Ég sagði fyrir nokkrum dögum að það yrði eldað lambakjöt hér á bæ á næstunni og það hefur staðist, Landssamband sauðfjárbænda yrði örugglega hæstánægt með mig. Til dæmis gerði ég marokkóskan lambakjötsrétt með kúskús handa fjölskyldunni í gærkvöld en það kemur ekki uppskrift að því, enda tók ég engar myndir (ég get semsagt ennþá eldað án þess að taka myndir af því, alveg satt).
Aftur á móti er hér uppskrift að lambalærissneiðum með steiktum grænmetisteningum sem ég eldaði mér á dögunum. Frekar fljótlegur og einfaldur réttur og alveg hreint ágætur. Ég hef stundum kvartað yfir því að Bónus, sem er sú búð sem ég versla líklega oftast í, einfaldlega vegna þess að hún er næst mér (10-11 telst ekki með), selji afskaplega lítið af ófrosnu, ókrydduðu lambakjöti – oftast ekki neitt satt að segja – en að undanförnu hafa þar verið til lærissneiðar, tvær saman í bakka – sem er svosem passlegur skammtur fyrir mig því þá á ég afgang að taka með í nesti í vinnuna. Eða þá að ég elda mér lærissneið tvo daga í röð, bara ekki eins.
Þegar talað er um gulrófur og lambakjöt dettur líklega flestum kjötsúpa í hug (eða rófustappa) en það er hægt að gera ansi margt annað við rófurnar. Í fyrradag var ég með uppskrift að butternut- og rófusúpu en hér notaði ég hinn helminginn af rófunni og steikti á pönnu. Steiktar og ofnbakaðar rófur eru allt annar matur en soðnar og margfalt betri.
Ég byrjaði á að taka lærissneiðarnar úr kæli svo þær færu ekki ískaldar á pönnuna og hita ofninn í 200°C.
Svo tók ég eina bökunarkartöflu, hálfa frekar litla gulrófu og einn lítinn rauðlauk og skar þetta í teninga, svona 1 cm á kant. Ég var líka með heimaþurrkaða basilíku, nýmalaðan pipar og salt.
Svo hitaði ég svona 2 msk af ólífuolíu á lítilli pönnu og setti allt saman á hana. Steikti þetta við nokkuð góðan hita og hrærði oft í á meðan.
Ég steikti teningana þar til þeir höfðu tekið góðan lit – svona 6-8 mínútur í allt. Þá setti ég pönnuna í ofninn. – Ef notuð er panna sem ekki þolir að fara í ofninn má auðvitað hella þeim í eldfast mót en þá er gott að hita það í ofninum fyrst. Þetti ætti að þurfa svona 12 mínútur í ofninum en það fer þó eftir því hvað teningarnir eru stórir.
Ég hitaði 1 tsk af olíu og 1 tsk af smjöri á annarri pönnu, kryddaði lærissneiðarnar með grófmöluðum pipar og salti og brúnaði þær við háan hita á báðum hliðum. Svo setti ég þær í lítið eldfast mót (sem ég var búin að hita) og stakk þeim í ofninn í svona 6 mínútur (eða eftir þykkt og hvað maður vill hafa þær mikið steiktar). – Það má auðvitað setja þær í ofninn á pönnunni, ef tvær pönnur komast í ofninn í einu, eða einfaldlega leggja þær ofan á grænmetisteningana. Mér finnst þó best að hafa hvort í sínu lagi.
Ég tók þær svo út og lét þær jafna sig í nokkrar mínútur. Athugaði hvort grænmetið væri orðið meyrt, sem það var, en annars hefði ég látið það vera nokkrum mínútum lengur. Soðið úr mótinu má bera fram með kjötinu (sem er ein ástæða þess að mér þykir betra að hafa lærissneiðarnar sér en ekki ofan á grænmetinu).
Með þessu þarf ekkert nema græn salatblöð.
Kjötið var alveg mátulegt fyrir minn smekk. Og grænmetisteningarnir brakandi góðir, sérstaklega gulrófan.
Lærissneiðar með steiktum grænmetisteningum
2 lærissneiðar
1 bökunarkartafla
1/2 gulrófa, frekar lítil
1/2 rauðlaukur, frekar lítill
1/2 tsk þurrkuð basilíka
nýmalaður svartur pipar
salt
ólífuolía
smjör
Brill, sammála þér með steikt og bakað rótargrænmeti. Allt önnur Elíza.