Súpa og snakk

Ég er ekki með eldhús þessa stundina – eða það er að segja, það er í rúst vegna breytinga, aðallega bara sökklar, tveir skápar að vísu óhreyfðir en þeir ná upp í loft svo að það er enginn eldhúsbekkur (ég er að norðan svo að þegar ég segi eldhúsbekkur á ég ekki við eitthvað til að sitja á) og engin vinnuaðstaða. Eldavélin er þarna að vísu enn svo að ég hefði svosem getað mallað eitthvað en ég nennti nú ekki að standa í því og fékk mér bara eitthvert snarl.

Ég hefði allavega átt í vandræðum með að gera súpuna sem hér er uppskrift að. En þar sem ég gerði hana nú snemma í vor eða kannski var það í fyrravetur, þá skiptir það ekki máli. Þetta er semsagt nípusúpa.

Nípur eða parsnips (nei, þetta er ekki steinseljurót þótt það sé oft merkt þannig, það er annað grænmeti og ekki sambærilegt en að vísu svipað í útliti) fást nú yfirleitt í búðum en því miður eru það oft stórar og bústnar nípur, sem eru ekki eins sætar og góðar og þær sem eru minni og mjórri. Þær henta þó vel t.d. í súpur eins og þessa hér og svo má gera úr þeim stökkar flögur. Og það var einmitt það sem ég byrjaði á.

Flögurnr má auðvitað borða bara eins og snakk, það þarf ekkert að gera súpu …

_mg_8960

Ég byrjaði á að hita ofninn í 180°C. Svo tók ég eina stóra nípu (samt ekki eins stóra og þá sem ég sá í búð um helgina, sverari endinn var á stærð við væna gulrót; ég hef enga trú á að hún væri góð) og skar hana í 1-2 mm þykkar sneiðar. Það er auðvitað einfaldast ef maður á mandólín (sjá mynd) en annars má nota beittan hníf.

_mg_8961

Ég setti svo 2 msk af ólífuolíu í skál, kryddaði með pipar og salti og velti nípuflögunum upp úr olíunni.

_mg_8962

Setti svo bökunarpappír á plötu, raðaði nípusneiðunum á hana og bakaði þær í miðjum ofni í svona 15-20 mínútur, eða þar til flögurnar voru þurrar og stökkar en ekki brunnar.

_mg_8964

Það er best að fylgjast vel með síðustu mínúturnar og taka jafnvel flögurnar af plötunni jafnóðum og þær eru tilbúnar.

Svo gerði ég súpuna en ég hef líklega gleymt að taka myndir af undirbúningnum, allavega finn ég þær ekki. En ég byrjaði á að taka nípur, svona 500-600 g, flysja þær og skera í sneiðar (þurfa ekkert að vera þunnar). Setti þær í pott með saltvatni og sauð þær þar til þær voru meyrar (10-15 mínútur). Á meðan setti ég 1/2 l af mjólk, 1-2 rósmaríngreinar, einn lítinn hvítlauksgeira, saxaðan, og  1/2 tsk af piparkornum í pott, hitaði að suðu og slökkti svo undir pottinum og lét standa í nokkrar mínútur.

_mg_9038

Þegar nípurnar voru soðnar hellti ég vatninu af þeim, setti þær í matvinnsluvél og maukaði þær. Síaði svo mjólkina og hellti henni út í smátt og smátt og lét vélina ganga á meðan, þar til súpan var alveg slétt. Þá hellti ég henni aftur í pottinn og bætti við 100 ml af rjóma (það má sleppa honum en þynna bara súpuna eftir smekk með aðeins meiri mjólk) . Ég saxaði svo 1-2 vorlauka smátt, tók hluta af grænu blöðunum frá en setti hitt út í og lét súpuna malla í 2-3 mínútur. Smakkaði og bragðbætti með pipar og salti.

_mg_9035

Svo setti ég súpuna í skál, skreytti með nípuflögum og grænum vorlauk og bar afganginn af flögunum fram með.

*

Nípusúpa með vorlauk og nípuflögum

 

500-600 g nípur

salt

500 ml mjólk

1-2 rósmaríngreinar

1 lítill hvítlauksgeiri, saxaður

½ tsk piparkorn

100 ml rjómi (má sleppa)

1-2 vorlaukar

*

Nípuflögur

1 stór nípa

2 msk ólífuolía

pipar

salt

2 comments

  1. Það væri mjög spennandi að fá að fylgjast með eldhúsframkvæmdum, eru kannski smartland, hús og híbýli eða heimsókn með Sindra búin að tryggja sér að ,,skúbba“ því.

    • Nei, ekkert svoleiðis. Þetta eru í sjálfu sér engar stórframkvæmdir, ég þurfti aðallega að koma fyrir uppþvottavél, sem ekki var hér áður, fá stærri vask af því að eftir að hafa vanist stórum vaski get ég ekki hugsað mér annað og skipta um borðplötu af því að ég losaði mig við helluborðið sem var hér fyrir þegar ég keypti íbúðina í sumar (ég flutti stóru gaseldavélina mína með mér). Og fyrst var svo farið í þetta á annað borð eru gerðar ýmsar smábreytingar í leiðinni.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s