöðrunum og yfirborðið hafði allt tekið dálítinn lit.
Ég lyfti henni upp úr forminu og skar hana í ferninga á meðan hún var enn svolítið volg.
Fín með kaffi. Og ekkert slæm með rauðvínsglasi heldur, það uppgötvaði ég í gærkvöldi.
Hafrabitar með trönuberjum og rúsínum
225 g hafragrjón
150 ml eplamauk
100 ml þunnt hunang
½ tsk kanell
¼ tsk salt
100 ml sólblómafræ
100 ml rúsínur
100 ml trönuber (má líka nota önnur þurrkuð ber eða smátt skorna þurrkaða ávexti)