LCHF ekki-pizza

Ég var spurð að því um daginn á hvaða mataræði ég væri. Ekki hvort ég væri á einhverju sérstöku mataræði, heldur hvaða mataræði. Ég sagðist vera á sælkeramataræði, eins og sæist reyndar á mér.

En ég hef aldrei nokkurn tima verið á neinu tilteknu mataræði, hvað þá heldur farið í einhvern kúr. Ég náttúrlega ólst upp á gamaldags íslenskum sveitamat, sem líklega væri hægt að flokka sem einhvers konar kúr, hver veit … það var allavega nóg af próteinum (kjöti, mjólk og mjókurmat, minna þó af fiski), kolvetnum (brauði, bakkelsi, kartöflum) og fitu. Minna um bætiefni og svoleiðis, að ekki sé talað um andoxunarefni (afar lítið af grænmeti og ávöxtum). En maður þreifst ágætlega á þessu.

Svo bættist við þessi venjulegi íslenski hversdagsmatur áttunda og níunda áratugarins. Og einhverntíma á þeim árum uppgötvaði ég hvað er gaman að elda og hvað það er auðvelt og skemmtileg að elda góðan mat. Og það er svo margt sem mér finnst gott að ég hef aldrei getað hugsað mér að binda mig við eitthvert sérstakt mataræði sem takmarkar að einhverju leyti allt þetta góða og ljúffenga sem mér finnst svo gaman að gera.

Það þýðir þó ekki að ég hugsi aldrei um hollustuna í því sem ég er að gera. En ég nenni samt ekki að eltast við alla þessa kúra og mataræði, Atkins-Miðjarðarhafs-DDV-kálsúpu-South Beach-Paleo-greipaldin-LCHF-hráfæðis-GI og hvað þeir nú heita allir saman. Mér leist ekkert illa á hvítvíns- og prinspóló-kúrinn sem ég heyrði af hérna um árið en hefði ekki enst lengi á honum, held ég. Þessir kúrar/mataræði hafa örugglega hver til síns ágætis nokkuð, ekki efa ég það. En held að þeir séu ekki fyrir mig.

Ég fletti samt oft bókum og blöðum sem heyra til þessum kúrum og mataræðistískubólum og það er oft hægt að finna í þeim fínar uppskriftir, það vantar ekki. Uppskriftin sem hér fer á eftir er til dæmis sniðin eftir nokkrum LCHF (low carbohydrates, high fat) uppskriftum sem ég hef verið að skoða. Þar er þetta yfirleitt kallað pizza en ég vil helst ekki gera það, mér finnst pizza bara vera alvörupizza … ég vil frekar kalla þetta ommelettu eða eitthvað slíkt.

IMG_1147

Ég byrjaði á að kveikja á ofninum (170°C) og ná í matvinnsluvélina. Í hana setti ég svo 3 egg, 80 g af rjómaosti, einn hvítlauksgeira, 1 tsk af timjani og 2 tsk af óreganói, pipar og salt. Þeytti þetta vel saman.

IMG_1150

Svo reif ég niður 125 g af osti – eða ætlaði að rífa en osturinn sem ég átti var Havarti og það er erfitt að rífa hann svo ég reif muldi hann bara í bita – og svona 30 g af parmesanosti. Setti þetta í matvinnsluvélina ásamt 100 ml af rjóma og þeytti saman við eggja- og ostablönduna.

IMG_1157

Ég tók svo bökunarplötu, setti hring utan af smelluformi (stærri gerðinni) á hana – en ekki botninn – klæddi hann innan með bökunarpappír og hellti eggja-ostablöndunni í hringinn. Ég hefði líka getað notað form, kringlótt eða kantað, en vildi frekar gera það svona til að þurfa ekki að lyfta ommelettunni upp úr forminu. Setti hana svo neðarlega í ofninn og bakaði í 18 mínútur.

IMG_1175

Þá tók ég eggjakökuna út og hækkaði um leið ofnhitann í 215°C. Fjarlægði smelluformshringinn og þá leit þetta svona út.

IMG_1177

Ég smurði botninn með sósu sem var gerð úr (ég notaði bara helminginn) 200 ml af tómat-passata, 5-6 sólþurrkuðum tómötum í olíu og nokkrum basilíkublöðum sem ég þeytti saman í matvinnsluvélinni.

IMG_1181

Svo reif ég sundur nokkrar sneiðar af hráskinku og dreifði þeim yfir. Skar niður 4-5 sveppi og setti ofan á ásamt einum poka (12 stk.) af litlum mozzarella-kúlum. Setti þetta svo ofarlega í ofninn og bakaði í svona 7-8 mínútur, eða þar til osturinn var vel bráðinn.

IMG_1196

Ég setti lúkufylli af klettasalati ofan á ommilettuna um leið og hún kom úr ofninum og stráði nýmöluðum svörtum pipar yfir. Þetta losnar auðveldlega frá pappírnum ef maður smeygir kökuspaða undir sneiðarnar.

IMG_1207

Nei, þetta er ekki pizza. En alveg hreint ágætt fyrir það. Og ef þið eruð á LCHF eða hvað það nú heitir ætti þetta að smellpassa.

Ég fékk mér samt nýbakað brauð með.

Pizzu-osta-eggjakaka

3 egg

80 g rjómaostur

1 hvítlauksgeiri

2 tsk þurrkað óreganó

1 tsk þurrkað timjan

pipar

salt

125 g ostur (ég notaði Havarti)

30 g parmesanostur

Sósa:

200 ml tómat-passata

5-6 sólþurrkaðir tómatar

basilíkublöð

Álegg:

6-8 sneiðar af hráskinku

nokkrir sveppir

12 mozzarellakúlur (eða 1 stór kúla)

klettasalat

nýmalaður pipar

5 comments

  1. Langar mjög svo að prófa þessa ! – heldur að það sé hægt að gera hana bara úr eggjahvitum ?

    • Ég hugsa að það sé alveg möguleiki en þá mundi ég líklega prófa að nota meira af rjómaosti, kannskki 125 g eða svo, og léttþeyta (ekki stífþeyta) eggjahvíturnar og bæta þeim út í síðast, á eftir ostinum og rjómanum.

  2. Heyrðu, við Arnar gerðum einmitt útfærslu af þessu um daginn og vorum algjörlega sammála um það sem þú segir. Þetta er prýðis ommiletta en engan veginn hægt að kalla pizzu.

    • Nei, akkúrat. – En ég komst að því í gær að hún er líka fín köld daginn eftir og það má t.d. vefja hana upp og hafa í nesti.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s