Það var í fréttunum um daginn að allt að helmingi allra matvæla á Vesturlöndum væri hent, minnir mig. Auðvitað er töluvert af þessu rýrnun í verslunum en mjög miklu er líka hent heima. Ég ætla nú samt að halda því fram að ég hendi ívið minni mat en gengur og gerist. Það er þó ekki vegna þess að ég sé svo óskaplega skipulögð í innkaupum, öðru nær, ég kaupi oft eitthvað sem ég hef ekki hugmynd um hvað ég ætla að gera við – kaupi það af því að mig langar í það eða langar að elda það og ákveð svo seinna hvað ég ætla að gera. En allt nýtist þetta nú og stundum verða til fínir réttir bara af því að ég á til eitthvert hráefni sem ég þarf að fara að nota.
Svo er það nú þannig, þegar maður er einbúi, að það verða oft afgangar, ýmist af hráefni eða fullelduðum mat. Sumt er ekki hægt að kaupa í litlum skömmtum (eða borgar sig ekki að kaupa) og sumt er erfitt að elda í nógu litlum skömmtum eða það hentar betur að elda stærri skammta. Mér finnst líka, eins og ég hef áður sagt minnir mig, oft gaman að elda úr afgöngum; það er spennandi að taka einhvern góðan rétt og búa til allt annan rétt úr honum, kannski ekkert síðri. Svo að oft kaupi ég viljandi meira en dugir mér í eina máltíð.
Þannig var til dæmis með lönguna sem ég keypti á dögunum og var með uppskrift að hér í fyrradag. Ég keypti lönguna í fiskborði og hefði vel getað fengið bita sem var hæfilegur í eina máltíð fyrir mig en keypti helmingi stærri bita, 375 g. Ég hefði líka getað skipt honum í tvennt og eldað helmingana á gjörólíkan hátt tvo daga í röð en ég ákvað að elda allt saman og nota afganginn. Mig langaði nefnilega í fiskibuff. (Auðvitað má svo nota aðrar fisktegundir.)
Þetta var rétt tæplega helmingurinn af fiskinum, svona 180 grömm með sesamfræi og öllu, og þar sem það var smáafgangur af steiktu paprikunum sem ég hafði með löngunni notaði ég þær líka – en það má sleppa þeim og nota þá kannski 1-2 matskeiðar af paprikumauki eða tómatpestó í staðinn. Svo notaði ég eina bökunarkartöflu (um 200 g), flysjaða og skorna í bita, 2 vorlauka, 1 egg, sítrónu (notaði bara börkinn), smábita af heimabökuðu baguettebrauði (samsvarandi 2 brauðsneiðum), pipar og salt.
Ég sauð kartöflurnar þar til þær voru meyrar og á meðan reif ég brauðið smátt og setti í matvinnsluvélina ásamt vorlauknum, paprikunni (en ekki fiskinum), rifnum berki af 1/2 sítrónu, pipar og salti.
Ég lét vélina ganga þar til þetta var orðið að mauki og hrærði þá egginu saman við.
Þegar kartöflurnar voru meyrar hellti ég vatninu af þeim, lét þær standa í pottinum í 1-2 mínútur til að láta gufuna rjúka (þá verða þær þurrari og stappan þéttari) og stappaði þær svo. Síðan hrærði ég maukinu saman við.
Svo losaði ég fiskinn í sundur í flögur, setti hann út í og hrærði saman með sleif. Ekki of mikið, ég vildi alls ekki stappa hann, heldur hafa flögur og bita í farsinu.
Ég setti hveiti á disk, stráði hveiti á hendurnar og mótaði kringlótt buff úr farsinu – svona 2-2 1/2 cm þykk – þetta urðu sjö buff í allt en það má hafa þau minni um sig og fleiri. Ég velti þeim upp úr hveiti.
Ég hitaði svona 2 msk af olíu á pönnu og steikti buffin við meðalhita í nokkrar mínútur á hvorri hlið, þar til þau voru fallega gullinbrún. Það þarf ekkert að steikja þau í gegn þar sem fiskurinn, kartaflan og grænmetið er allt foreldað.
Ég átti afgang af guacamole (enn fallega grænu af því að ég hafði þrýst plastfilmu á yfirborðið) og hafði það með, ásamt salati úr salatblöndu og saxaðri papriku – það var semsagt bæði paprika í buffunum og með þeim.
Auðvitað var afgangur af þessum sjö buffum svo þau dugðu í þriðju máltíðina, ég tók afganginn með í nesti í vinnuna. Þau voru ágæt köld líka.
Paprikufiskibuff
1 bökunarkartafla, 200-250 g
180-200 g steiktur eða soðinn fiskur
dálítið af steiktri papriku eða 2 msk paprikumauk eða rautt pestó
2 vorlaukar
1 egg
rifinn börkur af 1/2 sítrónu
1-2 brauðsneiðar eða biti af baguette
pipar
salt
hveiti til að velta buffunum upp úr
2 msk olía til steikingar
Þó að þetta séu buff en ekki bollur, þá held ég að þær séu alveg kjörnar i að vera á matseðlmum á bolludeginum sjálfum.