Ég bakaði kex í gær. Heilhveitikex með fræjum. Alveg bærilega hollt, held ég, þótt í því væri hvorki spelt, vínsteinslyftiduft (en reyndar ekkert lyftiduft), kókosfeiti (en reyndar engin fita, nema í fræjunum) né agavesíróp (en reyndar enginn sykur). Hollustan er nefnilega oftast frekar í því að sleppa því sem er minna hollt (þ.e. velja uppskriftir þar sem það er ekki) eða nota minna af því en nota eitthvað í staðinn sem hefur í rauninni sömu áhrif.
Þetta kex er fljótgert og einfalt, tiltölulega fá hráefni og hægt að breyta því á ýmsa vegu. Ég notaði ferskt rósmarín í það en það má alveg sleppa því eða nota aðrar kryddjurtir eða krydd, til dæmis kúmen. Það má líka nota minna salt, nota annars konar fræblöndu og margt annað.
Kexið er frekar bragðmikið og alveg hægt að borða það eintómt sem snakk en það er líka gott með osti og ýmsu öðru, til dæmis hummus.
Ég byrjaði á að kveikja á ofninum og stilla hann á 215°C.
Ég bakaði lítinn skammt, bara eina plötu, og til þess notaði ég 125 g af heilhveiti, nálar af 1 rósmaríngrein, 1/4 tsk af salti og 2 msk af ólífuolíu.
Ég setti þetta í matvinnsluvélina og lét hana ganga smástund, þar til rósmarínið hafði saxast mjög smátt. Þá bætti ég 4 msk af vatni út í og lét vélina ganga áfram, þar til þetta var orðið að mylsnu. Þá athugaði ég hvort mylsnan hnoðaðist vel saman en hún var aðeins of þurr og ég bætti við 1-2 tsk af vatni.
Þetta lítur út eins og þurr mylsna en um leið og maður klípur í það hnoðast það saman. Ég hnoðaði það í kúlu og setti á hveitistráð vinnuborð (eða reyndar marmaraplötu).
Svo flatti ég það út, nokkurn veginn eins þunnt og ég gat. Það þarf ekkert að vanda sig neitt sérstaklega við að hafa það reglulegt að lögun.
Ég blandaði saman 1 1/2 tsk af sesamfræi, 1 1/2 tsk af fimm korna blöndu (eða annarri fræblöndu) og 1/4 tsk af flögusalti eða grófu salti (þetta er íslenska saltið).
Svo penslaði ég deigið með köldu vatni, stráði fræblöndunni jafnt yfir og skar það svo með kleinujárni (eða pítsuhjóli) í ferninga. Ég var ekkert að vanda mig nett sérstaklega við þá, finnst þeir bara skemmtilegri ef þeir eru óreglulegir, en það má auðvitað líka mæla þá út og nota reglustiku … Ég raðaði svo kexinu á pappírsklædda bökunarplötu og bakaði það á næstefstu rim í 8-10 mínútur; bökunartíminn fer eftir hve þykkt það er og best að fylgjast vel með því síðustu mínúturnar.
Mér finnst betra að baka þetta kex aðeins meira en minna (þó ekki svo að það fari að brenna) til að rista fræin örlítið.
Rósmarínið í kexinu og hnetukeimurinn af fræjunum passar alveg ljómandi vel með osti.
Heilhveiti-frækex með rósmaríni
125 g heilhveiti
1 rósmaríngrein
1/4 tsk salt
2 msk ólífuolía
4 msk vatn, eða eftir þörfum
(og til penslunar)
1 ½ msk sesamfræ
1 ½ msk fimm korna blanda
¼ tsk gróft salt